28.07.1919
Neðri deild: 19. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (3025)

75. mál, bifreiðaskattur

Björn Kristjánsson:

Ef það er satt, að bifreiðaeigendur hafi grætt afarmikið á bifreiðum sínum, þá er það jafnframt augljóst, að hæstvirt stjórn hefir sett taxtann of háan. En það er skylda stjórnarinnar að setja hæfilegan taxta. Jeg vil enn halda því fram, að skatturinn sje lagður á umferðina, en ekki á bifreiðastjórana, og verður stjórnin auðvitað að taka tillit til þess framvegis, hvaða skattur hvílir á bifreiðum, þegar hún gefur út taxta fyrir þær. Annars verð jeg að álíta, að við þurfum ekki að óttast neinn tekjuhalla á næstunni, með þeim tekjuaukafrv., sem þegar eru fram komin og verða samþ., að því er jeg býst við. Jeg held miklu fremur, að tekjurnar fari fram úr áætlun, ef t. d. síldin veiðist eins mikið og útlit er fyrir, með því ágæta verði, sem á henni verður.

Hv. frsm. (M. G.) sagði, að bifreiðaeigendur væru yfirleitt ekki óánægðir með skattinn. Jeg get vel skilið það. Hvers vegna ættu þeir að vera óánægðir, þegar þeir vita, að þeir geta velt skattinum yfir á þá, sem ferðast með bifreiðunum? En hvað segir hv. frsm. (M. G.) um þá menn, sem ekki flytja fólk fyrir borgun, heldur sjálfa sig og sitt fólk? Verður hann væntanlega að játa, að þeim falli ekki skatturinn vel í geð.