21.07.1919
Efri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

33. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (S. E.):

Þeir tekjustofnar, sem hjer er lagt til að hækkaðir verði og mestu máli skifta, eru tollur á tóbaki og vindlum.

Að vísu er vindla- og tóbakstollurinn hár, en stjórnin lítur svo á, að hjer sje að ræða um ónauðsynjavörur í eiginlegum skilningi, er rjett sje að tolla hátt enda svo gert með öðrum þjóðum.

Auknar tekjur, sem af hækkun þessari leiða fyrir ríkissjóð, mun óhætt að meta ca. 170 þús. kr.

Jeg finn ekki ástæðu til að fjölyrða meir um frumvarp þetta: vil þakka fjárhagsnefnd fyrir það, hversu vel hún hefir tekið í hin frv., og vænti þess, sjerstaklega með tilliti til þess, hversu tekjuþörfin er brýn, að frv. þetta sæti jafngóðum viðtökum.