10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (2994)

56. mál, skipun læknishéraða o.fl. (Árnessýsla)

Frsm. minni hl. (Einar Arnórsson):

Jeg þarf ekki að svara hv. frsm. meiri hl. (P. O.) mörgum orðum. Hann gerði enga tilraun til að hrekja það, sem jeg hefi sagt. En í stað þess sló hann út í aðra sálma, eins og þeim er títt, sem eru í röksemdaþroti. Hann fór að tala um, að jeg hefði lagst á móti hinum læknishjeruðunum, sem hjer voru nýverið til umr. Jeg verð að segja, að jeg bjóst við því, að þessi hjeruð myndu yfirleitt ekki nú ná samþ. deildarinnar. Jeg veit ekki betur en að við hv. þm. Borgf. (P. O.) værum sammála um Bolungarvíkurhjeraðið. — Við vildum báðir veita því ríflegan styrk til læknissóknar. (P. O.: Við vorum eiginlega sammála um þau öll). En um Ólafsfjarðarhjerað og Bakkahjerað lít jeg svo á, að til lítils sje að stofna þau, því að örvænt megi heita um, að nokkur læknir fáist í þau fyrst um sinn. Þau eru fábygð og „praxis“ því lítil, afskekt hjeruð á útkjálkum landsins. En þessu máli er alt öðruvísi farið. Hjer er ekki um neina útkjálka að ræða, hjeruð, er enginn maður vill fara í. Hjer að ræða um hjerað í einni af blómlegustu sveitum landsins.

Hv. þm. Borgf., frsm. meiri hl., (P. O.), mælti eins út í bláinn, er hann kvað mig hafa snúið út úr því, er hann hefði sagt. Jeg veit ekki til, að jeg hafi snúið út úr orðum hans. Þess þurfti ekki. Það lá svo vel við að svara orðum hans beint, eins og þau fjellu. Hitt má vel vera, að hann hafi reiðst mjer, er jeg dró dálítið í efa kunnugleika hans og þeirra fjelaga þriggja í meiri hl., og að jeg fór gamanyrðum nokkrum um ferðalag þeirra fyrir austan. (P. O.: Fræðslan kom nokkuð seint!). Slæmt, að jeg vissi ekki fyr um fáfræði þeirra. Það hefði þá má ske mátt benda þessum ágætu fræðimönnum á, að til er landabrjef herforingjaráðsins danska af þessu svæði, og gætu þeir skoðað það hjer á skrifstofunni.