15.09.1919
Neðri deild: 64. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í C-deild Alþingistíðinda. (3061)

157. mál, vatnsorkusérleyfi

Sigurður Sigurðsson:

Jeg skal vera stuttorður. Enda virðist svo, sem þetta mál, vatnsorkumálið, hafi heldur lítinn áhuga hjá hv. þm.

Jeg ætla mjer ekki að fara út í einstakar greinar frv. En jeg vil segja það, að rauði þráðurinn í frv. er sá, að mjer virðist, að gera sem torveldast einstökum mönnum og fjelögum að útvega sjerleyfi til vatnsorkunytja. Þetta sá jeg strax, enda þótt jeg samþ., að frv. skyldi borið fram hjer í hv. deild. Það er vitanlegt, að nauðsyn ber til að tryggja sem best rjett ríkisins og þjóðarinnar gagnvart leyfishöfum. En þetta getur farið svo langt, að engum detti í hug að leita sjerleyfis til hagnýtingar á vatnsorku. Og ákvæði þessa frv. eru mjög á takmörkum í þessu efni. Í mínum augum er ekki nema um tvent að gera. Annaðhvort er að gera sjerleyfislög svo úr garði, að vænta megi, að einhverjum detti í hug að nota sjerleyfisheimildirnar, eða þá hitt, að banna alla notkun vatnsorku til stóriðju hjer á landi. Og þess er ekki að dyljast, að það lítur út fyrir, að sumir hv. þm. mundu helst kjósa það. — Nú er það mín skoðun, að ekki beri að setja þvert bann við því, að notkun vatnsorku til stóriðju geti átt sjer stað.

En jeg vil, eins og margir aðrir, fara mjög hóflega í öllum greinum og ekki veita nema takmarkað leyfi. Að mínu áliti kemur ekki til mála að veita sjerleyfi nema til að virkja að eins eina orkustöð í senn. En af því að jeg er þeirrar skoðunar, að ekki sje rjett að útiloka alla frá möguleikum til að fá sjerleyfi, þá mun jeg, eins og jeg boðaði, koma fram með nokkrar brtt. við þetta frv., sem miða í þá átt, að liðka til um leyfi til vatnsorkunytja. Jeg skal engu spá um það, hvort þær fái byr hjer í hv. deild. En hins vegar ættu þær að geta orðið til þess, að menn athugi nánar málið, og hversu langt eigi að ganga, að því er snertir sjerleyfi. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara nánar út í málið við þessa 1. umr.