18.09.1919
Neðri deild: 67. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í C-deild Alþingistíðinda. (3065)

157. mál, vatnsorkusérleyfi

Frsm. meiri hl. (Gísli Sveinsson):

Við 1. umr. fór jeg nokkrum orðum um höfuðstefnu þessa máls. Jeg gat þess þá, að frv. þetta er að vissu leyti upp risið úr frv. þeim, sem lögð voru fyrir þetta þing í öndverðu af bæði meiri og minni hl. milliþinganefndar í fossamálinu. En að nokkru leyti er hjer tekið tillit til þess annars, sem komið hefir fram í málinu.

Um einstök atriði frv. er þess fyrst að geta, að 2. gr. þess er orðin til með tilliti til þess, sem nefndinni kom saman um að vera ætti, sem sje það, að hún innihjeldi alls ekki neinn úrskurð þingsins um það, hvernig það liti á þrætu þá, sem upp kom í fossanefndinni og varð til þess að kljúfa hana. Og það er því síður ástæða til að kveða upp þann úrskurð hjer, þar sem hjer er ekki um að ræða neina almenna vatnalöggjöf, heldur að eins sjerstakan lagabálk um notkun vatnsorku og sjerleyfi til hennar, og skilyrðin til að fá það og hafa.

Höfuðgrein frv. er 2. gr., og er hún svo úr garði gerð, að í henni er ákvæði það, að sjerleyfi þurfi til þess að virkja öll fallvötn landsins, sem hafa fram yfir 1000 hestorkur. Þar með er það sagt, að fossar eða vötn, sem ekki ná því að hafa 1000 hestorkur, sjeu frjálsar til virkjunar, og sömuleiðis eru í stærri fallvötnum 1000 hestorkur frjálsar til afnota.

Hvernig svo sem kann að verða litið á eignarrjettinn, vill nefndin, að þetta verði gefið frjálst. En auðvitað er það gert að skilyrði fyrir þessari notkun, sem annari, að þeir menn, sem hana hafa með höndum, hafi heimild til þess. Sú, sem sjerleyfi fær, verður einnig að hafa heimild til þeirra fallvatna, sem hann ætlar að virkja. En þessar heimildir geta ekki verið aðrar en þær, að hann hafi eignarrjett, eða leigurjett, eða þá notkunarrjett frá þeim, sem aðalrjettinn hefir til þeirra vatna, sem hann ætlar að virkja. Þeir, sem telja sig hafa eignarrjettinn, hafa þessa heimild óskoraða. En á þessari takmörkun, sem sett er í 2. gr. á frjálsri virkjun, er þar gerð sú undantekning, að landsstjórnin getur veitt samþykki til, að hjeraðsstjórnir og aðrir virki fallvötn án sjerleyfis, þótt um meiri orkunot sje að ræða en 1000 hestorkur, ef það er að eins til að fullnægja raforkuþörf almennings.

Þar með er fyrst og fremst átt við það, sem með þarf til ljósa, hitunar og eldunar. En auk þess gæti auðvitað ýmislegt fleira talist til þarfa almennings. En með þessu er alls ekki átt við stóriðju eða neitt því um líkt. Loks er ákvæði um það, að ef ríkið ætlar að virkja fallvötn, þarf sjerstök ákvæði Alþingis um það. Þar með lýkur 2. gr., sem er um leið 2. kafli frv.

Þá kemur 3. kafli, og er hann miklu lengstur. Hefir hann inni að halda skilyrðin, sem sett skulu fyrir því, að hægt sje að fá sjerleyfi, auk ýmissa annara atriða. Þau skilyrði eru að mestu leyti samhljóða því, sem kom frá bæði meiri og minni hl. milliþinganefndar. Fyrst er 3 gr., um veitingu sjerleyfis til handa innlendum mönnum. En í 1. gr. frv. er það skýrgreint, hverjir teljast innlendir menn eða útlendir í frv. þessu. En þótt skilið sje svo milli innlendra manna og útlendra, þá gilda að mestu leyti sömu reglur um hvorttveggja; en það þótti greinilegra að hafa þá aðskilda, eins og gert er hjá meiri hl. fossanefndarinnar, enda er hjer að mestu fylgt niðurskipun þeirri, sem þar er, og kemur það af því, að í meiri hl. var verkfræðingur, sem auðvitað hafði mesta sjerþekking á hinni „teknisku“ hlið málsins. Þótti samvinnunefndinni rjett að taka það tillit til till. hans, að láta niðurskipun þessa haldast. Sama er að segja um ýmislegt, sem til þarf til þess að fá sjerleyfi, og upp er talið hjer síðar, að samvinnunefndinni þótti rjett að raska sem minstu frá því, sem er í frv. meiri hl., þegar unt er að ræða „teknisku“ hlið málsins.

Það má nú vera, að sumum þyki óþarflega nákvæmlega upp talið sumt í frv., og að eins hefði mátt hafa það í reglugerð, ef sett yrði nokkur. En þótt svo væri, að tína mætti eitthvað úr frv., þá yrði það tæplega svo margt, að því tæki að setja um það sjerstaka reglugerð. Það getur heldur ekki talist neinn skaði skeður, þótt lögin sjeu nákvæmari en sumum finst þörf við fyrsta álit, áður en nokkuð hefir til þeirra kasta komið. Hjer er, hvort sem er, verið að leggja inn á nýjar brautir og ef til vill hættulegar, og allir eru sammála um það, að varlega verði að fara og öllu nákvæmlega niður að skipa. Það er því ekki nema rjett, að aðallögin innihaldi allar reglur, sem settar verða.

Í 4. gr. eru talin upp skilyrðin, sem fyrir því eru sett, að hægt sje að öðlast sjerleyfi, og í lok greinarinnar er það ákvæði, að sá, er veita á sjerleyfið, verði að sanna heimild sína til vatnsorku þeirrar, sem hann vill hagnýta.

Þá er 5. gr., og er hún nýtt ákvæði frá því, sem lagt er til af milliþinganefndinni. Þar er svo ákveðið, að skipa skuli vatnastjóra, er sje ráðunautur landsstjórnar í öllum vatna- og raforkumálum, samkvæmt þeim reglum, sem um starf hans verða siðar settar. Þótti nefndinni full nauðsyn á, að landsstjórn eða Alþingi hefði sjer við hlið mann með sjerþekkingu á þessum málum, mann, sem hefði þar að auki meira en tillögurjett. — Greinin ákveður því það, að svo og svo mikið tillit skuli taka til till. þessa manns. Það er sem sje ekki hægt að gera ráð fyrir því, að stjórnin hafi sjerþekkingu í þessum málum, fremur en öðrum, sem hún hefir ráðunauta í, er gera till. um málin, hver á sínu sviði, og búa þau í hendur stjórnar og þings. Og nú má það vera öllum vitanlegt, að þetta svið, sem hjer er farið inn á, er svo vandasamt, að full þörf er á að hafa sjerstakan mann til að gera till. um þessi mál og leiðbeina stjórninni. En eins og sjá má af bráðabirgðaákvæði frv., þá ætlast nefndin ekki til, að sjerstakur embættismaður verði skipaður í þessa stöðu að svo stöddu, heldur verði starf þetta falið öðrum embættismanni, sem er vegamálastjórinn, sem gera má ráð fyrir að sje málinu kunnugur; að minsta kosti er það vitanlegt um þann mann, sem nú þjónar því embætti. En þetta telur nefndin svo mikilvægt starf, að hún leggur til, að í það verði skipað af konungi.

Þá er þess getið í 6. gr., að sjerleyfið má ekki veita öðrum, ef hjeraðsstjórn þess hjeraðs, sem fallvatnið er í, getur tekið að sjer virkjun þess, og ætlar að gera það í almenningsþarfir.

Skal landsstjórnin senda fyrirspurn til hjeraðsstjórnar, sem hlut á að máli, um það, og ef það er almenn ósk, að fallvatnið verði tekið til virkjunar í almenningsþarfir, þá gengur hjeraðið fyrir.

Þá er 8. gr. frv., og er hún í samræmi við ákvæði minni hl. milliþinganefndarinnar að því leyti, að landsstjórnin er ekki alls kostar einráð um sjerleyfisveitingar, þegar um mikið er að ræða. Það ákvæði var hjá minni hl., eins og hjer er sett í frv., að leita skuli samþ. Alþingis, ef um mikil orkunot er að ræða. Þau ákvæði hafði meiri hl. milliþinganefndarinnar líka, ef útlendingar ættu hlut að máli. En nefndin hjer sá ekki ástæðu til að gera hjer upp á milli. Hjer er því að eins miðað við hestorkufjölda.

Ákvæðið er þannig, að ef um meiri orkuvinslu en 10 þús. hestorkur er að ræða, skal leita til þess samþykkis Alþingis, en fari orkuvinslan fram úr 50 þús. hestorkum, verður Alþingi að samþykkja leyfið tvisvar, þó þannig, að ekki þurfi að rjúfa þing, heldur skal bíða fram yfir næstu reglulegar kosningar.

Þá skal að því víkja, sem fyr var frá horfið. Þær greinar, sem næst koma, eru 9. og 10. gr.

Þær eru sama eðlis og sumar, sem á undan eru komnar, að því leyti, að þær tiltaka einstök atriði, sem greina skal í sjerleyfinu, eða setja skal sem skilyrði fyrir því.

Um 11. gr. skal jeg geta þess, að nefndinni þótti rjett, að greiða skuli sjerleyfishafa hæfilega borgun fyrir afnot á samgöngutækjum, er hann ljeti gera.

Milliþinganefndin hefir ekki sett neitt ákvæði um þetta, og er það því nýtt hjer í frv., en undantekning er gerð um vegi og brýr. En hjer getur orðið um annað að ræða, t. d. járnbrautir, og þykir þá ekki rjett, að almenningur noti þær án endurgjalds. En gjaldið skal ákveðið í gjaldskrá, sem stjórnarráðið samþ.

Sömuleiðis þótti rjett að ákveða, eins og minni hl. gerir, að nauðsynlegar ráðstafanir skuli gerðar til að tryggja sveitarfjelögin gegn því, að verkalýður sjerleyfishafa falli þeim til þyngsla.

Þá er 12. gr., sem er eitt af höfuðatriðum frv. Hún fjallar um það, hve langur sjerleyfistíminn skuli vera. Hefir nefndin þar haldið sjer við þau ákvæði, sem meiri hl. hefir sett, að sjerleyfistíminn megi ekki fara fram úr 55 árum. En þetta er atriði, sem menn greinir mjög á um, enda er það eitt af mikilvægustu atriðum málsins. En alstaðar og altaf er það talið sjálfsagt að fara sem varlegast í því efni, hve langan tíma skuli veita sjerleyfið.

Minni hluti milliþinganefndarinnar ákvað þennan tíma nokkru lengri, og þótti meiri hl. samvinnunefndar þar of langt gengið.

Frá þeim ákvæðum, sem meiri hluti milliþinganefndar hefir sett um árgjaldið, hefir samvinnunefndin gert talsverða tilslökun. Árgjöld þessi voru tiltekin svo og svo mikil í frv. meiri hl., en ekkert ákveðið um það, hvert þau skyldu renna. Samvinnunefndin taldi rjett að ákveða, að þau skyldu öll renna í ríkissjóð. En þar er minni hluti milliþinganefndarinnar á annari skoðun. Hann vill, að hlutaðeigandi hjeruð fái nokkurn hluta þeirra. En meiri hluti samvinnunefndar hyggur það muni gera hjeruðin of bundin, of „interesseruð“ fyrir því, að virkjun komist á. Þar með er ekki átt við þá orkunýtingu, sem nauðsynleg er til almenningsþarfa, heldur hitt, að því meiri sem virkjunin væri, því meiri fjárvon gæti hjeraðið haft af henni. Meiri hluti nefndarinnar vill því alls ekki espa eða gefa undir fót þeirri fýsn hjeraðanna, að virkjun verði komið á í stórum stíl. Hann vill því ekki veita hjeruðunum neina von um gjald með sjerleyfislögum þessum. En gjald það, sem hjer er ákveðið, er miðað við hagnýta hestorkutölu. Vill nefndin, að því gjaldi, sem ákveðið er í fyrstu, megi ekki breyta í 25 fyrstu árin, og má það ekki fara fram úr ákveðnum hluta af hverri hagnýtri hestorku. Nefndin vill ekki heldur, að talið sje frá þeim tíma, sem sjerleyfið er fengið, heldur frá því, að virkjunin er fullgerð. Samkvæmt því, sem síðar kemur í frv., er sjerleyfishafa veittur 7 ára frestur frá því hann fær sjerleyfið, til þess að fullgera virkjunina. Auk þess getur hann jafnvel fengið til þess lengri tíma, ef nauðsyn ber til.

Svo er lagt til, eins og 14. gr. sýnir, að svo fari um árgjöldin til hins opinbera, að þeim fylgi lögtaksrjettur. Enn fremur vill nefndin ákveða, að til tryggingar þessu gjaldi standi eignir sjerleyfishafa að veði. Einnig þykir nefndinni rjett, að brot sjeu ekki ákveðin einhliða af landsstjórninni, heldur komi það undir dómstólana.

Næstu gr. frv. skýra sig að mestu leyti sjálfar við lestur, og eru varúðar- og tryggingarreglur.

Um 17. gr. skal jeg geta þess, að nefndin vildi ekki fallast á það, sem frv. milliþinganefndar gerði ráð fyrir, að það geti varðað sjerleyfisslitum, án dóms og rannsóknar, þótt áætlanir sjerleyfishafa reynist ekki fullnægjandi.

Nefndin leggur þá til, að málinu sje vísað til sjerleyfisdóms. Þessi sjerleyfisdómur er ákveðinn með 31. gr. og skal settur til þess, að hægt sje að dæma mál, sem út af sjerleyfum kunna að rísa, fljótt og vel. Dóminn skipa fimm menn, og á hæstirjettur að tilnefna þá, og formaður dómsins á að vera einn dómarinn úr hæstarjetti. Svo er í þessum kafla sjerstaklega ein gr., sem verður að minnast á. Það er 27. gr.

Hún er um það, hvernig sjerleyfishafi geti komið hlutabrjefum sínum í verð. Þau verða að bera nafn eiganda, og geta þau ekki orðið eign annara eða verið veðsett öðrum en ríkinu eða þeim, sem sjerleyfi má veita samkv. 3. gr. og 38. gr., svo og Landsbanka Íslands. Þó getur landsstjórnin veitt leyfi til að veðsetja þau öðrum bönkum eða fjelögum á Íslandi. Meiri hl. milliþinganefndar vildi, að þessi rjettindi hefðu þeir einir, sem sjerleyfi hefðu samkv. 3. gr., en hún fjallar um þá, sem innlendir eru og sjerleyfi má veita. En samvinnunefndin vill gera öllum jafnt undir höfði, og láta 27. gr. gilda jafnt um þá, sem talað er um í 3. gr. og 38. gr. Þau höft, sem greinin felur í sjer, eru alveg samhljóða þeim höftum, sem sett eru í norsku sjerleyfislögunum.

Í þessum kafla eru undirskiftingar á ýmsan hátt, eins og sjá má af frv., t. d. hvernig fara eigi að, ef sjerleyfisskilyrðunum á að fá breytt, um framsal, um sjerleyfisdóm, um sjerleyfisbrot og sjerleyfisriftingu. Í 30. gr., sem fjallar um framsal, er í síðasta liðnum tekið fram, að ef fallvatn, orkuver eða orkuveita fellur til ríkisins samkv. 36. gr., eða eru leyst inn af ríkinu, afmáist öll veðbönd, er á fyrirtækinu hvíla. Það þótti tryggilegra, að landið gæti ekki tekið að sjer að greiða áfram það, sem á fyrirtækinu kynni að hvíla.

Í þættinum um sjerleyfisslit er sjerstaklega fram tekið, að ef ekki næst samkomulag, skuli stjórnin mega leysa inn orkuverið, ef Alþingi samþ. Nefndinni þótti sjálfsagt að binda það við samþ. Alþingis, en milliþinganefndin hafði ekki gert ráð fyrir því.

Um þessi sjerleyfisslit greinir að öðru leyti eins og segir í 35. gr., og er tiltekið þar, að sjerleyfishafi verði að láta af hendi endurgjaldslaust þau rjettindi, er sjerleyfið heimilaði honum, en fyrir öll önnur rjettindi hans skuli koma bætur.

Í niðurlagi 36. gr., sem öll hljóðar um það, að orkuver og orkuveita geti fallið undir ríkið, er það tekið fram, að afhendingar þurfi ekki að krefjast til ríkisins, þegar innlent hjerað á orkuverið, eða þegar það er eign innlendra manna, og orkunotin fara ekki fram úr 2500 hestorkum. Þá má framlengja leyfið, þegar svo er.

Í sömu grein er ákveðið, að ríkið fái fallvatnið, orkuver og orkuveitu í sínar hendur að sjerleyfistímanum liðnum, og skal alt falla endurgjaldslaust undir það. En þó er ákveðið, að virki, sem landið hugsar sjer að nota til veitu, skuli bæta eftir mati, ef samkomulag næst ekki. Landið greiðir m. ö. o. að eins bætur fyrir það, sem það þarf á að halda. Minni hl. milliþinganefndar hafði farið hjer strangari leið og vildi, að alt fjelli endurgjaldslaust til ríkisins. En þetta fanst samvinnunefnd of hart. En svo má líka geta þess, að þetta stendur að nokkru leyti í sambandi við sjerleyfislengdina. Minni hl. vildi hafa hana 65 ár, en samvinnunefnd hefir haldið sjer við 55 ár, og í sambandi við þennan tiltölulega stutta tíma þótti nefndinni hart að láta alla virkjun falla endurgjaldslaust í hendur landsstjórnarinnar.

37. gr. fjallar um, hvernig að skuli fara um umsókn á nýju sjerleyfi, og hvernig landsstjórn skuli snúast við þeim umsóknum.

Jeg hefi hjer ekki farið nándar nærri inn á öll atriði þessa kafla, enda yrði það alt of langt mál. Sum ákvæðin eru sjálfsögð öryggisákvæði og þurfa ekki mikillar skýringar við. Er þá svo langt komið máli mínu, að jeg er kominn að 4. kafla frv.

Sá kafli fjallar um sjerleyfi til handa útlendum mönnum. Hann er mjög stuttur, og er í 38. gr. vísað til þeirra fyrirmæla, sem í 3. kafla getur. Þau sjerstöku skilyrði eru sett hjer, að útlendir menn verði að vera hjer búsettir, eigi þeir að geta öðlast sjerleyfi, og auk þess er landsstjórninni heimilt að setja fleiri skilyrði, sem almenningsheill krefur. Og að sjálfsögðu er Alþingi það þá líka heimilt. Í 2. lið 38. gr. er fram tekið, að sama gildi um hlutafjelög og önnur fjelög og stofnanir, sem ekki heyra undir 3. gr.

Jeg hefi áður getið um, að þessi ákvæði í lok frv., sem sett eru um stundarsakir, er viðauki frá nefndinni og settur til þess, að ekki yrði farið, áður en í nokkuð er ráðist, að skipa sjerstakan mann fyrir vatnastjóra. Ákvæðið um stundarsakir leggur nefnilega til, að fyrst um sinn, þangað til önnur ráðstöfun verði gerð, gegni „vegamálastjóri landsins störfum þeim, sem í lögum þessum eru falin vatnastjóra“. Að sjálfsögðu verður þetta að fást með samkomulagi við vegamálastjóra, og verður hann að fá sjerstaka greiðslu fyrir þessi störf, sem kynnu að verða.

Nefndin sá því ekki heldur neina ástæðu til að gera ráð fyrir, að þetta samkomulag yrði ekki fengið.

Þá skal jeg minnast nokkrum orðum á brtt. þær, sem fram hafa komið við frv. Brtt. á þgskj. 843 eru frá hv. 1. þm. Árn. (S. S.). Sú fyrsta er um, að í stað meðmæla vatnastjóra þurfi að eins álit hans. Meiri hl. nefndarinnar fanst þetta ekki fullnægjandi. Hann vill, að það sje beint ákveðið í lögunum, að sjerleyfi megi ekki veita, nema ráðunautur landsins mæli með því, en þar fyrir er ekki sagt, að landsstjórn skuli veita leyfið, þótt meðmæli vatnastjóra fylgi. Því þó að landsstjórn mundi oftast fara eftir þeim, þá býst jeg við, ef Alþingi t. d. tæki málið í sínar hendur, að þá mundi það vilja hafa einræði. Annars voru víst nálega jafnmörg atkv. með og móti till., og meðal þeirra, sem á móti voru, var hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Sömuleiðis er meiri hl. samvinnunefndar á móti þeirri brtt., að ekki þurfi kosningar að fara fram á milli þess, að Alþingi veiti sjerleyfi til orkuvinslu, sem nemi meiru en 50000 hestorkum. Meiri hl. álítur mjög misráðið, ef þessi breyting verður gerð á frv., og þar á meðal er hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.).

Meiri hl. nefndarinnar er enn fremur á móti lengingu sjerleyfistímans úr 55 í 65 ár. Sama er að segja um 9. brtt. við 27. gr., um það, hvernig fara eigi um hlutabrjefin. Meiri hl. nefndarinnar er eindregið á móti þeirri breytingu.

Ýmsar aðrar brtt. eru á þessu þgskj., sem nefndin hefir ekki tekið sjerstaka afstöðu til. Brtt. á þgskj. 861 álítur nefndin yfirleitt ekki til bóta, enda eru þær fæstar stórvægilegar.

Frá hálfu nefndarinnar hefi jeg svo ekki meira að segja, en vil að eins bæta því við um frv. yfirleitt, að þótt það setji mörg höft á menn, sem virkja vilja hjer á landi, þá eru þau ekki meiri en mörg önnur, sem sett eru á ýms fyrirtæki önnur og framkvæmdir.

Nefndin leitaðist við að vinna sem mest í samráði við þá menn, sem hjer eiga hagsmuna að gæta, og taka tillit til þess, sem þeir lögðu til, eftir því sem hún sá sjer fært, ríkinu og þjóðinni að skaðlausu. Hún tók til greina till. frá fossafjelaginu „Titan“ og hafði til hliðsjónar, þó að hún sæi sjer ekki fært að fara eftir þeim í öllum greinum. Það eru að vísu nokkur ákvæði, sem fjelagið gat þó ekki sætt sig við, en þó aðallega tvö. Það var sem sje, að sjerleyfistímabilið væri of stutt, og að lögð væru höft á sölu hlutabrjefa. En sökum þess, að nefndinni þótti sjerleyfistímabilið nógu langt, og hitt ákvæðið er í samræmi við samskonar ákvæði í norsku fossalöggjöfinni, vildi nefndin ekki hafa það öðruvísi.