23.07.1919
Neðri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (3014)

75. mál, bifreiðaskattur

Sigurður Sigurðsson:

Jeg vil gera stutta grein fyrir breytingartillögu þeirri, sem jeg hefi leyft mjer að bera fram. Hún fer í þá átt, að vöruflutningabifreiðar sjeu undanþegnar skatti.

Þess er í fyrsta lagi að gæta, að vöruflutningabifreiðar eru enn þá fáar, eins og háttv. frsm. (M. G.) tók fram. Í öðru lagi má það ekki gleymast, að flestar eða allar þær bifreiðar, sem hafðar eru til vöruflutninga, miða að því, að gera vöruna og flutninginn ódýrari. Þetta gildir jafnt um bifreiðar, sem flytja vörur austur um sveitir, sem bifreiðar, er hafðar eru til vöruflutninga innan kaupstaða.

Það, sem kom mjer sjerstaklega til að bera fram þessa brtt., var, að nú á seinni tímum, sjerstaklega í vor, hafa bændur í austursveitum komið sjer saman um kaup á bifreið til vöruflutninga. Þessi ráðstöfun miðar að því að spara hestafl og vinnukraft, sem hvorttveggja er víða af skornum skamti þar um slóðir. Og jeg verð að telja þessa viðleitni mjög mikils verða tilraun til þess að spara sjer flutnings- og ferðakostnað. Nú er svo komið, að flestir eru einyrkjar, hafa varla tök á að fara langferðir, og hestaflið er orðið dýrt, og svo ilt að dvelja hjer með hesta, að til vandræða horfir. Allur þorri ferðamanna austan yfir fjall verður því að bæta á sig að flytja með sjer hey. Bifreiðakaupin eru þess vegna tilraun til að draga úr þessum kostnaði. Annars vil jeg minna háttv. þingdeild á það, að aukin notkun bifreiða er besta sönnun þess, hversu samgöngutæki þau, sem vjer höfum átt við að búa, eru ófullkomin, og hversu mikla nauðsyn ber til, að bætt sje úr þessu meini, með járnbrautarlagningu austur í sveitir.

Af þessum ástæðum, og fleirum, sem jeg hirði ekki að nefna, vil jeg mæla eindregið með því, að brtt. mín á þgskj. 131 verði samþ.

Jeg skal geta þess að lokum, að þessar fáu vöruflutningabifreiðar, sem enn þá eru, mundu ekki skerða skattinn að neinum mun. Og þó að þær flyttu mann einstöku sinnum, mundi það aldrei nema miklu. Enda yrði það fátækari hluti fólksins, sem tæki sjer far með flutningabifreiðum, því vitanlega eru þær mun óþægilegri til mannflutninga, en hinar. En ef reyndin verður sú, að þessi undanþága verði misbrúkuð, ætti að vera auðvelt að setja undir þennan leka, með því að fela stjórninni að ákveða, hvernig skyldi útbúa þær bifreiðar, sem væru undanþegnar skatti.