28.07.1919
Efri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (2916)

73. mál, bifreiðar

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Eins og háttv. þm. sjá, er nefndarálitið frá samgöngumálanefnd beggja deilda; hefir hún lagt til, að frv. verði samþ. óbreytt, nema hvað einn nefndarmanna, hv. þm. Snæf. (H. St.), er ber fram brtt. við 1. málsgr. 1. gr., en þótt sú brtt. verði samþ., þá snertir það ekki frv.; er eins hægt að samþ. það fyrir því. Það, sem löggjöfin hefir haft fyrir augum, þegar þessi lög voru sett, hlýtur að vera það, að það væri meiri trygging fyrir varfærni, ef aldurstakmarkið væri haft hærra, en þessi mótmæli ná ekki til frv., því þar er 18 ára aldurinn að eins undantekning, en aldurstakmarkið er ekki fært niður fyrir heildina. Hv. þm. Snæf. (H. St.) hjelt því fram við 1. umr., að rjett væri að færa aldurstakmarkið niður í 18 ár, og um það gæti jeg verið honum samdóma, en jeg skil ekki, hvers vegna hann er á móti því að veita þessa undanþágu heldur kemur með þá till., að setja aldurstakmarkið 20 ár, í stað 21 árs nú, eða lækka það um 1 ár, en það kemur yngri mönnum ekki að notum, og þar sem þau tilfelli eru nauðafá, og um einkabifreiðar að ræða, þá skil jeg ekki, hvers vegna hv. þing ætti ekki að verða við því. Jeg sje ekki, að nein hætta geti stafað af því.

Jeg vil því, fyrir nefndarinnar hönd, mæla með, að frv. verði samþ. með þeirri orðabreytingu, sem nefndin ber fram.