24.07.1919
Neðri deild: 15. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (2954)

83. mál, hvíldartími háseta

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Það voru að eins nokkur atriði í ræðu hv. þm. N.-Ísf. (S. St), sem jeg verð að drepa lítið eitt á.

Það var sýnilegt af ræðu hans, að hann þekkir ekki til þess rjettmætis, er frv. þetta byggist á. (S. St.: Alt eins vel og háttv. flutnm.). Ef svo er, þá skil jeg ekki í því af presti, sálusorgara, að hann skuli geta verið eins ómannúðlegur í hugsunarhætti og kom fram í ræðu hans. (B. J.: Hann er hjer sem þm., en ekki sem prestur). En jeg á hjer erfitt með að greina sundur prestinn og þingmanninn. En viðvíkjandi því, sem háttv. þm. (S. St.) sagði, þá kom það mjer einkennilega fyrir eyru, er hann var að bera saman þessa atvinnugrein og aðrar.

Í þessari atvinnugrein er það ekki einsdæmi, að menn hafi unnið 60–70 og jafnvel 90 stundir samfleytt, án þess að hafa notið meira en 2 kl.st. svefns. Geta nú allir sjeð í hendi sjer, hvílík vinnubrögð það eru, að vinna í 2–3 dægur, og stundum mikið lengur, samfleytt og hvíldarlaust. (S. St: Hver biður þá að vinna svo lengi?). Þeim er skipað það, og þeir geta ekki hjá því komist. Enda gefur það að skilja, að þeir mundu ekki leita verndar laganna, ef annars væri kostur. Auðvitað eru þeir ekki ráðnir með slíkum kjörum, en reyndin verður þessi.

En nú get jeg ekki betur sjeð en að með því að framkv. hugmyndir hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að láta verkamennina sjálfa afskamta vinnutímann og neita þeim um sjálfsagðan og rjettmætan stuðning frá hálfu löggjafarvaldsins, er þeir leita með hinni mestu hógværð, þá sje hingað beint öldu þeirri, sem geysað hefir yfir heiminn, því að þótt fá dæmi sjeu til slíks erfiðis þar eins og þessa, þá er sú alda sprottin af því, að verkamenn hafa verið of lengi þjakaðir og átt við of bág kjör að búa. En þegar æsingarnar vakna, er ekki gott að gæta þess hófs, sem skyldi. En sama mundi raunin á verða, ef illa og harkalega væri að máli þessu farið hjer.

Það gladdi mig að heyra orð hæstv. forsætisráðherra (J. M.), og sömuleiðis orð hv. þm. Dala. (B. J.), því að jeg heyrði, að þeir litu með sanngirni og rjettsýni á málið. Og sjeu einhverjir agnúar á frv., þá er svo fjarri því, að jeg sje því mótfallinn, að því sje kipt í lag. Jeg er einmitt þakklátur hverjum þeim, sem færir það til betri vegar. En að frv. eigi ekki rjett á sjer, því verð jeg algerlega að mótmæla. Og jeg hygg, að þeir, sem standa á vegi fyrir frv., vinni með því þessari atvinnugrein hið mesta tjón. Það er alls ekki sagt, hvorum það yrði til góðs, hásetum eða útgerðarmönnum, ef hásetar færu að ráðum hv. þm. (S. St.) og legðu niður vinnu. Það eru mestar líkur fyrir því, að það yrði báðum til mikils tjóns, bæði hagsmunalega og eins vegna samvinnunnar milli þessara manna. Að minsta kosti hafa hásetar snúið sjer til þingsins í því skyni, að komast hjá slíkum erjum. Þeir vilja vinna í friði við húsbændur sína, svo lengi sem unt er. En ef þingið á að svara þeirri beiðni með því einu, að benda þeim á þá leið að taka rjett sinn með valdi, þá er það að minsta kosti fjarri því, sem hv. þm. (S. St.) vildi vera láta.

Að hásetar hafi meiri arð af slíkum vinnubrögðum sem þessum, nær engri átt. Þeir fá sama kaup, hvort sem þeir vinna lengur eða skemur. Þeir fá auðvitað meiri lifrarpeninga þegar mikið fiskast. En nú er það víst, að menn vinna minna með þessu fyrirkomulagi heldur en ef þeir nytu hæfilegrar hvíldar.

Þetta er því ekkert annað en skökk skoðun hjá vinnuveitendum, er þeir ætla, að þeir beri meira úr býtum með þessu ráðlagi. Og hvern hagnað hásetar hafa af því má best marka af því, að dugandi menn á besta skeiði endast ekki nema fá ár til vinnunnar.

— Jeg vænti því þess, að hið háa Alþingi taki þessu máli vel og afgreiði lög þessi sem hollust og hagkvæmust, og mun jeg ekki verða á móti þeim breytingum, sem til bóta miða.

Hitt tel jeg alls ekki hyggilegt, þegar leitað er til þingsins svo hóflega, sem hjer er gert, að hrinda því frá sjer með ónotum og miður hollum ráðleggingum. Og jeg verð að játa það, að mjer þótti næsta undarlegt að heyra ræðu háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Hún kann að hafa látið vel í eyrum þeirra manna, sem ekkert þekkja til þjóðskipunarmála, en alls ekki í eyrum annara. Og góð áhrif gat hún á engan haft.

Mjer detta í hug, við að heyra ræðu hv. þm. (S. St.), þessi orð úr Rígsþulu:

„Var þar á höndum

hrokkit skinn,

kroppnir knúar,

— — — —

fingr digrir,

fúlligt andlit,

lotinn hryggr

ok langir hælar.“

Svo lýsir Rígsþula þrælunum, og ef hv. þm. (S. St.) hefði verið uppi á þeim tíma, er þrælahald var, og verið þeim í aðbúð eins og andinn í ræðu hans benti á, þá býst jeg við, að lotinn hefði verið hryggurinn í þrælnum þeim, er honum hefði lengi þjónað. — En jeg ímynda mjer nú, að hann sje mjög ólíkur húsbóndi því, sem kom fram í ræðu hans. Jeg er þess meira að segja fullviss. Hann hefði átt að geta farið rjett með það, sem hann hafði prentað fyrir framan sig. Hjer er hvergi farið fram á 16 stunda hvíld, heldur að eins 8.

Hann virtist vera að bera bændur fyrir brjóstinu, en þess hygg jeg að gerist engin þörf. Bændur munu fæstir láta hjú sín vinna svo lengi. Og þó það geti staðið svo á hjá þeim, að lengur þurfi að vinna í einn tíma en annan, þá eru flest hjú, sem betur fer, svo skapi farin, að þau gera ekkert veður út af því.

Þetta mál snertir því bændur ekki nokkurn skapaðan hlut. Þar þarf ekki að skerast í leikinn til að stytta vinnutímann; þar mun sjaldan unnið lengur en í mesta lagi 14 stundir, og þarf engin lög til að takmarka það. — En þar sem vinnutíminn við þá atvinnugrein, sem hjer er um að ræða, er óhæfilega langur, þá er ekki nema sanngjarnt og sjálfsagt að verða við sanngjörnum óskum starfsmannanna um, að þeim verði lögheimilaður nokkur hvíldartími. Þeir munu aldrei misbrúka slíkan rjett.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið, en vænti þess, að hv. deild taki því sem best.