23.08.1919
Neðri deild: 43. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (2971)

83. mál, hvíldartími háseta

Jörundur Brynjólfsson:

Það er að eins örstutt athugasemd.

Jeg skil ekki, hvaða hrós getur í því legið, að jeg lít rjettu auga afstöðu manna til þessa frv., þótt þeir sjeu mjer ekki fyllilega sammála. Það er löngum viðkvæðið, að ef menn eru ekki þverir og þráir, ef menn líta með sanngirni á það, sem fram kemur, þá sjeu menn að hopa af hólmi. Jeg kann ekki við, að mjer sje brugðið um slíkt í þessu máli.

Út af því, hvernig skilja beri frv., þá þarf ekki að fara í grafgötur um það; 1. gr. tekur af öll tvímæli. En vitanlega er ekki hægt að setja í lögin skilyrði um, hvernig hásetar eigi að fara að framfylgja þeim sjálfir. Þeim er að eins veitt stoð og stytta laganna, og þá eru þeir um það, hvort þeir færa sjer hana í nyt eða ekki.

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) sagði, að jeg hefði ráðist á sig með skömmum. Það er alls ekki rjett. Jeg sagði ekki eitt einasta hnjóðsyrði til hæstv. ráðherra (J. M.). — Jeg sagði að eins, að hann hefði lengri þingsögu að baki sjer en jeg og gæti vitnað til hennar. En þar sem hann skildi mig svo, að jeg væri ekki eindregið með málinu, eins og jeg flutti það, þá er það alls ekki rjett, og jeg gat ekki tekið þeim ummælum hans með þökkum.