08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (2944)

73. mál, bifreiðar

Einar Arnórsson:

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) átaldi það, að löggjafarvaldið skifti sjer af einkaefnum manna. Hann, sem er 20–30 ára löggjafi, veit þó, að ekki verður hjá því komist, og að það er gert á hverju þingi meira og minna, ýmist beinlínis eða óbeinlínis, með því að veita stjórnarvöldum hinar og þessar heimildir til þess að takmarka athafnafrelsi manna. Tökum t. d. hjólreiðar. Menn eru skyldir að hafa bjöllu og ljósker á hjólhesti sínum, jafnt þótt þeir eigi hann sjálfir, sem þótt þeir leigi hann. Það er yfirhöfuð eigi gerandi munur á því, hvort maður fer sjálfur í sinni bifreið eða leigubifreið. Hættan fyrir þá, sem um þann veg fara, þar sem bifreið er ekið, er engu minni, þótt eigandi, eða hans fólk, sitji í henni, en þótt aðrir geri það. Sá, er siglir sjálfs sín skipi, verður að láta löghæfan mann stjórna því. Það getur sem sje alveg eins rekist á önnur skip og þau skip, sem leigð eru eða fara ferðir fyrir hvern, sem vera skal.

Ef eigi þykja reglur um ökumannspróf og annað, er þar að lýtur, nógu strangar, þá er þar ekki annað en að snúa sjer til stjórnarinnar um það. Til að breyta þeim á fullnægjandi hátt þarf eigi lagabreyting.