08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (2936)

73. mál, bifreiðar

Pjetur Ottesen:

Sú breyting, sem er innifalin í þessu frv., sem kom frá hv. Ed., er í því fólgin, að færa aldurstakmark þeirra manna, sem stýra mega bifreiðum, niður úr 21 ári í 20 ár. Enn fremur er sú breyting gerð á, að þeir menn, er stýra einkabifreiðum, sem þeir eiga sjálfir, eða aðrir þeim nákomnir, þurfi ekki að vera eldri en 18 ára.

Mjer virðist dálítið einkennilegt að koma með slíka undanþágu. Aldurstakmark bifreiðarstjóra er sem sje sett, meðal annara ákvæða, til tryggingar fyrir því, að þeir stýri bifreiðum, sem færir eru um það fyrir aldurs og þroska sakir, og er þetta nauðsynleg varúðarráðstöfun, því bifreiðaakstur er töluvert hættulegur, og höfum við töluvert þreifað á því, því eins og kunnugt er, hefir ekki svo sjaldan hlotist slys af bifreiðaakstri.

Að veita þeim þessa undanþágu, sem sjálfir eiga bifreiðarnar og stýra þeim, eða þeirra nánustu, er rökstutt með því, að þeir flytji ekki aðra en nánustu skyldmenni eða aðra vini sína, er trúi þeim fullkomlega fyrir sjer.

En mjer finst, að þó eigi sjeu nema nánustu vandamenn, sem þessir menn flytja í bifreiðum sínum, þá muni þeir þó leggja leið sína um alfaravegi, og geti það þá komið fyrir, að einhverjir fjarskyldir eða aðrir en nánustu vandamenn verði á leið þeirra. En nú vita menn það, að hættan af bifreiðaakstri vofir engu síður, ef ekki fremur, yfir þeim, sem verða á vegi bifreiðanna, en þeim, sem í þeim sitja, og á þetta sjerstaklega við á fjölförnum vegum í bæjum, eins og t. d. í Reykjavík, þar sem bifreiðaumferðin er orðin að mestu plágu, enda oft slys af hlotist. Auk þess sje jeg ekki neina frambærilega ástæðu til að setja þá skör lægra í þessu efni, sem reka þetta sem atvinnu, heldur en þá, sem nota bifreiðarnar í eigin þarfir, hvort heldur það er nú til gagns eða skemtunar. Jeg hefi því leyft mjer ásamt háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) að koma fram með brtt., sem fer í þá átt, að fella þessa undanþágu niður, og vona jeg, að menn fallist á, að öll sanngirni mæli með því. Ber þess líka að gæta, að þetta ákvæði um 18 ára aldurstakmarkið marðist að eins fram í Ed. með örlitlum atkvæðamun.