23.08.1919
Neðri deild: 43. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (2968)

83. mál, hvíldartími háseta

Frsm. minni hl. (Sveinn Ólafsson):

Það var þegar fyrirsjáanlegt í upphafi, að þetta mál mundi ekki ganga af hljóðalaust hjer í deildinni. Sú er líka raun á orðin. Og þótt jeg hefði ástæðu til að mótmæla mörgu af því, sem sagt hefir verið, þá hefi jeg ekki samvisku til þess, þar sem umr. hafa staðið svo lengi, um ekki stærra mál. Menn verða vissulega að takmarka sig í umr.; annars fer næsti þingfundur í það að deila um málið. Jeg vil því að eins minnast á fáein atriði, þau sem mestu virðast skifta.

Fyrst skal jeg drepa á það helsta, sem mjer þótti athugavert í ræðu hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.). Hann sýndi mjer þann sóma, að lesa upp svo að segja alt nál. minni hl., en jafnframt þann bjarnargreiða, að snúa út úr því nær hverju atriði. Fyrst og fremst vefengdi hann, að óskir um ákveðinn hvíldartíma hefðu komið fram frá sjómönnum. Kvaðst hann ekki hafa heyrt þær óskir. En það er engin sönnun fyrir því, að óskirnar sjeu ekki almennar, eða hafi ekki komið fram, og mundi skýringin þá helst vera sú, að hann hafi ekki viljað heyra þær eða taka eftir þeim. En aðrir hafa heyrt þær, svo mikið er víst, og dugir ekki að rengja þá alla. Háttv. þm. (M. Ó.) tók það fram, að heilsuveilir menn ættu ekki að gefa sig til þeirrar vinnu, sem þeir ekki þyldu. En nú er mönnum ekki altaf sjálfrátt um þetta. Menn verða að leita sjer atvinnu, þótt gamlir sjeu og heilsulitlir. En sje það líka rjett, að botnvörpungaveiðar sjeu ekki annara meðfæri en hraustra, ungra manna, þá er því meiri ástæða til að tryggja heilsu þessara manna, með því að grípa fram í og vernda þessa menn, að ekki spilli þeir heilsunni. Hygg jeg, að enginn meiri hl. manna vildi láta hafa það eftir sjer, að hann væri á móti þessu frv., ef hægt er að sýna og sanna, að ungir og hraustir menn missi heilsuna við vökurnar á botnvörpungunum, jafnvel þótt ekki sannaðist um nema einn eða tvo menn á vertíð hverri.

Háttv. þm. (M. Ó.) neitaði því, að samskonar lög væru til í öðrum löndum. Þetta mun ekki vera rjett hjá honum, því í Englandi munu vera lög í þessu efni. Mjer hefir, því miður, ekki tekist að ná í þessi lög, en eftir þeim mun lágmark svefntíma á sólarhring vera 4 tímar, eða m. ö. o., vinnan á botnvörpungunum ensku má vera tuttugu tíma lengst samfleytt á sólarhring. (E. A.: Er hægt að víkja frá því með samningum?). Það er mjer ekki kunnugt um. Mjer hefir sem sagt ekki tekist að ná í lögin, og jeg þekki ekki einstök ákvæði þeirra. Hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) talaði um það, að hvíldin á botnvörpungunum væri svo mikil á milli þess, sem fiskaðist, að fyrir kæmu heilir sólarhringar, sem hásetar hefðu lítið sem ekkert að gera, og gætu þeir þá hvílt sig. En slíkt nægir ekki, það sjer hver maður. Það er alveg ónóg, þótt jafnvel heils sólarhrings hvíld færi á eftir tveggja sólarhringa vöku. Ofraun verður aldrei nema að nokkru leyti bætt með langri hvíld. Mjer fellur illa að heyra það frá þeim, sem segist vera vinur sjómanna, að þeir mundu verða óbilgjarnari og erfiðari viðureignar, ef þessari kröfu þeirra yrði fullnægt. Jeg hjelt, að háttv. þm. (M. Ó.) vildi ekki kasta glófa framan í sjómennina með þess háttar ummælum. Þeir hafa, að minni hyggju, ekki verðskuldað það. Hitt er sennilegra, að þeir kunni að meta nærgætni þá, sem þeim er sýnd með löghelgun hvíldartímans, og að mannúðleg lög skapi mannúð og rjettlætiskend hjá þeim. En hv. þm. (M. Ó.) vill telja sjómenn þau úrþvætti, að þeir mundu versna við það að fá sanngjörnum kröfum sínum fullnægt. Þetta fer algerlega í bága við ummæli hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), sem taldi sjómenn góða menn, vandaða og gegna. Jeg tel öldungis vafalaust, að þeir reyndust jafnötulir og áður, og nærgætnir um hag vinnuveitenda, en að því skapi þróttmeiri og ábyggilegri, sem aðbúð öll væri betri og heilsusamlegri. Því hefir verið haldið fram, að lágmarkshvíldin væri ónóg hjá minni hl., og enn fremur hjelt hæstv. forsætisráðherra (J. M.) því fram, að till. minni hl. yrði ekki að liði, af því að hún væri ekki fortakslaus (absolut), og leið væri til þess að stytta hvíldartímann enn meira með samningi. En jeg bjó frvgr. svona út af ásetningi. Því jeg þóttist sjá, að þótt ákvæðið væri fortakslaust, þá mundu samningar verða gerðir eigi að síður, og þá í óleyfi laganna, um undanþágu frá ákvæðinu. En að setja ákvæði um 6 stunda svefn gæti leitt til þess, að miklu færri undantekningar yrðu gerðar með samningum, og smátt og smátt yrði alment litið svo á, að það væri ekki boðlegt, á sjó fremur en landi, minni svefn en 6 stundir á sólarhring.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, að málið væri komið hjá minni hl. í sama horf eins og þótt því hefði aldrei verið hreyft. Þetta er eins og hver önnur staðleysa. Verði brtt. minni hl. samþ., hafa sjómenn lagalegan rjett til 6 tíma svefns á sólarhring, og geta gengið eftir þeim rjetti, ef þeir vilja; nú hafa þeir ekkert slíkt að styðjast við. Jeg skrifaði niður hjá mjer einhver fleiri ummæli hv. þm. (G. Sv.), en sumpart er þeim þegar svarað, og sumpart skifta þau ekki verulegu máli, og skal jeg því ekki tefja tímann lengur.