20.08.1919
Neðri deild: 40. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (2890)

21. mál, landsbókasafn og landsskjalasafn

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er óþarfi að deila mikið um þetta mál. Jeg játaði það í fyrstu, að betra væri, að störfin væru aðskilin. En við höfum ekki ráð á að sundurgreina eins mikið og aðrar þjóðir. Jeg veit, að annarsstaðar eru þessi störf aðgreind, en við sem erum að eins þjóð upp á 100 þús., getum ekki borið okkur að þessu leyti saman við aðra. Við verðum að fela einum manni það, sem aðrar þjóðir fela fleirum, á ýmsum sviðum. Því verður ekki neitað, að betra væri að sundurgreina meira í stjórnarráðinu en gert er. Það væri óneitanlega hægra, ef dómsmál væru skilin frá kirkju- og kenslumálum, svo jeg ekki tali um, að samgöngumál væru skilin frá verslunarmálum. En það er spursmál, hvort þetta er hægt kostnaðarins vegna.

Það er alveg satt, að sparnaðurinn verður lítill af því að sameina þessi tvö embætti, og sama má segja um sameining Dala- og Strandasýslu. Það er altaf hægt að bera það fyrir, þegar farið er fram á sameiningu embætta, að það muni engu út af fyrir sig. En ef þetta er gert víða, þá dregur það sig saman, og þá getur það farið að muna einhverju. Reikningur nefndarinnar er ekki rjettur. Hún skapar laun, sem hún segir að skuli vera, og byggir reikning sinn á því, þó að alveg sje óvíst, hvort gengið verði að þeim eða ekki.

Jeg gæti stilt upp öðrum reikningi, en kæri mig ekki um það.

Jeg get ekki fallist á það, að aðalmaðurinn eigi að vera sem stofustáss, heimasæta, sem tekur á móti gestum. Hann verður vitanlega að vinna. Ef laun embættismanna verða hækkuð yfirleitt, þá verður líka að krefjast þess af þeim, að þeir vinni vel og dyggilega. Því hefir oft verið slegið fram, að margir hefðu embætti sín að aukavinnu, en það stafar af því, að þeir hafa mátt til, þeir hafa ekki getað lifað sæmilega af launum sínum. En nú, ef það verður tekið upp að launa svo, að lífvænlegt þyki, þá verður um leið að krefjast mikillar vinnu.

Annars skal jeg endurtaka það, að jeg álít ónauðsynlegt að deila um þetta meira. Mjer liggur í ljettu rúmi, hvort það verður samþ. eða ekki. Mjer fanst að eins, að jeg yrði að bera það fram, úr því jeg var í launanefndinni, og hún hefir stungið upp á þessu. En jeg ætlaði algerlega að láta deildina einráða, hvernig hún tæki frv. Hún fer með það eftir geðþótta sínum, og skal jeg ekki tefja umræður með því að reyna að hafa áhrif á hann.