21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í C-deild Alþingistíðinda. (3003)

75. mál, bifreiðaskattur

Björn Kristjánsson:

Viðvíkjandi orðum hv. frsm. (M. G.) um, að þetta sje að nokkru leyti atvinnuskattur og að nokkru leyti „luxus“-skattur, vil jeg láta þess getið, að atvinnuskattur getur þetta ekki verið, því að hann hittir ekki bifreiðaeigendur, heldur þá, sem bifreiðarnar nota.

Þá tel jeg það vafasamt, hvort þetta geti heitið „luxus“-skattur. Það er mjög vafasamt, hvort hægt er að kalla það „luxus“, þótt menn, sem vinna alla vikuna, taki bifreið á helgum, til þess að komast út úr bænum. Jeg vil miklu heldur kalla það nauðsynlega hreyfingu til heilsubótar. Áður áttu menn hjer í bænum hesta, er þeir notuðu með þetta fyrir augum; nú hafa menn fargað þeim síðan bifreiðarnar komu. Allir vita, að nú má heita ókleift að kaupa sjer hesta og að fá hagbeit fyrir þá á sumrum. Það var alveg rjett athugað hjá hv. frsm. (M. G.), að það væru mikið stelpur og strákar, sem notuðu bifreiðarnar; en úr þessu verður ekki bætt með þessu frv., því þetta hátterni má segja að orðinn sje aldarháttur hjer í Reykjavík. Jeg held enn fast við þá skoðun mína, að innflutningstollurinn sje eina ráðið til að fyrirbyggja ofvöxt bifreiða.