22.08.1919
Neðri deild: 42. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (2960)

83. mál, hvíldartími háseta

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg verð að segja það, að jeg get ekki skilið mótstöðu þá, sem mætt hefir þessu frv. Mjer finst það aldrei sanngjarnt að heimta meiri vinnu af mönnum en 16 stundir á sólarhring, hvernig sem á stendur. Jeg býst heldur ekki við, að neinn ábati geti verið að því, að láta menn vinna lengur, nema auðvitað ef hætta er á ferðum.

Mig furðar mjög á samanburði þeim, sem gerður hefir verið á þessari atvinnugrein og sveitavinnu. — Jeg veit ekki betur en vinnutími í sveit hafi yfirleitt verið styttur á síðari árum að miklum mun. Þess munu nú engin dæmi, að unnið sje þar 16 stundir í sólarhring, ekki einu sinni um hásláttinn, þegar þó lengst er unnið. Mjer er næst að halda, að vinnutíminn þá sje ekki alment lengri en 10–12 stundir.

Jeg verð að viðurkenna það, að hv. minni hl. fer nær því að taka rjett í málið, en ekki get jeg verið honum þakklátur fyrir það, eins og hv. 1. þm. Reykv. (J. B.). Jeg lít svo á, að í frv. sje farið fram á það minsta, sem hægt er að heimta. Það mun heldur ekki vera það, sem gerir hv. þm., að þeim finnist það svo ósanngjörn krafa, að heimta 8 stunda hvíld á sólarhring, að meðtöldum matmálstíma; nei, það er stefnan í málinu. Þeir eru svo hræddir við að takmarka vinnutímann með lögum. Það telja þeir svo mjög hættulegt. En það er misskilningur. Komi það ekki í ár, þá kemur það að ári, og þá má vera, að kröfurnar verði hærri fyrir það, að nú er ekki vel tekið svo sanngjörnu máli, sem þetta er.

Jeg fyrir mitt leyti væri ekkert hræddur við það, þó gerð væri víðtækari krafa, og jeg hjelt í fyrstu, að þessi krafa væri afdráttarlaus, þannig að með því að samþ. þetta væri hásetum um leið bannað að vinna lengur en 16 st. En eftir því, sem mjer skilst á háttv. flm. (J. B.), er þetta misskilningur. En jeg býst nú samt við, að lítið verði úr þessari vernd, ef þeim er leyft að vinna lengur eftir samkomulagi, því að hjer er einnig um það að ræða, sem oft er þörf, að verja hinn undirgefna svo að segja gagnvart sjálfum sjer, er um er að ræða kröfur húsbóndans.

En þar sem það mun nú vera meiningin með þessu að veita að eins heimild til 8 st. hvíldar, þá skil jeg því síður mótspyrnuna.

Það væri aldrei sanngjarnt að heimta meira en 16 st. vinnu í sólarhring af neinum manni, hvernig sem á stendur, á móti vilja hans. Jeg held því, að óhætt sje í öllu falli að samþ. frv., eins og það liggur fyrir, einkum ef svo á að skilja það, að þetta sje að eins heimild. Jeg fyrir mitt leyti vildi skilja það svo, að þetta væri afdráttarlaus krafa.