23.08.1919
Neðri deild: 43. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (2970)

83. mál, hvíldartími háseta

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er undarlegur misskilningur, sem gert hefir vart við sig hjer í hv deild, að blanda saman kröfunum um 8 tíma vinnu og þessu máli, um 8 tíma hvíld. Krafan um 8 tíma vinnu miðar að alt öðru, þ. e. að því, að tryggja það, að þeir, sem hafa framfæri af vinnu sinni, þurfi ekki að nota svo mikinn tíma til vinnunnar, að þeir, fyrir utan sjálfan hinn nauðsynlega hvíldar- og svefntíma, hafi tíma afgangs til þess að afla sjer fræðslu og hæfilegrar skemtunar. Auðvitað á þá og krafa sú einkum við vinnu, sem er stöðug alt árið, eða getur verið, svo sem verksmiðjuvinnu o. s. frv., en ekki alment við sjávarútveg eða landvinnu. En þetta, sem hjer er farið fram á, er að eins til að tryggja heilsu manna. Sjálfsagt ættu læknar að vera færustu mennirnir til að dæma um skaðsemi þess, að hafa miklar vökur, og hefi jeg leitað álits þriggja helstu lækna okkar um þetta efni, og voru þeir mjer samdóma um það, sem jeg hefi látið í ljós um skaðsemi of mikillar vöku. — Annars er umhyggjan fyrir því, að vernda verkamenn, stöðugt að aukast í heiminum, sjerstaklega þegar talað er um þá, sem stunda verksmiðjuiðnað. Víða er það orðið að lögum, að vinnan skuli vera 8 tímar á sólarhring. Og það skyldi ekki standa á mjer, ef nokkrar líkur væru til, að slíkt ákvæði gengi fram hjer í þinginu. En því er vitanlega ekki að heilsa nú.

Jeg býst við, að það sje rjett, sem sumir hafa bent á, að hjer sje farið of skamt, að taka að eins til greina hvíldartíma fyrir menn, sem vinna á botnvörpungum. En meiri hl. er ekki á móti málinu þess vegna, því það hefir komið ótvírætt í ljós, að hann vilji ekki vera með því, þótt það væri flutt á breiðari grundvelli.

Krafa þessi á hvorki neitt skylt við bolsjevisma nje er sjerstaklega riðinn við jafnaðarmenn. Jeg veit, að margir, sem alls ekki telja sig jafnaðarmenn, mundu vera með kröfunni.

Ýmsir hafa viljað gera lítið úr kröfunni af því, að hún sje flutt af svo fáum, og telja reynsluna oft hafa sýnt það, að samþyktir á þingmálafundum hafi ekki svo mikla þýðingu. En krafan er, held jeg, miklu almennari en hv. þm. halda.

Mjer er ekki kunnugt um, hvort breyting hefir orðið á þessu síðan jeg var bæjarfógeti. Ef svo er, og sú breyting hefir verið til batnaðar, þá rekast þessi lög ekki á, og jeg fæ ekki skilið mótstöðuna gegn þeim. Hafi þetta ekki breyst, þá er full ástæða til þessara laga. Mjer var vel kunnugt um, að þá var meðal háseta allmikil óánægja út af vökum á botnvörpungum.

Háttv. samþm. minn (J. B.) sagði, að lítið bæri á milli okkar. Mjer þykir vænt um það, og sje þá ekki ástæðu til sundurþykkis. Það væri í alla staði óviðkunnanlegt, ef þeir, sem eru meðmæltir þessu frv., færu að skammast sín á milli. Þeir eru ekki svo margir, að þeir hafi ráð á því. Jeg meinti ekkert ilt í garð hv. samþm. míns (J. B.) í fyrri ræðu minni. Jeg hafði að eins skilið hann svo, að hann ætlaðist til, að hásetar mættu semja. En í stað þess að neita þeim skilningi mínum eða leiðrjetta hann, þá ræðst hann á mig með ónotum.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. en jeg hefi gert. Mjer skilst það, að það þýði ekki mikið; forlög þess sjeu þegar ákveðin. En þótt frv. eigi fyrir sjer að falla nú, þá vona jeg, að það verði síðar tekið upp aftur og leitt til sigurs.