24.07.1919
Neðri deild: 15. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (2949)

83. mál, hvíldartími háseta

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg hefi ekki ætlast til, að fyrirskipaður væri hvíldartími á öðrum skipum en botnvörpuskipum. En þó er jeg ekki á móti því, að gengið sje feti framar, ef nauðsyn þykir. Ástæða mín til þess er sú, að botnvörpuskipin eru lengst á sjó, hafa enn meiri sjósókn en önnur skip, og því er unnið þar lengstan tíma í senn. Þó að vökur sjeu oft miklar á mótorskipum, þá hygg jeg vafalaust, að sjómenn á þeim njóti meiri hvíldar og svefns en hinir fyrnefndu. Eins er því varið á þilskipunum. Samkvæmt ráðningarskilmálunum á þeim eru menn miklu fremur sínir húsbændur. Þeir fá sjálfir helming þess, er þeir afla, og er því nokkum veginn í sjálfsvald sett, hvernig þeir stunda vinnuna. Enda hafa þeir ekki borið sig upp undan of miklu erfiði. Ef til vill er stundum of löng vinna þar líka, en vafalaust er þörfin langbrýnust á botnvörpuskipunum.