20.08.1919
Neðri deild: 40. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í C-deild Alþingistíðinda. (2887)

21. mál, landsbókasafn og landsskjalasafn

Frsm. (Einar Arnórsson):

Jeg býst við, að menn þekki þetta mál, því að þótt það sje ekki gamalt, þá er það eldra en þetta þing.

Með lögum frá 22. nóvember 1907 var skipað fyrir um stjórn landsbókasafnsins og með lögum frá 3. nóv. 1915 um þjóðskjalasafnið. Af þeim tvennum lögum má ráða, að ekki hafi þótt heppilegt þá að sameina þessi tvö söfn undir einn yfirmann. Síðari lögin eru sett af löggjafarvaldinu meðan milliþinganefndin frá 1914 sat að störfum, og sjest af því, að það hefir þá legið löggjafarvaldinu fjarri að sameina embættin, eða gefa nefndinni ástæðu til að ætla, að það væri þess vilji, að slík breyting yrði gerð. Stj.frv., sem hjer liggur fyrir, fer fram á að sameina embættin, eins og frv. milliþinganefndarinnar frá 1914, sem prentað er í skýrslu hennar. Hvorki milliþinganefndin þá nje stjórnin nú færa það sem ástæðu þessarar breytingar, að hagur sje að henni fyrir söfnin. Miklu fremur má lesa það út úr frv., að hætta fyrir söfnin geti stafað af breytingunni. En breytingin er fóðruð með því, að „fjársparnaður nokkur“ verði að því, ef frv. verður gert að lögum. En engin rök eru færð að þessu í athugasemdunum við stjórnarfrv. og ekki heldur í álitsskjali milliþinganefndarinnar 9. desember 1914. Það verður ekki sjeð, að stjórnin hafi leitað álits hlutaðeigandi manna um málið, og þess vegna taldi mentamálanefnd rjett að leita álits þjóðskjalavarðar, hr. Jóns Þorkelssonar, og landsbókavarðar, hr. Jóns Jakobssonar, um málið. Þeir hafa báðir sent nefndinni skriflega álit sitt um málið, og er álit þjóðskjalavarðar sjerstaklega ítarlegt. Er hvorttveggja prentað, það er aðallega máli skiftir, í álitsskjali mentamálanefndar.

Þjóðskjalavörður leggur eindregið á móti sameiningunni, og landsbókavörður fer að vísu út í aðra sálma og fimbulfambar um efni, sem nefndin spurði hann ekki um, en ráða má þó af svari hans við spurningu nefndarinnar, að hann telur sameininguna mjög varhugaverða. Illhugsandi er, að sami maður geti fullnægt hvorttveggja kröfunum, þeim, sem gera verður til þjóðskjalavarðar og landsbókavarðar. Þess vegna verður líka niðurstaða landsbókavarðar, að ef ekki fáist alveg framúrskarandi maður í stöðuna, sje breytingin beinlínis til óhags.

Mentamálanefnd hefir ekki getað fundið, að fjársparnaður leiði af breytingunni. Hún hefir gert áætlun um þetta, og er reikninginn að finna í nál. Er niðurstaðan sú, að kæmist breytingin á, yrði mannahaldið ca. 2200 krónum dýrara árlega en ef haldið er mannaskipun þeirri við söfnin, sem nú er. Ef einhverjir aðrir kostir væru við breytinguna, þá væri þetta ekki svo athugavert út af fyrir sig. En kostirnir eru engir, að dómi mentamálanefndar, og hvorki launanefndin frá 1914 nje stjórnin hafa talið þessu frv. annað til gildis en það, að „nokkur fjársparnaður“ yrði að því. Annars er óþarfi að fara nánar út í málið, því að menn geta sjálfir kynt sjer það í nál. Nefndin hefir þegar komist að þeirri niðurstöðu, að með breytingunni yrði öll tilhögun á stjórn safnanna miklu óhentugri en nú er, og auk þess hefði hún aukakostnað í för með sjer. Þar af leiðandi hefir nefndin lagt til að fella frv.

Jeg geri ráð fyrir, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) taki til máls og verji frv., en jeg get tekið mjer þær varnir ljett, því menn geta sjálfir lesið ástæður nefndarinnar og dæmt svo, hvort ekki sje rjett að fella frv.