20.08.1919
Neðri deild: 40. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í C-deild Alþingistíðinda. (2888)

21. mál, landsbókasafn og landsskjalasafn

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vona, að það verði ekki mikil vonbrigði fyrir hv. frsm. (E. A.), þótt jeg hirði ekki svo mjög um að verja þetta frv. Mjer liggur það sannast að segja í ljettu rúmi, hvort það verður samþ. eða ekki. En jeg álít rjett að sameina störfin, og finst líka ljóst, að hjer sje um fjársparnað að ræða, því gert er ráð fyrir í launafrv. því, sem nú liggur fyrir þinginu, að þessir tveir menn, þjóðskjalavörður og landsbókavörður, hafi hæstu embættismannalaun, sem hjer á landi eru veitt. En sje frv. samþ., er hægt að setja einn mann yfir söfnin með sömu launum og hvor um sig átti áður að fá, en svo annan með lægri launum. En það hefir sýnt sig, að það þýðir ekki að reyna að fækka embættum. Menn vissu, hvernig fór um sameiningu Dala- og Strandasýslna undir einn sýslumann, og fer víst svipað um þessa tilraun. Enda verð jeg að játa, að úr því að þingið gat ekki samþ. svo sjálfsagða embættasamsteypu, þá er minni ástæða til slíks hjer. Því fremur er þörf hjer tveggja manna en þar.

Hv. frsm. (E. A.) sagði, að stjórnin hefði ekki spurt hlutaðeigandi embættismenn um álit þeirra. Nei, það er alveg rjett. Jeg gerði það ekki, því jeg vissi fyrirfram, hvert svar þeirra mundi verða. Við þessi söfn hefir annars farið um stofnun embætta líkt og einatt tíðkast hjer á landi annars. Það er byrjað með einum manni með ofurlítilli þóknun, svo er komin að stofnuninni heil embættismannahersing, svo að segja áður en maður veit af. Og allir heimta hærri laun. Þessi embættafjöldi við stofnanir landsins eykst stöðugt, og að sama skapi verða kröfurnar háværari um hækkun launanna. Það byrjar sem blærinn, en endar sem stormur. —