22.08.1919
Neðri deild: 42. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2957)

83. mál, hvíldartími háseta

Frsm. meiri hl. (Matthías Ólafsson):

Sjávarútvegsnefnd hefir ekki getað orðið á eitt sátt í þessu máli. Meiri hl. nefndarinnar leggur ekki til, að þessu máli sje skipað með lögum. Hún telur það ekki heppilegt, því ef þetta yrði gert að lögum, álítur meiri hl. nefndarinnar óhjákvæmilegt, að það með tímanum mundi taka til fleiri atvinnuvega en hjer ræðir um. Og sumum þeirra er þannig háttað, að ómögulegt er að lögbjóða ákveðinn hvíldartíma, nema til stórtjóns og hnekkis fyrir vinnuna, t. d. við heyvinnu o. fl. — Það er álit meiri hl. nefndarinnar, að þótt hásetum kunni að hafa verið misboðið með alt of löngum vökum á botnvörpuskipunum áður fyr, þá eigi slíkt sjer ekki stað lengur. Hitt er annað mál, að við atvinnuveg, sem er eins háttað og sjávarútveg, þá getur altaf komið fyrir, að hásetar fái ekki svefn einn og einn sólarhring í einu, en svo aftur lengri hvíld á milli. Sumir úr meiri hl. nefndarinnar hafa sjálfir stundað þessa atvinnu, og þekki jeg t. d. vel til um þetta, og get ekki sagt, að það hafi á neinn hátt haft vond áhrif á mig. Mjer finst, að það, sem hjer ræðir um, sje samningsatriði. Annars vegar er fjelagsskapur, þar sem er „Hásetafjelagið“, og ætti því að vera í lófa lagið að semja fyrir hönd háseta um það, að skipstjórar ofþjaki ekki fólki sínu með of miklu erfiði. Enda mætti það kallast ljelegur verkstjóri, sem gerði það. Úr þessu má enn fremur bæta á annan hátt, sem nú er mjög farið að tíðkast, og það er að láta stærri skip stunda veiðarnar en hingað til hefir verið gert. Á þeim er hægt að hafa miklu fleira fólk, svo að skifting vinnunnar kemur jafnara niður, og enginn vinni lengur en hóflegt er. — En ef aftur á móti væri farið að bjóða hvíldartíma með lögákvæðum, mundi leiða af því, að bæði t. d. síldarvinna og heyvinna myndu feta í fótsporin. Til að gera mönnum ljóst, hversu óhyggileg slík lagaskipun gæti verið, þurfum við ekki annað en að taka dæmi. — Við getum hugsað okkur, að nú hafi skip verið að velkjast í ofviðri dögum saman, og hásetar hafi lítið eða ekkert getað sofið fyrir veðrinu. Svo dettur á dúnalogn alt í einu, með uppgripum af fiski. Þá yrðu auðvitað allir að vinna, til þess að bjarga fiskinum. Eins og gefur að skilja, getur vinnutíminn í slíkum tilfellum orðið æði langur, en við því er ekkert að segja. Jeg tel ekki óhugsandi, að ef þetta yrði að lögum, þá hefðu sumir skipstjórar það til, af eintómri stríðni, að láta háseta sína aldrei fá meiri hvíld en lögboðið væri, eða 8 kl.stundir. — Sjálfur er jeg þessu máli mjög vel kunnugur, því jeg hefi stundað sjómensku áður fyr, bæði við hákarlaveiðar og lúðuveiðar, sem eru mjög erfiðar. T. d. kom fyrir oftar en einu sinni, að jeg vakti við vinnu samfleytt í rúma 2 sólarhringa. Og jeg hefi ekki orðið þess var á neinn hátt, að jeg hafi beðið heilsutjón við það. Jeg skal ekki neita því, að slíkt gæti orsakað heilsubilun hjá sumum mönnum. En þeir hafa sennilega ekki verið hraustir fyrir, og ættu því ekki að gefa sig við sjómensku. Það er ekki öðrum hent en óbiluðum mönnum. Og á því er ekki vafi, að barningur bátasjómannanna okkar hefir átt mestan þátt í því að gera þá að sjógörpum. Það er því undarlegra, að vilja nú fara að setja lög um þetta, einmitt þegar það er stórum að batna. Skipstjórar okkar hafa oft og einatt erfiðað engu síður en hásetar. Það er ekki nema eðlilegt, þegar svo er ástatt, eins og oft vill verða, að ógæftir hafa staðið dögum saman, en svo koma skyndilega nokkrir góðir dagar. Þá eru flestir svo skapi farnir, að þeir draga ekki af sjer að ná sem mestum afla. Enda eru það tiltölulega fáir dagar á árinu, sem aflinn fæst á skip. Ef farið væri að setja lög um hvíldartíma á botnvörpuskipum, því ætti það þá ekki líka að ná til annara skipa og báta? Allir sjá, hve slíkt væri fjarri sanni, þegar t. d. um opna báta er að ræða, sem einatt sækja svo langt, að þeir ná ekki í land í tæka tíð. Setjum t. d., að þegar menn á róðrarbát væru komnir á miðja leið til lands, væri vinnutíminn á enda, og hásetar heimtuðu þá, að nú mættu þeir, lögum samkvæmt, leggjast fyrir til svefns. Annað tveggja yrði þá, að leggjast fyrir akkeri, eða þá að láta reka til hafs aftur, og mundi hvorugt reynast gott. Af þeim ástæðum, er jeg nú hefi greint, hefir meiri hl. nefndarinnar ekki getað sjeð, að nægar ástæður lægju til þess, að þetta frv. verði samþ. Þá mundu fleiri atvinnuvegir á eftir fara með samskonar kröfur, og hvar værum við þá staddir? Hvernig færi t. d. með búskap til sveita, ef kaupafólk heimtaði lögboðinn, ákveðinn hvíldartíma frá heyvinnu. — Jeg fæ ekki skilið, hvers vegna þetta er að eins látið ná til botnvörpuskipa. Jeg verð þó að álíta, að þess sje ekki síður þörf hvað snertir mótorbáta. Á þeim eru ekki síður vökur og langur vinnutími. Það hefir komið fyrir hjá Englendingum, að hásetar hafa verið svo úrvinda af svefnleysi og þreytu, að þeir hafa siglt skipinu sofandi á land. Varð þetta til þess, að ábyrgðarfjelögin ensku kröfðust þess, að ofþreyttum mönnum væri eigi falin stjórn á skipum, en lög um það hafa þeir eigi sett. Sem betur fer hefir slíkt eigi hent hjá okkur Íslendingum á botnvörpuskipum, og jeg tel litlar líkur til þess, að það komi nokkum tíma fyrir. Sýnir það, að okkar skipstjórar eru nærgætnari menn. Hins vegar hefir svipað komið fyrir á mótorbátum, og ætti það að benda í þá átt, að þar væri þörfin fyrir einhverja takmörkun á vinnu eða vökum öllu brýnni en á botnvörpungunum. — Jeg ætla ekki að minnast á till. minni hl. nefndarinnar. Hún fer að vísu skemra. „Principið“ er hið sama. Ástæður fyrir því eru sem sagt þær, að til er fjelagsskapur á báða bóga, sem getur samið um þetta ágreiningsatriði. Og ef lög sem þessi væru sett, myndi oft verða algerlega ókleift að framfylgja þeim. — Að endingu leggur meiri hl. nefndarinnar til, að málið verði afgreitt með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

Með því að eigi virðist ráðlegt að fastákveða með lögum hvíldartíma háseta á botnvörpuskipum, nje við annan veiðiskap, telur deildin ekki gerlegt að fallast á frv., og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.