24.07.1919
Neðri deild: 15. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (2950)

83. mál, hvíldartími háseta

Sigurður Stefánsson:

Mjer dettur ekki í hug að fara að hefja neinar kappræður um þetta nú. En jeg vildi lýsa því yfir nú þegar, að jeg er algerlega mótfallinn þessu frv. Það er svo sem auðsjeð, að hjer er gengið inn á þá braut, sem nú virðist æði fjölfarin í umheiminum kring um okkur, sem sje þá, að verkamennirnir geti sett vinnuveitendunum stólinn fyrir dyrnar í atvinnurekstri þeirra. Það skal játað, að þær ástæður geta verið fyrir hendi, að nauðsyn beri til, að löggjafarvaldið gripi fram í viðskifti verkamanna og vinnuveitenda, en hjer tel jeg þá nauðsyn ekki fyrir hendi, en jeg tel mjög varhugavert að setja lög um þessi efni. Það, sem hjer um ræðir, er ekkert annað en samningamál milli háseta og útgerðarmanna, og það gefur að skilja, ef ekki gengur saman með þeim, að þá eru það útgerðarmennirnir, sem neyðast til þess að láta undan, svo að atvinnuvegur þeirra stöðvist ekki. En að löggjafarvaldið fari að fyrra bragði að setja lögákvæði um það, sem er hreint og beint samningamál milli háseta og útgerðarmanna, tel jeg engan veginn heppilegt nje til heilla fyrir sjávarútveginn.

Þess ber að gæta, að þótt hásetar á botnvörpuskipum í einstaka tilfellum kunni að hafa meiri vökur en góðu hófi gegnir, þá hafa þeir tímum saman miklu lengri hvíldartíma en alment gerist við aðra vinnu. Hitt mun og sönnu nær, að þessar miklu vökur munu ekki tíðkast nema í einstaka tilfellum, þegar um það er að gera, að ná í sem mestan afla á sem stystum tíma, sem oft getur verið alveg sjálfsagt, eins og tíðarfari er háttað hjer á Íslandi, og þá hafa bæði hásetar og útgerðarmenn gott af hinum langa vinnutíma. Hásetar hafa og með sjer fjelagsskap, þar sem er „Hásetafjelagið“, og ætti þeim að vera í lófa lagið að hindra það, að á þeim væri níðst. Ef svo færi, að samningar gengju ekki saman, gætu hásetar lagt niður vinnu. Ef frv. þetta yrði samþ., mundi það naumast verða annað en dauður bókstafur, getur leitt til þess eins, að skapa að óþörfu ný vandræði milli verkamanna og vinnuveitenda. — Ef við lítum á umheiminn í kringum okkur, þá eru horfur alt annað en álitlegar, þar sem alt logar í verkamannaróstum og öll lög og samningar eru að vettugi virt. Og því meira sem látið er undan, því meira er heimtað. Mjer finst það hljóti að vera skylda okkar að reyna að sporna við, að slíkt ástand geti sýkt frá sjer hingað til okkar. Enginn veit hvar hjer verður staðar numið; að því getur rekið, að verkamenn heimti kaup fyrir svefntímann, eða annað því um líkt. Það er ekki gott að vita, við hverju maður má búast á þessum tímum, þar sem lög og rjettur og öll þjóðfjelagsskipun er á hverfanda hveli.

Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) sagði í ræðu sinni, að af ástandinu, eins og það er nú, gætu leitt mestu vandræði, t. d. það, að ekki fengist fólk til vinnu lengur. En mjer skilst, frá sjónarmiði útgerðarmanna, að þeir mundu fyr taka þann kostinn, að láta eftir kröfum hásetanna, en að setja skipin upp, ef um það tvent væri að velja. Mjer finst satt að segja, að þetta sje einn anginn af þessum bolsjevisma, sem nú veður eins og öskrandi ljón yfir heiminn, og allir hljóta að sjá, hver voði stafar af. Þetta frv. getur orðið byrjun á því, að skapa með lögum hvíldartíma í öðrum atvinnuvegum vorum, t. d. landbúnaðinum. Allir sjá, hvílíkur voði það gæti orðið fyrir þann atvinnuveg, ef verkamenn ættu lagakröfu til 8 kl.stunda svefns, hvernig sem á stendur, þar sem svo er nú ástatt, að einn einasti dagur um bjargræðistímann getur að miklu ráðið úrslitunum um búskapinn fyrir alt árið. Jeg segi fyrir mig, að sem bóndi í sveit væri jeg ekki ánægður með þá skilmála, að alt verkafólkið gæti lagt niður vinnu, sökum lögákveðins hvíldartíma, þótt mörg hundruð hestar heys lægju undir stórskemdum af yfirvofandi rigningu. Setjum nú svo, að ekkert hefði orðið úr rigningunni, en er fólkið væri búið að sofa 6 kl.stundir, þá vofði hún yfir aftur. Og nú kæmi bóndinn í mesta sakleysi og vildi fá fólkið til að bjarga heyjunum. En þá væri ekki við það komandi að fá það á fætur. Það segði: „Nei, góði maður, við gerum ekki eitt handartak fyr en við höfum sofið okkar lögboðnu 8 kl.stundir.“ Og það jafnvel þótt það gæti ekki sofið.

Bjargræðistíminn hjá okkur Íslendingum er sannarlega ekki svo langur, að menn ættu að gera sjer að leik að stytta hann með heimskulegum og skaðlegum lögum. Og jeg hugsa, að það sje reynsla flestra bænda, að þeim hafi ekki haldist ver á hjúum, þótt þau hafi ekki fengið 8 kl.stunda svefn, hvernig sem á stóð, ef aðbúð að öðru leyti hefir verið góð. Slík lög, sem þessi, gætu orðið óþægilegur þröskuldur í vegi fyrir atvinnu vorri. — Á hinn bóginn væru þau vopn í hendi þessara alþýðuskrumara og skrækjara, sem sí og æ gala hæst um ranglæti og yfirgang vinnuveitenda. En venjulega er sá skrílsháttur sprottinn af öfund til þeirra, sem eitthvað eiga, er þeir með dugnaði sínum hafa aflað sjer, og vanalega eru það letingjar og ónytjungar, sem aldrei hafa nent að taka ærlegt handartak, sem gerast vilja slíkir leiðtogar fólksins.