28.07.1919
Efri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (2917)

73. mál, bifreiðar

Halldór Steinsson:

Eins og jeg tók fram við 1. umr., er jeg ekki samþykkur því, að farið sje að veita undanþágur um þessi efni, eða frá skilyrðum, sem sett eru fyrir ákveðnu starfi. Jeg kýs miklu fremur, að skilyrðunum sje breytt, en sama gildi fyrir alla. Aldurstakmark þetta er sett sem nokkurskonar trygging fyrir því, að bifreiðastjórarnir sje fremur færir um að gæta lífs og lima farþega sinna. Jeg get, fyrir mitt leyti, fallist á, að aldurstakmarkið sje of hátt, og því ber jeg fram brtt. á þgskj. 149.

Annars sje jeg engan mun á því, hvort um er að ræða bifreiðarstjóra á einkabifreið eða leigubifreið. Báðir aka farþegum, og enginn munur þar á, nema hvað annar þeirra tekur fargjald. Og sá, sem er með einkabifreiðina, getur boðið akstur kunningjum sínum, eins mörgum og hann vill, svo ekki þarf um fjölskyldu hans að vera að ræða.

Jeg mun því greiða atkv. með að færa aldurstakmarkið niður í 20 ár, en greiði atkv. á móti núverandi frv.-grein.