10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í C-deild Alþingistíðinda. (2995)

56. mál, skipun læknishéraða o.fl. (Árnessýsla)

Bjarni Jónsson:

Jeg vil gera grein fyrir atkv. mínu; þarf þess mjög af vissum ástæðum. Skal jeg geta þess fyrst, að jeg hefi altaf fylgt því, að læknar sjeu sem flestir. Tel jeg meira vert mannslíf hvert, sem bjargað er, en peninga þá, sem læknirinn kostar. Veit jeg ekki til, að jeg hafi verið á móti neinni till. um stofnun nýrra læknishjeraða.

Jeg tel það einmitt vel ráðið, að nýjum lækni sje bætt við í Árnessýslu, svo mannmargt hjerað og stórt. Þótt jeg hafi lítið flakkað þar, þekki jeg þó þar til lítils háttar. Sje jeg ekki, hvernig þessir tveir læknar geta sótt yfir alt það svæði og þær ár, sem þar eru til farartálma. Hvernig skal að fara, ef leitað er læknis utan úr Selvogi til Eyrarbakka eða Skálholts, en svo er læknirinn ekki heima, heldur úti á hinum kjálka hjeraðsins? Væri þá ólíkt betra, að sýslunni væri skift í 3 hjeruð. Væri þá Hrepparnir og Skeiðin í einu, Biskupstungur, Grímsnes, Grafningur og Þingvallasveit í öðru, og neðri hluti sýslunnar og kauptúnin í hinu þriðja. Þetta myndi jeg telja vel ráðið.

Menn hafa talað um, að ólærður læknir einn sitji við Þjórsárbrú, Rangárvallasýslumegin. — Mun hans vera full þörf í Rangárvallasýslu, sem er erfið yfirsóknar, ef rjett er, að hann sje þess megnugur að vera manndýralæknir.

Jeg vildi lýsa þessu yfir nú, því að ekki er gott að vita, nema jeg bjóði mig fram í Árnessýslu við næstu kosningar. Er þá gott að hafa haft hjer dálítinn þingmálafund fyrst. Enda væri og þessi ráðstöfun hin mesta lífsnauðsyn, ef eitthvert stórmenni veiktist hættulega í þeim sveitum, er nú eiga lengst til læknis, eins og t. d. Gvendur Faust. En í alvöru talað legg jeg hið besta með stofnun læknishjeraðs þessa og greiði frv. atkv.