28.07.1919
Efri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

33. mál, tollalög

Halldór Steinsson:

Þó jeg hafi skrifað fyrirvaralaust undir nál., er það ekki svo að skilja, að jeg sje alls kostar ánægður með frv. eða nál. sjálft. Það er þó einkum 5. tölul. 1. gr., sem jeg er óánægður með, og mun greiða atkv. móti honum. Á þingi 1917 var tóbakstollurinn hækkaður. Þá var jeg móti hækkuninni. En nú er hún enn meiri fjarstæða. Það er altaf hægt að tönlast á því, að tóbak sje ónauðsynleg vara. Það vita allir. Og það getur jafnvel verið skaðlegt, ef það er notað í óhófi. En tóbak er vara, sem mannlegur líkami heimtar og getur illa án verið, ef hann er orðinn vanur því. Og tollur venur menn ekki af því. Jeg gæti betur skilið hækkunina ef sú ástæða væri færð fyrir henni, að tollurinn ætti að útrýma tóbaksbrúkun, og þó veit jeg, að sá tilgangur myndi aldrei nást. Það kann reyndar að vera, að það mætti hafa tollinn svo háan, að fátæklingar yrðu að hætta tóbaksbrúkun, en efnamenn myndu halda áfram. En hvaða rjettlæti væri í því? Meðalbrúkun á neftóbaki mun vera 1 pd. á mánuði, 12 pd. á ári, sem með núverandi verðlagi kostar 100–120 kr. Þetta er að vísu ískyggilega mikil eyðsla í svokallaðan óþarfa, en ekki myndi hækkaður tollur draga úr henni. Það er alkunnugt, að margur fátæklingurinn sparar heldur við sig ýmsar nauðsynjar, til að þurfa ekki að vera án tóbaks. Þurrabúðarmenn í kaupstöðum og sjávarþorpum eiga verst með að neita sjer um tóbak og kaffi. Því er jeg algerlega á móti hækkun á tolli á þessum vörum.

Þá er vínfangatollurinn, sem farið er fram á að hækka, í 2. og 3. lið 1. greinar. Mjer þótti satt að segja kynlegt, þegar jeg sá að hæstv. stjórn hafði komið sjer saman um að stinga upp á hækkun á vínfangatolli hjer í bannlandinu. Áfengi er bannvara, að öðru leyti en því að það er leyfður innflutningur á því til meðalanotkunar og iðnaðar. Á þessu leyfða áfengi lendir því tollurinn eingöngu. En það er hál braut að leggja toll á vínföng, sem notuð eru til lækninga. Það má með jafnmiklum rjetti leggja toll á öll önnur meðul, og dettur þó engum í hug, að það nái nokkurri átt. Það virðist svo, sem hæstv. stjórn hafi borið meiri umhyggju fyrir suðuspritti sem kvað vera notað mikið til drykkjar, og nokkuð til að kveikja á ,,primusum“ heldur en vínföngum, sem notuð eru til lækninga ýmsum kvillum. Það er hlutur sem jeg fæ ekki skilið, hvers vegna hæstv. stjórn hefir viljað tolla meðul en ekki suðuspritt. Jeg hefi hvorki getað fengið skýrslur um innflutning á suðuspritti frá stjórnarráðinu eða hagstofunni. en eftir því, sem kunnugur kaupmaður segir mjer, mun það ekki vera undir 35–40 þús. pt. á ári. Það er víst sannfæring mín, að skatt á suðuspritti beri ekki að færa niður úr því, sem ákveðið er í brtt. nefndarinnar.