28.07.1919
Efri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

33. mál, tollalög

Magnús Kristjánsson:

Jeg tel ekki þessar brtt. nefndarinnar til bóta. — Að vísu get jeg ekki haft neitt verulegt á móti 1. brtt., jafnvel þó gert sje ráð fyrir helmingshækkun, en þykir þó undarlegt að vera að hækka toll á vöru, sem notuð er til lækninga.

Síðari brtt. nefndarinnar gengur út á það, að lagður sje 4 kr. tollur á hvern lítra af vínanda, sem nota á til eldsneytis og iðnaðar og gerður er óhæfur til drykkjar.

Mig stórfurðar á þessari brtt., því jeg sje ekki, að hún geti haft önnur áhrif en þau að gera fátæklingum lífið erfiðara.

Á síðari árum hefir vínandi þessi mikið verið notaður til eldsneytis. — Bæði hefir hann verið tiltölulega ódýr, og víða er húsum svo háttað, að ekki er hægt að nota önnur áhöld til suðu en þau, sem þetta efni er notað við.

Jeg býst við, að nefndin hafi ekki athugað þetta nægilega.

Ef maður vildi gera sjer grein fyrir því, hvað fyrir nefndinni hefir vakað, er hún kom fram með till. þessa, mun hún hafa óttast, að vara þessi væri misbrúkuð á þann hátt, að hún væri notuð til neyslu.

En þó svo væri, að hún væri að einhverju leyti misbrúkuð, þá er ekki komið í veg fyrir það með þessum tolli.

Þeir sem eru svo djúpt sokknir, að leggja sjer slíkan óþverra, sem brensluspíritus er, til munns, myndu engu síður gera það, þó þessi hái tollur sje lagður á hann.

Þar sem jeg býst við, að ekki verði mikill tekjuauki að tolli þessum en þyngslin af honum komi niður þar, sem síst skyldi, vona jeg að hv. þm. athugi mál þetta vel áður en þeir greiða atkv. um brtt., en að sjálfsögðu mun jeg greiða atkvæði á móti henni.