21.07.1919
Efri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (2912)

73. mál, bifreiðar

Flm. (Guðjón Guðlaugsson):

Frv. er stutt, svo að menn verða fljótir að glöggva sig á því, enda sjá menn tilgang þess af greinargerð þeirri, sem því fylgir.

Það getur nú vel verið, að margir sjeu á móti bifreiðum yfirleitt og þyki því eigi ástæða til þess að veita nokkra undanþágu. En jeg get ekki sjeð, að þessi undanþága fái valdið nokkrum skaða. Jeg er þeirrar skoðunar, að ekki sje meiri hætta, þó að ungir menn stýri bifreiðum heldur en þó að gamlir menn geri það. Og yfirleitt fara menn varla að læra bifreiðaakstur mjög gamlir.

Undanþága sú, sem hjer um ræðir, lýtur að svo kölluðum „prívat-bílum“, þ. e. bifreiðum einstakra manna, sem ekki ætla sjer að hafa bifreiðaakstur að atvinnu, heldur að eins nota þær fyrir sig og sitt fólk. Það er síst hætt við, að þessar bifreiðar gangi þar, sem hættulegt er eða miklar vagnaferðir, heldur meir heima hjá eigöndunum. Það er ekki ólíklegt, að menn hjer í Reykjavík, sem mikil lönd eiga, þyki ódýrara að hafa bifreiðar en hesta.

Jeg legg ekki mikið kapp á þetta frv., en jeg vona, að hv. deildarmenn sjái, að hjer er ekki um hættuspil að ræða, heldur lítilfjörlegan greiða handa þeim, sem svo er ástatt fyrir, sem jeg hefi nú lýst, þegar þar á ofan bætist það, að frv. ætlast til, að stjórnin veiti undanþáguna eftir því mati, sem það telur rjett. Því að menn geta enga kröfu átt til þessarar undanþágu eftir frv. Á þessu er engin hætta, þegar stjórnarráðið veitir undanþágur. Þær verða ekki veittar, nema komið sje fram með nægileg skilríki fyrir því, að maðurinn sje að öllu leyti hæfur til að vera bifreiðarstjóri að öðru leyti en því, að hann nær ekki aldurstakmarkinu.

Jeg fyrir mitt leyti sting ekki upp á því, að málinu verði vísað til nefndar; læt aðra ráða því.