01.08.1919
Neðri deild: 23. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (2901)

106. mál, sóttvarnaráð

Gísli Sveinsson:

Hæstv. stjórn hefir nú tekið til máls út af orðum mínum um tildrög eða forsögu þessa máls. Og satt að segja voru upplýsingar þær, sem fram komu frá henni, ekki svo mikils verðar, að þær á neinn hátt geti breytt afstöðu minni eða annara til þessa atriðis. Það er rjett athugað, að jeg hefi ekki í fyrsta lagi áfelt sjálfa landsstjórnina, og eins hitt, að jeg finn henni ýmislegt til málsbóta. Og þá fyrst og fremst það, að hún fór eftir gildandi lögum í þessu. Þó verð jeg enn að álíta ekki að eins vafasamt, heldur alveg vafalaust, að „nauðsyn brýtur lög“, á að gera það, þegar svo stendur á sem hjer, og að hæstv. stjórn hefði átt að ganga feti lengra en hún gerði. Um það vill hún nú dæma sjálf. En svo víðtækar afleiðingar gætu vofað yfir, að spurning, eða jafnvel engin spurning, yrði um þetta. Hitt er aftur á móti alveg víst, að þau stjórnarvöld, sem ábyrgðina bera, lögum samkvæmt, á því, sem fram fór, þau verða að sætta sig við, þó að um þau sje rætt. Og um þau ber að tala, hvort þau hafi rækt skyldu sína eða ekki. Hæstv. fjármálaráðh. sagðist hafa farið með þetta mál að því, er til kasta stjórnarinnar kom, eins og líka var rjett, þar sem hæstv. forsætisráðh. var mestan tímann fjarverandi. Hann sagði það og fullyrti, hæstv. fjármálaráðh., að landlæknir hefði „í hjarta sínu trúað því,“ og „verið sannfærður um,“ að þessi veiki væri ekki slík, sem hún síðar reyndist. Enn fremur þóttist hann viss um, að svo framarlega sem landlæknir hefði haft „minsta grun“ um, að veikin mundi verða jafnskæð drepsótt og raun varð á, þá hefði hann tafarlaust fyrirskipað sóttvarnir. Hann taldi, að hægara væri að tala um þetta eftir á en áður. Og það er að vísu satt. En þess ber hjer að gæta, að það voru ýmsir leikmenn, sem þó höfðu sjeð fram á hættuna, þótt hin æðsta stjórn hefði ekki gert það, höfðu varað við þessu, og gert ýmsar ráðstafanir þar að lútandi, jafnvel fram yfir það, sem lög stóðu til. Um þetta áttu menn því ekki að vaða í villu. Hitt er jafnvíst, að frjettir, og það ábyggilegar frjettir, voru komnar af pestinni, um það, hversu skæð hún reyndist annarsstaðar, eða erlendis, áður en hún barst hingað. Til þess að sannfærast um þetta þurfa menn ekki annað en að líta í hjerlend blöð frá þeim tíma. Þá fellur sú fullyrðing um sjálfa sig, að þessa hafi ekki verið getið í blöðunum fyr en veikin var komin. Hins vegar var eðlilegt, að blöðin færu ekki í löngu máli að tala um aðgerðaleysi landstjórnarinnar fyr en það kom á daginn. Auk þess hefi jeg sjeð, að blöð hjer, og það fleiri en eitt blað, eins og hæstv. fjármálaráðh. talaði um, birtu símskeyti frá Kaupmannahöfn, sem skýrðu frá, hvað skæð veikin var þar. Og hjer var talað um það í blöðunum og manna á milli, hvað nú mundi aðhafst, og jafnframt gengið að því vísu, að sóttvarnir yrðu viðhafðar. Þetta voru að vísu ekki neinar „ritgerðir“, heldur smápistlar, eins og venja er, þegar um frjettir er að ræða. Svo að jafnvel menn úti á landi voru því kunnugir, hvernig veikin hagaði sjer annarsstaðar. —

Hvað á nú að segja um annað eins og það, að læknum og heilbrigðisstjórn landsins eigi ekki að vera þetta kunnugt, þegar öllum öðrum er það kunnugt, og hver á að bera ábyrgðina á afleiðingum af þessu, ef ekki þeir? Til hvers á að vera að hafa hjer landlækni og „æðstu stjórn heilbrigðismála,“ ef hún á ekki að standa leikmönnum framar að þekkingu og dómgreind í slíkum efnum? Landlæknirinn er sá, sem er talinn hafa sjerþekkingu á þessu, og því var það hans að skipa fyrir, hvað gera ætti, — til þess er honum gefið vald, — og því ber hann ábyrgðina á aðgerðunum eða aðgerðaleysi. Mjer finst harla einkennilegt að bera fram þá afsökun, að landlæknir hafi ekki „trúað“ því, að veikin yrði svona afleit. Hjer átti ekki að vera um neina trú að ræða. Og það var betra að ganga út frá því versta en að eiga á hættu annað eins og fram kom síðar. Víst er um það, að ýmsar hjeraðsstjórnir úti um land gerðu sóttvarnarráðstafanir bak við bæði landsstjórn og landlækni. Til dæmis voru í Skaftafellssýslu gerðar ráðstafanir áður en jeg gat talað við hæstv. stjórn. En síðar leitaði jeg heimildar hjá henni. Og hún vísaði mjer til landlæknis, og þó ótrúlegt sje, þá var með herkjubrögðum, að hann gaf leyfi sitt til þess, þá er jeg hafði rakið fyrir honum, hve auðvelt þetta væri og vel framkvæmanlegt. Hann kvað svo fjarri, að þetta væri skylda, að til þess væri einu sinni ekki heimild að verja sig fyrir veikinni innanlands! Því að svo var að heyra, að hann eða læknar álitu þetta ekki „Influensu“, og því síður annað verra. Nú varð það ofan á skömmu síðar, að þessu var gefið nafnið „Influensa“, og þar með var það komið undir það, sem heimilt var að verja sig fyrir. En eins og kunnugt er, leiddi tíminn í ljós, að hjer var ekki einasta um influensu að ræða, heldur hreina pest eða drepsótt. — Það er því ljóst af því, sem hjer er sagt og sannanlegt er, að landlæknir beitti sjer móti því, að landið væri varið fyrir veikinni, og hamlaði því á ýmsan hátt, að minsta kosti til að byrja með, að varist yrði innanlands.

Þá kem jeg að hinni einkennilegu og fávíslegu fullyrðingu háttv. þm. Dala. (B. J.). Það hefir lengi loðað við þann háttv. þm. (B. J.), að hann hefir fundið hjá sjer hvöt til að verja það, sem ógerlegt er að verja, sjerstaklega ef fundið hefir verið að einhverju hjá stjórnarvöldum landsins. Enda stóð hann nú upp til að taka málstað landlæknis. En eins og má gera of mikið að ákærum, þá hættir sumum eigi síður við að ganga of langt í að verja. Og svo er um háttv. þm. Dala. (B. J.). Kom það og greinilega í ljós, að hann að öllu leyti brast þekkingu á því, sem fram hafði farið, ekki á veikinni sjálfri að eins, heldur á því, sem gerst hafði í landinu. Hann talaði mikið um það, að ef ætti að dæma í þessu máli, yrði sá dómur að vera rjettlátur, sjerstaklega þar sem svo væri ástatt eins og hjer, að landlækni gæfist ekki kostur að bera hönd fyrir höfuð sjer. Það er satt, að hann á ekki sæti hjer í hv. deild. En ef svo vildi nú til, að hann væri ekki þingmaður, þá væri ókleift, eftir skoðun hv. þm. Dala. (B. J.), að ræða þetta stjórnar- og þingmál, að eins fyrir þá sök, að sá embættismaður, er við söguna kemur, er ekki viðstaddur. Allir hljóta að sjá, hve fáránlegt slíkt væri. Hjer er ekki heldur um annað að tala en einn lið í stjórn þessa lands, og sjálf landsstjórnin er hjer til staðar, og er þessu svo náin, að finni hún hjá sjer hvöt til andsvara, þá getur hún það. — Það má og geta þess, að þessi embættismaður, sem hjer um ræðir, hefir skorast undan því í blöðum og á fundum að verja sig í þessu máli. Hann hefir sagt: „Mitt forum er ekki hjer, heldur fyrir stjórninni“! — Því skyldi maður ætla, að tilhlýðilegt væri að snúa sjer til stjórnarinnar, og hún bæri svo hönd fyrir höfuð honum.

Hv. þm. Dala. (B. J.) skiftir ákærunni í liði, í ræðu sinni. Og taldi hann þann lið „sannanlega rangan“, að landlæknir hefði verið mótfallinn sóttvörnum innanlands. — En þetta er, eins og jeg hefi áður drepið á, þvert á móti sannanlega rangt hjá hv. þm. (B. J.). Landlæknir var því í upphafi ómótmælanlega andvígur, að sóttinni yrði varnað útbreiðslu úti um land; þó að hann fjellist á það á endanum, þá er það laust við að vera þakkarvert. Því að hver sá, sem ekki var steinblindur fyrir því, sem var að gerast, hlaut að fallast á, að eitthvað yrði að gera, til þess að landsmenn fjellu ekki í valinn umvörpum. Í öðrum lið taldi hv. þm. (B. J.) það fullvíst, að ekkert hefði legið fyrir, sem benti í þá átt, að hjer væri um annað en „einfalda inflúensu“ að ræða. Ef hv. þm. (B. J.) vildi tala frá sjónarmiði landlæknis, þá hefði hann getað sagt, að ekki lægi fyrir, að hjer væri einu sinni um neina veiki að ræða. Hvað er veiki? Jeg geri ráð fyrir, að í slíkri sótt sem þessari liggi einhverjir „hættulegir gerlar“ til grundvallar, eins og líka hæstv. stjórn sagði, þó að hv. þm. Dala. (B. J.) telji, að þar hafi verið með í bland „óhættulegir gerlar“. Sje svo, að gerlarnir sjeu óaðskiljanlegir frá sjúkdómnum, líka þeir hættulegu, var þá ekki full ástæða fyrir hæstv. stjórn, eða landlækni, að varna veikinni aðkomu? Ef greina á gerlana sundur á þann hátt, að veiki sje ósaknæm í alla staði, af því að í henni kunni að vera líka óhættulegir gerlar, og ekki skuli tekið tillit til hinna saknæmu, þá gef jeg ekki mikið fyrir slíka heilbrigðisstjórn. Það er kunnugt, hvað svo sem veikin er kölluð, að hún var hin skæðasta drepsótt. Og það var þekt að sumu leyti áður en hún barst hingað. Það var því full og óhrekjanleg ástæða fyrir heilbrigðisstjórnina að taka málið til athugunar og aðgerða. Þá talaði hv. þm. Dala. (B. J.) loks um það, að þessi veiki, inflúensan, hefði verið komin hingað til landsins áður. Þetta hefir fyr verið borið fram hjer af læknum, til þess að afsaka þá. Það er að vísu satt, að kvef gekk hjer í fyrrasumar. En kvef gengur hjer líka nú. Er það svo vægt eins og kvef er venjulega, að menn eru jafngóðir eftir nokkra daga, og hiti fylgir því að eins 1–2 daga, — ef hann er þá nokkur. Svo að ef menn fara að blanda því saman við þá pest, sem gekk hjer í haust, þá er það hreinasta blekking. Og ef það er gert af allsgáðum mönnum, þá er það vísvitandi blekking. — Eins og menn vita, barst veikin hingað að haustlagi, og var það því meiri ástæða að verja sig fyrir henni, svo að hún fengi ekki að leika lausum hala á óheppilegasta tímanum, þegar menn voru nauðbeygðir til að vera við vosbúð í kuldatíð víðast hvar. Enginn má samt halda, að hún hafi verið hættulaus þar sem hún kom í hitum. Það er kunnugt, að hún gekk eins og drepsótt sumstaðar, þar sem hún kom að sumarlagi.

Jeg þarf víst ekki að fara fleiri orðum um þetta. Ástæður þær, sem hv. þm. Dala. (B. J.) fann heilbrigðisstjórninni til málsbóta, eru hjer með hraktar. Hvað snertir hæstv. landsstjórn, þá tók jeg það fram, að hún hjelt sjer við lögin. Hvort það var það rjettasta er áfram opið spursmál, þótt jeg hafi svarað því fyrir mitt leyti. Stjórn heilbrigðismálanna hefir aftur á móti, sem slík, gert sig seka í vanrækslu af alvarlegustu tegund. Um það þarf ekki að deila.

Ummæli háttv. frsm. (Þorl. J.) gefa mjer ekki tilefni til frekari orða. Hann hafði ekkert fram að bera, er nokkurs virði væri, og að sumu leyti fór hann niður fyrir það, sem vænta hefði mátt, að hann hefði getað staðið sig við.