21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (3004)

75. mál, bifreiðaskattur

Sigurður Stefánsson:

Þótt mjer lítist jafnan vel á tölur, sem auka tekjur ríkissjóðs, þá verð jeg þó að játa, að jeg er ekki hrifinn af þessu frv., og næsta sammála hv. 1. þm. G.-K. (B. K.).

Jeg vil skjóta þeirri athugasemd til nefndarinnar, sem fær þetta mál í hendur, að jeg hefi það eftir vegamálastjóra, að við vegagerð ríkissjóðs verði farið að nota bifreiðar, og hefir vegamálastjórinn sagt mjer, að á þann hátt mundu sparast tugir þúsunda. Það liggur því í augum uppi, að þessar bifreiðar eru nauðsynjaverkfæri. (S. S.: Þetta verða flutningabifreiðar). Jeg tala um frv. eins og það er, og þar er engin undanþága gerð með þá tegund.

Ef fara á nú að leggja skatt á þessi farartæki, leiðir það mann til þeirrar spurningar, hvort ekki muni rjett að leggja slíkan skatt á önnur farartæki, kerrur, vagna og hesta o. s. frv. Það er ekki nema eðlilegt, að bifreiðar sjeu mest notaðar í bæjunum, þar sem fjölmennið er og vegirnir bestir. Það er sennilegt, að síðar muni bifreiðarnar breiðast út um landið og verða alment flutninga- og farartæki. Vagnarnir voru t. d. fyrst notaðir svo að segja eingöngu í bæjunum, en nú eru þeir höfuðflutningatæki landsmanna, þar sem vegagerð er lengst komin, og það er öllum augljóst, hvílík búbót þeir hafa verið íslenskum landbúnaði, og mjer er nær að halda, að mörgum hverjum bóndamanni mundi þykja á sjer órjettur ger, ef farið væri að leggja skatt á þessi bráðnauðsynlegu flutningatæki. Það mundi eins verða með bifreiðarnar, því þær munu innan skamms verða notaðar til flutninga af bændum, og mætti það heita góð framför, því bæði bera þær miklu meira og eru margfalt fljótari í ferðum heldur en vagnarnir, og mundu því bæði spara tíma og peninga.

Þessa ræðu mína má ekki skilja svo, að jeg sje ráðinn í að vera á móti þessu frv., heldur er hún haldin til þess að hvetja nefndina að fara varlega hjer og athuga alt vel. En það verð jeg að segja, að ef jeg væri bóndi austur í Grímsnesi og hefði keypt mjer flutningabifreið, þá þætti mjer hart, ef þungur skattur væri á hana lagður.