07.07.1919
Neðri deild: 3. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (2884)

21. mál, landsbókasafn og landsskjalasafn

Einar Arnórsson:

Þótt frv. þetta sje fætt í milliþinganefnd, þá er það þó misráðið. Hjer er verið að reyna að spara fje, með því að steypa saman tveimur embættum, en jeg er vonlaus um að það takist, því að í rauninni verður þetta ekki til annars en að fjölga embættum. Nú sem stendur eru embættin tvö, yfirskjalavörður og yfirbókavörður. þessum embættum á að steypa saman, eftir frv. Þá á að skipa tvo menn, er verði undir umsjón þessa þriðja manns, og býst jeg við, að þessir tveir menn komi í stað yfirskjalavarðar og yfirbókavarðar nú, og verði því embættin þrjú, í stað tveggja nú.

Sameiginlegi yfirmaðurinn, sem í stjórnarfrv. er stungið upp á, yrði að mestu leyti aðgerðalítil „toppfígúra“, og mundu aðrir verða að vinna þau störf, sem nú hafa á hendi landsbókavörður og þjóðskjalavörður.

Jeg vil geta þess, að allir þeir, er þekkja til, álíta, að aðra hæfileika þurfi til að standa fyrir skjalasafni (archiv) heldur en fyrir bókasafni. Þá má og minnast á húsrúmið, því ekki mun líða á löngu, uns húsið fær ekki rúmað bæði söfnin, og verður þá að byggja nýtt hús fyrir skjalasafnið. Má þá öllum ljóst vera, að erfiðari muni umsjónin einum manni heldur en tveimur.

Það hefir hvorttveggja nokkuð til síns máls, að málið fari í mentamálanefnd og launamálanefnd, en þær verða þá að bera sig saman. En eftir efni frv. á það heima í mentamálanefnd.