21.07.1919
Efri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

33. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg held, að ekki sje fluttur inn til eldsneytis og iðnaðar annar vínandi en sá, er nær 16°; er þó ekki viss um það. Ákvæði þetta er tekið upp úr eldri lögum og mætti athugast betur.

Ástæðan til þess, að stjórnin hefir ekki lagt til, að skattur verði talinn af þessum lið er sú, að mestur hluti þess vínanda sem þar er talinn, er notaður til eldsneytis og iðnaðar, og því nauðsynlegur.

Því miður mun hann einnig nokkuð notaður til drykkjar, og væri ekkert á móti því að tolla þann vínanda mjög hátt, en gallinn er sá, að ekki er hægt að greina á milli.

Jeg fyrir mitt leyti mun ekki spyrna við lágum skatti á þessum lið. en tel mjög varhugavert að leggja háan skatt á hann.