24.07.1919
Neðri deild: 15. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (2947)

83. mál, hvíldartími háseta

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg get eiginlega látið mjer nægja að vísa til greinargerðar þeirrar, sem er fyrir þessu frv. Þar hefi jeg drepið á nokkur helstu atriðin, sem mæla með því, að lög verði sett um þetta efni. Sjómenn hafa við mikil rök að styðjast í þessum kröfum sínum, um að lögboðinn verði hvíldartími fyrir þá. Það er sem sje alkunna, að við fiskveiðar á ísl. botnvörpuskipunum er vinnutíminn oft svo óheyrilega langur, að úr hófi keyrir. Jeg hefi að eins drepið á þetta í greinargerð frv., en alls ekki tekið eins djúpt í árinni eins og hægt er með rjettu að gera. Þótt lög verði sett um þetta efni, þá er ekki þar með sagt, að hásetar noti sjer þennan rjett út í æsar, hvernig sem á stendur. Eftir þeirri þekkingu, sem jeg hefi á sjómannastjett landsins, þori jeg að fullyrða, að þegar nauðsyn bæri til, myndu þeir fúsir á að vinna lengur en lög segja, og á hvaða tíma sem væri. En hitt hljóta allir að sjá, sem nokkurt skyn bera á vinnu, hversu skaðlegt það er heilsu manna að hafa uppistöður við erfiða vinnu marga sólarhringa samfleytt, án þess að njóta svefns nje hvíldar. Enda hafa afleiðingarnar komið í ljós, því að menn á besta skeiði hafa iðulega verið búnir að slíta sjer svo, að þeir hafa neyðst til þess að hætta þessari atvinnu. Einhver kann nú að segja, að þetta muni lagast, án þess að lög þurfi til, og aðrir komi í stað þeirra, sem hætta atvinnunni. Jeg skal játa, að hingað til hefir ekki verið skortur á mönnum á botnvörpungana, en mjer finst miklu hyggilegra að fyrirbyggja, að til slíks geti komið. Mjer finst jeg ekki þurfa, að svo komnu, að mæla meira með þessu frv. Þó vil jeg geta þess, þeim til athugunar, er ekki vita, að til eru lög um þetta efni, að víða erlendis er lögskipaður hvíldartími hjá sjómönnum. Í Englandi er t. d. tiltekinn tími til vinnu og hvíldar. Og það voru ekki sjómenn sjálfir, eins og ætla mætti, sem báru fram þessar kröfur, heldur voru það ábyrgðarfjelögin ensku. Það hafði komið fyrir oftar en einu sinni, að menn höfðu verið látnir vinna svo lengi hvíldarlaust, að þeir voru orðnir úrvinda af svefnleysi og þreytu, og fyrir þá sök hlektist skipinu á. Þetta hefir, sem betur fer, ekki orðið að sök hjer enn þá, því verkaskiftingunni er þannig háttað, að stjórnandinn nýtur einatt nokkurrar hvíldar. En hins vegar er þörfin fyrir slík lög engu minni hjer en þar. — Jeg vænti þess, að hv. deild taki þessu máli vel, og að hv. Alþingi sjái nauðsynina á einhverju aðhaldi í þessu efni, svo að hásetar hafi við eitthvað að styðjast í kröfum sínum um rjettmæta hvíld.

Jeg skal svo að endingu leyfa mjer að stinga upp á, að málinu verði vísað til sjávarútvegsnefndar.