31.07.1919
Efri deild: 19. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (3031)

75. mál, bifreiðaskattur

Eggert Pálsson:

Þetta frv. fer fram á tekjuauka fyrir landssjóðinn, og býst jeg við, að enginn neiti því, að hann hefir fulla þörf fyrir allar þær tekjur, sem hann getur fengið, en samt sem áður finst mjer, að mönnum geti ekki staðið á sama um, hvernig teknanna er aflað. Mjer virðist, að einhver rjettsýni og sanngirni verði að liggja til grundvallar fyrir þeim byrðum, sem lagðar eru á menn. En jeg verð að játa, að jeg hefi ekki rekið mig á öllu óviðfeldnara skattafrv. en það, sem hjer liggur nú fyrir. Hjer er bygt á algerlega nýrri meginreglu, er stingur í stúf við allar eldri reglur. Hingað til hefir það verið talin bein skylda að reyna eftir megni að styðja og styrkja samgöngur á sjó og landi. Jeg býst við, að við sjeum allir sammála um, hversu nauðsynlegt sje að styrkja samgöngur á sjó, enda hefir miklu fje verið varið til ferða með ströndum landsins, bæði til gufuskipa og mótorskipa, og jeg býst við, að samskonar styrkur, og ekki óríflegri, verði í fjárlögum þeim, sem nú verða samin af þinginu. Á landi hefir eigi verið farið lengra en að verja fje til vega- og brúagerða. Þó hefir einu sinni brugðið út af því, og var þá einmitt veittur styrkur til bifreiðaferða, og styrkveitingin meira að segja ekki veitt einu sinni, heldur tveim sinnum. En nú þegar bifreiðaferðir eru komnar á, ætla menn að snúa við blaðinu og skattleggja þessi samgöngutæki, og það ekki neitt sjerlega óverulega. Þetta mætti náttúrlega til sanns vegar færa, ef hjer væru til betri flutningatæki, t. d. járnbrautir, og einkum ef þær væru ríkiseign, því þá væru bifreiðarnar orðnar keppinautar ríkisins, sem eðlilegt mætti telja að ríkið vildi losna við. En því er ekki að heilsa. Sem stendur höfum við engin betri flutningstæki en einmitt bifreiðarnar; ef þær væru úr sögunni, yrðum við aftur að fara að notast við hestana sem flutningstæki, en öllum er kunnugt, að þeir eru bæði seinvirkir og nú orðnir dýrir, bæði í innkaupi og viðhaldi. Og þar sem þörfin er ríkust, hjer í nágrenni Reykjavíkur, er lítt mögulegt að notast við hesta til samgangna.

Það er svo komið hjer í Reykjavík, að ekki er hægt að fá haga nje heytuggu handa hestum, og menn neyðast til þess, jafnvel um hásumarið, að flytja hey með sjer, ef þeir koma með hesta hingað.

Menn munu nú þykjast hafa bætt að nokkru úr rangsleitni þessa frv. með því, að undanþiggja flutningabifreiðar skattinum. Það virðist mjer mótsögn hjá formælendum þessa frv. Fyrir þeim mun hafa vakað, að bifreiðar spiltu vegunum, og af því sje skattur á þeim rjettmætur. Þetta hygg jeg órökstutt, og mun sanni nær, að bifreiðar spilli vegum mjög lítið. Þegar flutningsþörfin er mest, á vorin áður en klaka leysir úr jörð, og á haustin, þegar rigna tekur, er ekki unt að nota bifreiðar. Þá verða menn að flytja á hestvögnum, og þá spillast vegirnir skiljanlega mest. En væri það rjett, að bifreiðar spiltu vegum að mun, þá er það mótsögn, eins og jeg tók fram, að undanþiggja flutningabifreiðar skattinum. Það er auðsætt, að þær myndu þá spilla vegunum langmest. Bæði eru bifreiðarnar þyngri og svo flytja þær meiri þunga.

Jeg hygg, að formælendur þessa frv. hafi ímyndað sjer, að bifreiðaeigendur myndu bera þennan skatt og aðrir ekki. En svo er því ekki varið. Skattinn myndu bera ferðamenn, er nota þurfa bifreiðar, og með því væri þeim gert erfiðara fyrir, sem hafa brýnustu þörfina fyrir það, að greitt væri fyrir þeim.

Þessi skattur gæti má ske talist rjettmætur, ef honum væri varið til endurbóta vegum, umfram það, sem til þeirra er nú lagt. Þá væru vegirnir gerðir bifreiðunum greiðfærari, og myndi skatturinn þá vinnast upp. En á frv. sjest eigi annað en að þetta eigi að vera ný tekjugrein fyrir ríkissjóð, og það kemur hvergi fram, að skattinum eigi að verja til vegabóta. Og þó að menn slái þessu fram við umræðurnar, til þess að vinna frv. fylgi, virðist hugsunin vera sú, að ef það yrði samþ., mætti spara að minsta kost það fje, er áður hefir verið veitt í þessu skyni.

Jeg hygg því ekki rjett að leggja þennan skatt á, enda stingur hann mjög í stúf við þá stefnu, er þingið hefir annars tekið í samgöngumálunum, eins og jeg hefi þegar sýnt fram á.

Verði frv. vísað til nefndar, er auðsætt, að það á að fara til fjárhagsnefndar. En jeg álít það varla gerlegt að skapa frv. aldur og tefja sig á því að vísa því til nefndar.