15.09.1919
Neðri deild: 64. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í C-deild Alþingistíðinda. (3060)

157. mál, vatnsorkusérleyfi

Frsm. meiri hl. (Gísli Sveinsson):

Forsaga þessa máls er svo kunn, að jeg þarf ekki að fara um hana mörgum orðum. Tilefnið til þess, að nefndin var skipuð, var í fyrsta lagi starf milliþinganefndar í fossamálinu, og af því verki kom nokkur hluti fyrir Alþingi. Þau mál voru ekki fram borin af stjórninni, heldur einstökum mönnum. Stjórnin hefir ekki sjáanlega tekið afstöðu til þessara mála Málin voru lögð fyrir þessa deild að eins, og var jafnframt sjálfsagt, að hún skipaði nefnd til þess að undirbúa þau. Ed. hefir líka orðið samferða um að taka þátt í undirbúningi málsins, og eins og nál. greinir frá, varð það fljótt að ráði, að nefndir beggja deilda ynnu saman. Nefndirnar urðu sammála í flestum höfuðatriðum, eins og nál. ber með sjer, en skiftust hins vegar í nokkrum einstökum atriðum.

Verk milliþinganefndar var allmikið að vöxtum, og það var þegar af þeirri ástæðu mikið starf að athuga þessi mál. Nefndinni var því ljóst, að engin tök voru á að afgreiða málin öll í lagaformi, eins og þau komu frá milliþinganefndinni. Var spurning um, hvað tiltækilegt og nauðsynlegt væri að bera fram til samþ. Eins og sjá má á nál., varð það samkomulag nefndanna, að ekki mundi hlýða að afgreiða neitt af málunum í frv.formi, nema sjerleyfislagafrv., eða frv. til laga um vatnsorkusjerleyfi.

En jafnframt þótti nefndinni, eða meiri hl. hennar, sýnt, að það þyrfti að vera grein fyrir því, sem valdið hefði ágreiningi í milliþinganefndinni, og búast má við, að landsmenn vilji fá eitthvað að vita um. Þessi ágreiningur var, eins og kunnugt er, um eignarrjettinn. Frá mínu sjónarmiði er þetta fremur formlegt, fræðilegt atriði, heldur en „reelt“ eða efnislegt. Að vísu er það allmikið efnsatriði, þegar út í málin kemur. En af því að milliþinganefndin skiftist um þetta atriði, þótti nefndinni sjálfsagt, að einhver úrlausn kæmi frá þinginu. Meiri hl. nefndarinnar hallaðist að þeirri aðferð, sem hann áleit rjettasta, að löggjafarvaldið gerði ekki upp á milli nefndarhluta milliþinganefndar, þar sem hjer væri um fræðilegt og rjettarfarslegt atriði að ræða. Slíkt ætti að sæta meðferð dómsvaldsins, eins og öll önnur þess háttar deilumál.

Minni hl. hafði einmitt klofnað frá meiri hl. um þetta atriði. Og þó að menn hafi látið í veðri vaka, að fleiri einstök atriði hafi á milli borið, þá ber þó svo á að líta, að nefndin hafi ekki skifst um annað en þetta atriði, sem er líka mikils vert. Þessi skifting kemur fram í áliti minni hlutans.

Það, sem um er að ræða í þessu máli, er, eins og jeg drap á, hvort þingið eigi að leggja dóm á þetta eða ekki. Eða með öðrum orðum, hvort dómsvaldið eða þingið eigi að skera úr eignarrjettarþrætunni.

Auðvitað gæti þriðja aðferðin komið til greina, að engin gangskör skyldi gerð að því að útkljá málið, og jeg skal geta þess, að einn nefndarmanna, hv. 1. landsk. þm. (S. F.), lýsti yfir því, að hann væri ekki fylgjandi till. meiri hl., því að hann sæi ekki ástæðu til þess að útkljá málið að svo stöddu; þetta mætti vera laust og bundið fyrst um sinn, þangað til að það rækist á. Á þessa skoðun gat meiri hl. ekki fallist. Þetta er orðið þrætumál, og meiri hl. leit svo á, að nauðsyn bæri til að fá skorið úr því sem allra fyrst, að því er allan landslýð snerti.

Þegar um það er að ræða, hverjar niðurstöður geti orðið af þessu, er um tvent að velja. Fyrst og fremst, að ríkið eigi vatnsorkuna, eins og meiri hl. milliþinganefndar heldur fram, eða í öðru lagi, að orkan sje einstaklingseign, eins og minni hl. nefndarinnar hefir haldið fram,

Þetta tvent getur komið til greina, og það verður að álíta, að niðurstaðan fjelli á annanhvorn veginn. En nefndin hefir ekki tekið afstöðu til þessa atriðis; ekki talið það vera sitt hlutverk að útkljá það. Til þess telur hún sig ekki vera færa; skortir til þess rannsókn á málavöxtum.

Í annan stað var meiri hl. þeirrar skoðunar, að málið verði ekki útkljáð svo af hálfu löggjafarvaldsins, að menn geti sætt sig við. Eins og kunnugt er, er að eins til einn aðili, sem menn verða að sætta sig við, og það er dómsvaldið. Úrskurði æðsta dómstólsins verða menn að hlíta. En alþingismenn mundu hvorki hafa hug eða löngun til að gera það að reglu, að Alþingi skæri úr slíkum málum, auk þess sem þeir hafa engin tök á að rannsaka atriði slík sem þessi. Það gæti leitt til ills eins, ef farið væri inn á þessa braut, og gæti gert mikinn skaða, því að þetta er hagsmuna-„pólitík“, sem gæti haft þau áhrif, sem við viljum útiloka. En þótt svo sje, að niðurstöðurnar verði aðallega tvær, eða annaðhvort af tvennu, að ríkið eigi vatnið eða einstaklingarnir, þá var um það rætt í nefndinni, að 3. möguleikinn kæmi til mála, sem sje sá, að bæði ríkið og einstaklingamir ættu vatnsorkuna. — Vatnsorka er ekki annað en það afl, sem myndast af sjerstökum ástæðum, sem eru fyrir hendi þar sem er sjerstakt landslag og vatn, sem hvorttveggja orsakar fallvatn. — Vatnsorka í vatni út af fyrir sig á sjer ekki stað. Það er þetta tvent, sem gefur skilyrði fyrir orkunni, vatnið og landslagið.

Nú er málið svo vaxið fyrir þeim, sem um það deila, að þó vafi kunni að leika á um vatnið, þá er ekki vefengt, að landið tilheyri þó einstaklingum. Það var því ljóst fyrir nefndinni, að þannig skoðað kæmu báðir aðiljar til greina, hið almenna, sem á vatnið, og einstaklingarnir, sem eiga landið. Ef mætti orða þetta svo, að þessi þriðja niðurstaða kæmi til mála, þá er ekki sjeð, að málið hljóti endilega að falla á aðra hvora hina hliðina. Þessa er að eins getið hjer sem athugasemdar frá hálfu meiri hl. nefndarinnar. En eins og jeg gat um, vildi hún ekki fella neinn úrskurð um þetta. — Samkvæmt þessari stefnu nefndarinnar hefir nú verið útbýtt frv., og auk þess eru 2 þingsályktunartill., sem síðar koma. Önnur till. fjallar um að framfylgja því, sem öll nefndin var sammála um, rjett ríkisins á vatnsorku í almenningum og afrjettum. Hin till. fer fram á, að dómsvaldi verði falið að úrskurða það vafaatriði, sem meiri og minni hl. milliþinganefndar deilir á um.

Frv. það, sem hjer er á dagskrá, er borið fram af hv. samvinnunefnd, öllum nema einum hv. nefndarmanna, sem kaus að bera það ekki fram með nefndinni, enda þótt mjer sje ekki kunnugt um, að hverju leyti hann er ósammála frv. Jeg geri hins vegar ráð fyrir, að hv. þm. hljóti að vera samþykkur þessu frv. í öllum meginatriðunum, því það er að mestu tekið úr frv., sem hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sjálfur hefir komið fram með. En auk þess, að hann ljeði ekki frv. fylgi sitt, hafa tveir aðrir háttv. nefndarmenn komið fram með brtt. um eitt mikilvægt atriði.

Frv. þetta er, eins og greint er frá í nál., einskonar uppsuða úr ákvæðum, sem lögð voru fyrir þingið, og komu frá hv. milliþinganefnd, og enn fremur nokkrum öðrum atriðum, sem nefndin hafði hliðsjón af. Frv. heldur sjer, að því er kemur til niðurskiftingar efnisins, að þeirri niðurstöðu, sem frv. hv. meiri hl. milliþinganefndar ber með sjer. Fyrirsögnin er sú sama, og kaflaskifting er líka með sama hætti. Þetta er gleggra yfirlits og greinilegra, að skifta frv. í kafla, heldur en að hver greinin reki aðra.

Efni frv. er sumpart frá hv. meiri hl. milliþinganefndar og sumpart frá hv. minni hl., og nokkuð annarsstaðar að. Ákvæði frv. fjalla um það, hverjir skuli fá notkunarrjett á vatnsaflinu í landinu og með hverjum hætti. Þar er gerð skifting á því vatnsafli, sem sjerleyfi þarf til að virkja, og því, sem ekki þarf sjerleyfi til. — Eins og hv. deildarmenn muna, hafði háttv. milliþinganefnd líka ætlað undir vafalaus umráð hlutaðeigandi landeiganda svo og svo mikið af vatnsorku, sem hann má virkja, án þess að sækja um leyfi til stjórnarinnar. Hjer er um allmikið vatnsafl að ræða; meiri hl. hafði áætlað 200 hestöfl, en minni hl. 500 hestöfl, sem landeigandi mætti notfæra. Þetta fanst samvinnunefnd helst til skamt farið, og leggur hún því til, að þessi frjálsi umráðarjettur nái til alt að 1000 hestafla. Það er að vísu mikið afl. En frá því sjónarmiði, að nokkur hætta gæti af þessu stafað, þá gat nefndin ekki sjeð, að það væri. — Um alt það vatnsafl, sem er þar fyrir ofan, gildir hið sama, að til að notfæra það þarf sjerleyfi, og á það að veitast af landsstjórninni. En sje um mikla orku að ræða, þá á þingið að koma til skjalanna. Fyrstu 1000 hestöfl eru undir yfirráðum hlutaðeigandi einstaklinga, en til að virkja þar yfir, alt að 10,000 hestöflum, þarf sjerleyfi, sem landsstjórnin veitir. — Fari orkan fram úr 10,000, alt að 50,000, hestöflum, verður að fá samþykki Alþingis til að virkja. Ef um enn meiri orku er að ræða en hjer greinir, þá þarf Alþingi að samþ. það tvisvar, og skulu fara fram kosningar milli þinga. — Þeir, sem um þetta fjalla, eru því stjórnin og Alþingi, og auk þess á stjórnin, samkvæmt till. nefndarinnar, að hafa vatnastjóra sjer að ráðunaut. — Þær undantekningar eru gerðar, að stjórninni er heimilt að samþ., að fallvötn sjeu virkjuð, ef hjeraðsstjórn gerir það, eða einstakir menn, í raforkuþarfir almennings, til ljósa, hitunar o. fl. — Þó eru sjerstök ákvæði, sem segja um, hvernig fara skuli, ef ríkið sjálft vill virkja. Þá er og því slegið föstu, að til þess að fá sjerleyfi þarf umsækjandi að hafa heimild til fallvatnsins. En það er látið ósagt, hvaðan þessi heimild skuli komin. Ef ríkið ætti eignarrjettinn, þá ætti það að sjálfsögðu að veita heimildina, annars einstaklingar, ef þeir ættu. Með öðrum orðum, þeir, sem um leyfi sækja, verða að hafa fengið notarjett hjá eigendum.

Þá er loks gerður nokkur greinarmunur á útlendum og innlendum mönnum. Þó skal þess getið, að þessi munur er mest formlegs eðlis, því aðalreglurnar gilda jafnt um hvortteggja, ef vilja fá sjerleyfi.

Jeg býst ekki við, að farið verði neitt út í einstök atriði málsins nú við 1. umræðu. Ef ætti að ræða málið meira af hálfu nefndarinnar, yrði ekki hjá því komist að fara inn á einstakar greinar. Það sje jeg mjer ekki fært að gera. Að eins hefi jeg getið þess, sem nefndin öll gat fallist á, hver með sínum hætti. Því þetta er í rauninni ekki annað en skýrsla um það, sem nefndin vann í málinu. Svo er og þess að geta, að nefndin ætlar sjer að taka frv. til athugunar undir gangi þess hjer í hv. deild. Og væri þá helst, ef hún vildi koma fram með brtt. til 2. umr., annaðhvort öll saman, eða einstakir nefndarmenn.