27.08.1919
Neðri deild: 47. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í C-deild Alþingistíðinda. (2984)

53. mál, læknishérað í Ólafsfirði

Pjetur Jónsson:

Það munu liggja fyrir þinginu 6 eða 7 beiðnir um stofnun nýrra læknishjeraða. Jeg get ekki betur fundið en að þetta læknafjölgunarmál ætli að fara að verða nokkuð áríðamikið, ekki síst nú, eftir þá atkvgr., sem nýfarin er fram hjer í deildinni um launakjör lækna. Jeg gæti trúað því, að menn hugsi sig tvisvar um, áður en þeir samþ. allar þessar læknafjölganir. Þess er að gæta, að auk þess, sem farið er fram á að fjölga mannalæknum, er gert ráð fyrir að stofna þrjú ný dýralæknaembætti. Jeg ætla annars ekki að fara lengra út í kostnaðarhlið málsins, og það var ekki aðallega hennar vegna, að jeg tók til máls. Það var sjerstaklega annað atriði, sem jeg ætlaði að vekja athygli á. Þegar verið er að fjölga læknum, má ekki líta á eitt einstakt hjerað, og þörfina sem það kann að hafa fyrir lækni, eins og læknishjeruðum er nú skipað, heldur þarf að líta á landið í heild sinni. Það hefir verið allmikið vandaverk að skipa læknaumdæmunum haganlega, þegar læknamálið hefir legið fyrir í heild sinni og læknum verið fjölgað. En síðan hefir verið bætt við allmörgum læknum, og við það hefir hin upphaflega skipun læknaumdæmanna ruglast, og ruglast æ því meir, því meir sem læknum er fjölgað á þann hátt, að smeygja inn í einum og einum í senn. Það veitti því ekki af, eins og nú er komið, að taka til endurskoðunar skipun læknaumdæma í öllu landinu. Þetta hefir allsherjarnefnd ekki gert, og varla von, að hún treysti sjer til þess að gera það á þeim takmarkaða tíma, sem hún hefir yfir að ráða til að sinna því máli. Jeg held, að það væri heppilegast að vísa málinu nú til stjórnarinnar og fela henni að hafa undirbúið það undir næsta þing, og að það sje rjettara en að vera smátt og smátt að stofna eitt og eitt nýtt læknishjerað, af hálfgerðu handahófi. Þó mun jeg greiða þessu frv. atkv. til 3. umr., til þess að sjá hvernig fer um hin samkynja frv. í deildinni, því að jeg sje ekki ástæðu til að gera þessu frv. það lægra undir höfði en hinum.