23.07.1919
Neðri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (3015)

75. mál, bifreiðaskattur

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg bjóst við brtt. við frv. þetta, eftir umr. að dæma á dögunum. Jeg bjóst við, að þeir, er töldu gjald þetta alt of hátt, mundu gera tilraun til að lækka gjaldataxtann. En þetta hefir brugðist, og kemur mjer það allkynlega fyrir sjónir, því að mörgum þótti taxtinn of hár, er málið var hjer til 1. umr. Jeg er líka þeirrar skoðunar, að hann hafi verið og sje alt of hár. Jeg lít svo á málið, að ef auðið væri að flokka bifreiðarnar, væri rjett, að þeir bifreiðaeigendur væru látnir greiða einhvern skatt, sem hafa bifreiðar beinlínis til skemtunar. En þær bifreiðar væru aftur á móti undanþegnar skatti, sem hafðar væru til nauðsynlegra fólks- og vöruflutninga.

Ferðir á hestum verða dýrari með ári hverju, eins og bent hefir verið á, og bifreiðar eru vafalaust bestu samgöngutækin, sem vjer eigum enn kost á; því tel jeg ekki rjett, að lagður sje skattur á þessi þörfu flutningstæki, að minsta kosti eins hár og frv. fer fram á. Það er heldur alls ekki sanngjarnt að leggja 250 kr. skatt á bifreið, jafnvel þó menn hafi hana að eins sjer til til skemtunar. Hestahaldið hverfur smám saman og er þegar að minka mjög mikið í kaupstöðunum. Þar af leiðir, að bifreiðum og bifhjólum hlýtur að fjölga með tímanum, í stað hestanna.

Sumir hafa fundið bifreiðunum það til foráttu, að þær skemdu mjög vegi. Þetta er og rjett, að nokkru leyti. Því er, ef til vill, sanngjarnt að bifreiðaeigendur legðu eitthvað af mörkum fram til viðhalds vegum. Reyndar er slíkur skattur ekki lagður á önnur flutningatæki, sem vinna þó vegunum allmikið tjón, og það er ekki svo að skilja, að jeg æski þess.

Það nær, að mínum dómi, ekki nokkurri átt, að lagður sje skattur á bifreiðar, sem hafðar eru til vöruflutninga. Þær eru einkum notaðar af hjeruðum, sem eru langt frá sjó og eiga því erfitt um aðflutninga. En slík hjeruð hafa nóg á sinni könnu. Þeim eru aðflutningar svo dýrir, að jeg teldi algerlega ranglátt að leggja skatt á þetta eina flutningatæki, sem þeim gæti komið helst að notum. Annars sýnir það ljósast, hversu aðflutningar eru orðnir sveitamönnum erfiðir og dýrir, að þeir skuli ráðast í að kaupa sjer bifreiðar til vöruflutninga, jafndýrar og þær eru þó til þess. Jeg veit þess dæmi, að menn hafa greitt 8–10 aura fyrir pund hvert, sem þeir hafa flutt í bifreið austur um fjall.

Jeg veit til þess, að menn, sem hafa haft slíka flutninga með höndum, hafa stundum haft á orði að sækja um styrk til þingsins, til að draga nokkuð úr kostnaðinum. Það er því ærið kynlegt, að nokkrum skuli koma til hugar að leggja skatt á þessi farartæki. Þess skulu menn líka gæta, að eftir fá ár munu bifreiðar verða alment notaðar, ef ekki er á óeðlilegan hátt dregið úr notkun þeirra.

Jeg mun þess vegna bera fram brtt. við frv. við 3. umr., sem fer í þá átt, að lækka þetta flutningsgjald. Og að sjálfsögðu fellst jeg á till. háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). Jeg virði vilja fjárhagsnefndar til að afla landinu sem mestra En þessar tilraunir hafa, því miður, stundum þann ókost, að þær koma ekki þar niður, sem skyldi, og hættir við að skapa þann veg misrjetti. Svo er um þetta frv. Flutningsgjaldið, sem það fer fram á, mundi einkum koma niður á þeim, sem búa uppi í sveitunum og eiga allra manna erfiðasta aðdrætti; þá á að skattskylda með þessu frv., en á sama tíma greiðir ríkið styrk til þess að halda uppi samgöngum fyrir þá, sem búa við sjó og eiga manna ódýrasta og auðveldasta flutninga.