23.07.1919
Neðri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (3017)

75. mál, bifreiðaskattur

Pjetur Jónsson:

Jeg hefi ekki haft tíma til að íhuga þetta mál nægilega vel. En jeg leit svo á, að ekkert þýddi að koma með brtt, við frv. Mjer finst frv. vera svo langt frá allri sanngirni, að ef farið væri að gera breytingar á því, sem gerðu það sanngjarnt, yrði það til þess að breyta tilgangi þess.

Sá skattur á bifreiðar, sem jeg gæti talið sanngjarnan, getur ekki haft neina verulega þýðingu til að bæta úr núverandi fjárvandræðum landssjóðs. Hæfilegan skatt á bifreiðar mætti skoða sem þóknun fyrir slit á vegum, er þær orsaka, og tillag þeirra til vegabóta. En jeg tel það ekki takandi í mál, að hinir tiltölulega fáu bifreiðaeigendur sjeu látnir taka á sig sjerstaka byrði, sem verulegu muni, til þess að ljetta af núverandi fjárhagsvandræðum. Sá skattur gæti orðið til þess að menn tækju að selja bifreiðar sínar úr landi. Nú sem stendur mun vera auðvelt að selja háu verði bifreiðar til Danmerkur. Hvernig sem jeg lít á málið, verð jeg að leggja fastlega móti frv. í þeirri mynd, sem það er nú í. Það gæti komið til mála, að 10–20 kr. skattur sje lagður á bifreiðar, eða ríflega það, en þessi skattur frv. nær engri átt.