22.08.1919
Neðri deild: 42. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í C-deild Alþingistíðinda. (2959)

83. mál, hvíldartími háseta

Jörundur Brynjólfsson:

Að svo komnu þarf jeg ekki að tala langt mál, þar sem ekki hefir verið hrundið neinu af því, sem jeg færði fram við flutning málsins, um það, að nauðsynlegt væri, að hásetar hefðu lagastaf sjer til stuðnings í kröfum sínum um hvíldartíma, þegar vinnan keyrði úr hófi fram.

Andmæli þau, sem fram hafa komið, hafa minst beinst gagnvart málinu sjálfu. Jeg get því farið fljótt yfir sögu, því að þótt hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) og háttv. þm. S.-M. (B. St.) hafi mælt móti málinu, þá eru rök þeirra næsta veigalítil.

En jeg verð að víkja örfáum orðum að nál. hv. meiri hl.

Það er þá fyrst það, að ekki tjái að setja slík lög sem þessi sökum þess, að oft verði að vinna svo mikið sem unt er, vegna óstöðugrar veðráttu; því sje nauðsynlegt að nota sem best hverja góða stund. Það má vel vera, en þess verður þó að gæta að skemma ekki mennina á of mikilli vinnu. Um það mun hv. meiri hl. vera mjer sammála. Jeg geri því lítið úr þessari mótbáru. Þess verður líka að gæta, þegar talað er um óhagstæða veðráttu í sambandi við þetta mál, að skip þessi eru betur við slíku búin en hin smærri skipin; þar má því ekki miða við báta og smáfleytur.

Þá segir þar, að ekki sje ástæða til að lögbjóða hvíldartíma frekar við þennan starfa en annan. En það eru engar ástæður fyrir mótmælum gegn þessu máli, þótt menn vinni of lengi annarsstaðar. Hins vegar er það víst, að lengur er unnið við þennan starfa en nokkurn annan hjer á landi, og erfiði það, sem hásetar hafa, er afskaplega mikið. Jeg ber ekki á móti því, að það sje líka mikið við veiðar á seglskipum og mótorbátum, en vökur eru þó ekki nálægt því eins miklar. (S. St.: Miklu meiri!). Þeir eru þá ekki öfundsverðir, en annars trúi jeg ekki á það, að svo sje. En þó að svo væri, þá eru það engin mótmæli gegn þessu frv.

Hv. frsm. meiri hl. (M. Ó.) sagði, að þetta væri ekki síður í þágu háseta; þeirra væri fjárvonin engu síður. En þeim mun nú sjálfum kunnugast um það, hvar skórinn kreppir að, og þar sem þessar óskir eru beint frá þeim komnar, þá sýnir það, að sú fjárvon er ekki svo mikil, að þeir vilji ekki leggja hana í sölurnar fyrir hæfilega hvíld.

Jeg veit, að það er rjett, sem háttv. framsm. meiri hl. (M. Ó.) tók fram, að hásetar telja ekki eftir sjer að vinna mikið, en svo má þó nærri þeim ganga, að þeim sje of mikið boðið. Þess er getið í nál. meiri hl., að þess sjeu nú orðin fá dæmi, að hásetar sjeu látnir vinna of lengi. En það eru óþörf orð og lítils nýt, þar sem óskir þessar voru samþ. nú í vor, og einmitt síðastliðinn vetur kvað mikið að þessum óhæfilegu vökum. Hjer er ekki heldur farið fram á annað en lagfæringu á því, sem nú er. Það stendur líka í nál., að hugsunarháttur háseta sje nú orðinn svo breyttur, að þeir muni ekki una við að vinna hjá þeim húsbændum, sem leggi þeim of mikið á herðar. En einmitt þessar óskir þeirra sýna það, að þeir muni síðast þann kostinn taka að mögla, og finst mjer mega virða þeim það til vorkunnar, en síst af öllu ætti sú hæverska þeirra að verða til þess, að málaleitun þeirra yrði að vettugi virt.

Þá segir þar líka, að lítil meining sje í því, að vilja ekki leyfa frjálsa samninga um þetta efni milli háseta og skipstjóra. En það bannar enginn, þó að frv. þetta verði að lögum. Þetta er að eins til þess, að tryggja mönnum hvíld, þar sem erfiðið keyrir úr hófi fram. Þar, sem ekki er um of mikið erfiði að ræða, koma ákvæði þessi ekki til greina. En einmitt þetta, að menn skuli vera þeim mótfallnir, bendir í þá átt, að til sjeu of háar kröfur. — þá kem jeg að ræðu háttv. framsm. meiri hl. (M. Ó.), og get jeg farið fljótt yfir, þar sem háttv. framsm. minni hl. (Sv. Ó.) hefir þegar drepið á ýms atriði hennar. Hv. frsm. meiri hl. (M. Ó.) sagði, að nú væru skip þessi að stækka, mönnum þar af leiðandi fjölgað og því næðissamara. En það mælir síst á móti frv. þessu, því að þar, sem hvíld er nóg, verða lög þessi hvorki til gagns nje meins. En minni skip eru til enn þá, og erfiðið á þeim keyrði úr hófi fram nú síðast í vetur sem leið. Sú ástæða mun líka hafa ýtt mest undir háseta að leita til þingsins nú.

Samanburður háttv. þm. (M. Ó.) á starfi þessu og öðrum atvinnugreinum, t. d. heyvinnu, hafði við engan veruleika að styðjast, og hefði hann eins vel getað sparað sjer þá umhyggju fyrir bændum, sem þar kom fram. En til þeirrar vinnu þekki jeg mjög vel og veit, að hún er ekki saman berandi við þetta. Það kann að vísu að koma fyrir, að unnið sje í heilan sólarhring samfleytt við heyvinnu, en það er hreinasta undantekning, og hún mjög sjaldgæf.

Þá sagði háttv. þm. (M. Ó.), að ef lögleiddur yrði hvíldartími fyrir háseta, og miðaði hann þar við tíma þann, sem háttv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.) leggur til, þá gæti það orðið til þess, að skipstjórar leyfðu hásetum sínum ekki lengri hvíld á sólarhring en þar er ákveðið, sem er 6 stundir. Það þykir mjer ekki líklegt, og furðar mig á, að talsmaður þeirra hjer skuli gera þeim svo slæmar getsakir. Það getur auðvitað hugsast, að þeir skipstjórar sem ekki vilja láta háseta sína njóta hæfilegrar hvíldar nú, reyni að nota sjer þetta. En það sýnir þá best, að ekki er vanþörf á að taka í taumana.

Þá gaf hann í skyn, að vökur þessar væru nú mikið að minka, og væri laganna því ekki þörf. En það eru engin mótmæli. Þar sem það er sannanlegt, að þær eiga sjer enn stað, þá er laganna þörf, eins þótt þær sjeu ekki almennar.

Að lögin hafi þá átt að ná til fleiri atvinnugreina skal jeg ekki um segja. Jeg hefi ekki talað um nema hvíldartíma háseta á botnvörpungum, og það er það eina, sem hjer liggur fyrir.

En því verður ekki neitað, að gott væri líka að geta komið í veg fyrir annað eins og það, að menn sigli skipum sínum sofandi á land.

Þá kem jeg að ræðu háttv. þm. S.- M. (B. St.). Jeg hjelt við upphaf ræðu hans, að þar lýsti sjer iðrun eftir að hafa verið með meiri hl., og svo var það nú í raun og veru, en þegar á leið, hvarf hann aftur að fyrra eðli sínu og snerist alveg á móti málinu. En jeg þarf ekki mörgu að svara honum, þar sem hann sagði að mestu það sama og háttv. frsm. meiri hl. (M. Ó.). En það þykir mjer undarlegt, að hann skuli þurfa að vera á móti málinu fyrir það, að skoðanir manna á því eru mismunandi. Svo mun þó um flest mál, og ef maður á ekki að vera með neinu nema því, sem allir eru einhuga um, þá mun fáu fylgt verða. Hitt er þá venja, að leita sem sannastra upplýsinga, og fylgja svo því, sem manni finst rjettast. Og það mun nú hv. þm. (B. St.) sjálfsagt hafa gert, þó að ekki hafi betur til tekist. — En það skildist mjer á ræðu hans, að hann teldi víst, að þetta kæmist bráðlega á, ef það upplýstist, að þessa væri þörf. En þess vil jeg geta, að hefði þingið setið á þeim tíma, þegar sjómenn eru hjer, þá hefði verið hægt að fá betri upplýsingar. Að vísu mundu þær hafa orðið líkar því, sem jeg hefi haldið fram, en ítarlegri. Hvort hv. þm. (B. St.) hefði þá lagt meira upp úr þeim skal jeg ekki segja.

Jeg gleymdi að minnast á það atriði í nál. hv. meiri hl., þar sem sagt er, að hann hafi fengið ábyggilegar upplýsingar um, að ekki sje þörf á lögum þessum. Um það vil jeg það eitt segja, að jeg þykist vita svo mikið, að þær upplýsingar sjeu frá einhverjum öðrum komnar en hásetum sjálfum.

Um nál. hv. minni hl. þarf jeg ekki margt að segja. Mjer þótti vænt um að sjá, að einn maður er þó í sjávarútvegsnefnd, sem litið gat þessar óskir háseta rjettu auga.

Niðurfærslan á tímanum var að mínu áliti ekki þörf, þar sem menn þessir munu ekki hika við að vinna eftir getu. Síðara atriðið er líka nokkuð mikið undanhald, og hefði jeg helst kosið að það hefði ekki komið fram. En þó er þetta má ske betra en að ekkert væri gert.

Út af ummælum þeim, sem komist hafa á stjá, síðan málið kom hjer fyrst til umr., skal jeg geta þess, að jeg tel þau ekki svara verð. Það er hægt fyrir þá, sem sitja í hægindastólum og aldrei drepa hendi sinni í kalt vatn, að skipa öðrum að vinna. Slíkum mönnum, sem hirða gróðann af annara erfiði, er hægt um vik að siga öðrum áfram og meina þeim að unna sjer hæfilegrar hvíldar.