05.09.1919
Efri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í C-deild Alþingistíðinda. (3050)

75. mál, bifreiðaskattur

Kristinn Daníelsson:

Eins og málið liggur fyrir, þykist jeg þurfa að gera grein fyrir atkv. mínu.

Háttv. frsm meiri hl. (G. Ó.) gat þess, að frv. hefði lengið lengi í nefndinni, og eftir mínu áliti hefir það annaðhvort legið of lengi eða of stutt. Gat jeg búist við, að málið kæmi alls ekki aftur frá nefndinni eftir útreið þá, sem það fjekk við 1. umr., því þar kom augljóslega fram, að frv. var vísað til 2. umr. einungis af kurteisi við systurdeildina, sem þá var kölluð. Get jeg ekki hugsað mjer, að afstaða háttv. deildar sje önnur nú en þá.

Hefir nú verið sýnt fram á kosti og lesti frv., og finst mjer umr. hafa styrkt þá skoðun mína, að illa sje til fallið að byrja að skattleggja þessi flutningatæki, því engum getur dulist, að þau hafa valdið miklum framförum í samgöngum. Og þó að skattur sje lagður á bifreiðar í öðrum löndum, sannar það á engan hátt, að rjett sje að skattleggja þær hjer. Þar eru samgöngur í miklu betra lagi og miklu minni þörf á bifreiðum.

Jeg get ekki skilið háttv. þm. Snæf. (H. St.), þar sem hann áleit það ekki ástæðu til skattfrelsis bifreiða, hversu vegirnir eru hjer slæmir. Jeg get þó ekki betur sjeð en að bifreiðaskattur eigi að vera nokkurskonar greiðsla fyrir að nota vegina. Það hefir verið sýnt fram á það, að bílar eyðileggi vegi jafnvel minna en önnur flutningstæki, svo sem kerrur, og hefir því ekki verið hnekt, enda hefi jeg og gert mjer far um að athuga þetta, og sjeð, að það hefir við góð rök að styðjast.

Jeg mun að vísu greiða atkv. með brtt., sem fer þó í áttina til að gera minna úr þessu principbroti, en að sjálfsögðu hefir þessi 50 kr. lækkun ekki breytt skoðun minni á frv., og mun jeg því greiða atkv. móti því.