28.07.1919
Neðri deild: 19. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í C-deild Alþingistíðinda. (3021)

75. mál, bifreiðaskattur

Björn Kristjánsson:

Jeg hafði búist við því, að hv. framsm. (M. G.) mundi tala fyrst, og var því ekki við búinn. En jeg vil taka það fram, að jeg er algerlega mótfallinn skattinum, jafnvel þótt jeg komi með brtt. við frv. þetta. Jeg tel það alveg órjett að leggja umferðaskatt á vissan part af þjóðinni, sem ekki nær til allra. Það væri því nær að leggja skatt á alla umferð á landssjóðsvegum. En það, sem einkum veldur því, að jeg er á móti frv. þessu, er, að hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) hefir skýrt frá fjárhagnum, og að tekið hafi verið nægt lán upp á reikningshallann. Geri jeg ráð fyrir, að stjórnin hafi gert ráð fyrir nægum tekjum í skattafrv. þeim, sem hún hefir lagt fram.

Þetta frv. kemur því eins og skrattinn úr sauðarleggnum, og hefir ekki verið borið undir stjórnina, eftir því sem frsm. (M. G.) hefir skýrt frá. — Skatturinn er bæði óþarfur og ósanngjarn. Þetta veldur því, að jeg kem með brtt. um, að þeir sleppi við hálfan skattinn, sem fara fastar ferðir með farþega, að minsta kosti tvisvar í viku. Jeg held, að þetta myndi bæta úr flutningaástandinu, koma betra skipulagi á bifreiðaferðirnar. Það er alkunnugt hjer, að þegar menn ætla í ferð, er varla hægt að fá bifreið hjer fyrir óreglu, þrátt fyrir bifreiðafjöldann. Væri það mjög mikilsverð framför, ef fastar ferðaáætlanir kæmust á, svo að menn gætu gengið að ferðunum vísum á vissum tímum, eins og á járnbrautum erlendis. Væri þá ekki nema eðlilegt, að eigendur þessara bifreiða fái linun á skattinum. Jeg vildi auðvitað helst, að þessar bifreiðar væru skattfrjálsar, því að þær eru langmest hagræði fyrir almenning. Jeg býst því við, að þetta gæti stutt að því, að fleiri bifreiðar hefðu fasta áætlun. Væri það bót.

En þar sem tollur er ekki lagður á umferð yfir höfuð, þykir mjer eðlilegt, að þessum tolli sje varið til að halda við vegum þeim, er bifreiðarnar fara um. Hefi jeg því lagt til, að skatturinn gangi eingöngu til viðhalds þeim. En þrátt fyrir það, þótt þessar till. verði samþ., greiði jeg frv. þó ekki atkv., því að jeg tel það órjettlátt.

Þó er það ekki einsdæmi, að lagður sje skattur á bifreiðar. Eftir því, sem kunnugir menn hafa sagt mjer, eru slíkir skattar til á Norðurlöndum, og samræmir í ríkjunum þremur. Sá skattur kvað vera 25 kr. En það er alt annað, því að þar, sem vegir eru betri en hjer og slitna minna, geta bifreiðarnar gengið alt árið, en hjer að eins 3–4 mánuði. Skatturinn ætti því að vera miklu lægri hjer en þar.

Svo vil jeg enn benda á, að ef bifreiðarnar fara fastar ferðir, þá eru þær bestu og þægilegustu flutningatækin, sem við eigum ráð á nú, og jeg hygg, að svo muni verða framvegis, fyrst um sinn. Það eru samgöngutæki, sem vjer fyllilega ráðum við og uppfylla flutningaþörf vora, bæði fyrir vörur og fólk.

Það er skrítið, þegar borið er saman, að menn vilja leggja skatt á þessi flutningatæki, sem landssjóður hefir ekkert lagt til styrktar, en engum dettur í hug, að leggja skatt á umferðina með skipi, sem landssjóður hefir orðið fyrir um 240 þús. kr. halla af á árinu 1918.

Jeg tel hið mesta ósamræmi í þessu, og ætti frv. hreint og beint að falla. Jeg vona þá líka, að þótt það kunni að komast gegnum hv. Nd., muni það alls ekki ganga í gegnum þingið.