05.09.1919
Efri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (3042)

75. mál, bifreiðaskattur

Frsm. minni hl. (Magnús Torfason):

Eins og sjest á viðbót þeirri, er jeg hefi ritað við nál., þá er jeg í sjálfu sjer ekki á móti því, að einhver skattur væri lagður á bifreiðar, en jeg tel rjett, að það væri innflutningsgjald, eins og hjá Norðmönnum, og hefði því átt að bera það fram sem breytingu á vörutollinum, en jeg get ekki fallist á, að rjett sje að leggja árgjald á bifreiðarnar. Annars tel jeg, að breyta þurfi vörutollslögunum; það hafa reynst á þeim ýmsir gallar, og þeir munu nú vera flestir komnir í ljós með hinum mörgu úrskurðum stjórnarráðsins um hann.

Til frekari viðbótar skal jeg geta þess, að jeg veit, að sumir góðbændur til sveita vilja fá sjer bifreiðar, en það tefur fyrir því, að vegirnir eru svo slæmir, og meðan svo er, er ekki rjett að leggja hátt árgjald á þessi farartæki, einkum þar sem járnbrautir eru hjer engar og flugið er ekki komið að „praktisku“ gagni enn.