18.09.1919
Neðri deild: 67. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (3067)

157. mál, vatnsorkusérleyfi

Frsm. minni hl. (Sveinn Ólafsson):

Jeg tók það fram við 1. umr. þessa máls, að jeg gæti eigi fylgt frv., eins og það kom frá samvinnunefnd. Og jeg get bætt því við, að jeg get ekki fylgt frv., þó að þær brtt. við það verði samþ., sem nú eru fram komnar, því að þær fela ekki í sjer þær umbætur, sem jeg tel vera nauðsynlegar.

Jeg tók það fram við 1. umr., að aðalástæða mín gegn frv. væri sú, að það hefði svo þröng sjerleyfisskilyrðin, að lögin yrðu ekki notuð. Í öðru lagi kvaðst jeg ekki geta fylgt frv. af því, að það skæri ekki úr því, hverjir gætu fengið sjerleyfið, eða með öðrum orðum, að ekki væri skorið úr eignarrjettardeilunni. Því meðan ekki er skorið úr því, til hvers umsækjandi á að snúa sjer, er ekki hægt að segja, hvort hann fengi sjerleyfið. Nú er komið skýrt svar frá háttv. frsm. (G. Sv.) á óákveðnum orðum frv., þar sem hann sagði, að heimild á vatni ætti að tákna eignarrjett eða leigurjett eða einhvern þriðja rjett, sem jeg get ekki skilið hver er. En ef til vill mætti segja um heimild, að hún sje sama sem eignarrjettur eða leigurjettur. En hví má það ekki í lögunum standa? — Mjer finst öruggara, að það standi þar, en að tyrfa efni laganna í myrkum orðbúningi. Einhverjir kynnu nú að spyrja, hví jeg hefði ekki sett þetta í mitt sjerleyfislagafrv. Það var eiginlega vegna þess, að jeg gerði ráð fyrir, að vatnalögin, sem skæru úr þessu, gengju fyrst fram. Jeg tók það einnig fram við 1. umr., að í frv. væru ýms smærri atriði, sem gerðu mjer ófært að fylgja því. Jeg sje enga ástæðu til að telja öll þessi atriði fram að nýju. Jeg skal að eins drepa á nokkur.

Yfirleitt þykir mjer frv. vera of flókið og of tyrfnar og torskildar þær reglur, sem þar eru settar. Margt af þeim ætti heima í reglugerðum og sumt í vatnalögum. Sumt eru tvítekningar, eins og t. d. um sjerleyfisbrjefin, þar sem sama efnið er tvisvar sagt, fyrst í 10. gr. og síðan í 15. gr. Yfir höfuð er frv. svo torvelt til lestrar og eftirbreytni, framsetningin svo flókin og greinaskiftingin svo margbrotin, að erfitt er að átta sig á efninu. Þar að auki vantar greinargerð fyrir frv., en hún fylgdi þó frv. milliþingan., bæði meiri og minni hl. hlutans.

Einna lakasta ákvæðið í frv. er ákvæðið í 5. gr., um skipun vatnastjóra og það vald, sem honum er fengið í hendur. Jeg tel ekki að eins óviðurkvæmilegt að fá ábyrgðarlausum manni alt það vald í hendur, heldur óþarft að stofna slíkt embætti áður en nokkuð er farið að aðhafast. Það hefði vel mátt hlíta því bráðabirgðaákvæði, að vegamálastjóri eða einhver annar verkfróður maður hefði þetta starf á hendi fyrst um sinn.

Jeg hefi tekið það stuttlega fram áður, og auk þess mintist háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) á það, að það vald, sem vatnastjóranum er gefið, að geta komið í veg fyrir sjerhvert leyfi ef hann vill, það er gjörsamlega óbrúklegt.

Hvað snertir sjerleyfisskilyrðin, þá eru þau mikið til hin sömu og eru í mínu frv., á þgskj. 123. Að eins er hámark sjerleyfisgjaldsins lítið hærra en hjá mjer. En svo greinir þau á í öðru atriði, sem sje í því, að alt gjaldið skuli greitt í ríkissjóð, en ekkert til hjeraðssjóða. Það álít jeg að ekki megi vera svo, því þau hjeruð, sem stóriðja er rekin í, geta orðið fyrir allskonar skakkaföllum af hennar völdum. Og ekki er það minst um vert, að hætt er við, að vinnulýðurinn sópist burtu frá bændum í þeim hjeruðum, þar sem stóriðjan er rekin, og til hennar.

Þá er tímatakmörkunin í 12. gr., í sambandi við síðari ákvæði, sem fer mjög í aðra átt en jeg hafði hugsað mjer, og jeg verð því að telja óheppilega. Að miða tímann við 55 ára tímabil hygg jeg að sje of þröngt, með það fyrir augum að styðja stóriðnað. Ef aftur á móti á að útiloka stóriðju, þá gæti jeg felt mig við að færa tímatakmarkið niður í t. d. 50 ár eða 40.

Það skiftir einna mestu í þessu sambandi, hvort gert er ráð fyrir endurhvarfi vatns og mannvirkja til ríkisins að loknum sjerleyfistíma. Hv. undirnefnd virðist ekki hafa gert sjer þetta atriði ljóst og því brenglað saman innlausnarrjetti ríkisins og endurhvarfsrjetti, og eru ákvæðin um þessa samblöndun bæði óskýr og mjög viðsjál. Endurhvarfsrjettinn má skoða eins og árgjald, sem lagt er á fyrirtækið, en eigi greitt fyr en við lok sjerleyfistímans, og verður árgjaldið vitanlega því lægra, sem tíminn er lengri. Eftir reikningi sjerfróðra manna um þetta samsvarar endurhvarf eftir 55 ár tæpum 5%, en eftir 65 ár liðugum 4% í árgjald allan tímann.

Nú er gert ráð fyrir því í 36. gr., að nokkur hluti falli til ríkis að loknum leyfistíma, en það er að eins vatnið, lóðirnar og rjetturinn til að nota vatnið. Aftur á ríkið að gjalda fyrir mannvirkin eftir mati, og eru þetta miklu betri kjör fyrir sjerleyfishafa en jeg hefi lagt til eða þekki annarsstaðar, en að sama skapi vond fyrir ríkið, nema ef svo á að skilja þau óljósu ákvæði greinarinnar, um að ríkið kaupi það, sem það hefir þörf fyrir eða ákvarðar að nota, að það geti smeygt sjer undan kaupum og látið sjerleyfishafa rífa virkin burtu eða selja þau fyrir smáræði, af því að það hafi þeirra ekki þörf. En slíkt væri ríkinu eigi vansalaust, að gefa sjerleyfishafa vonir, sem gætu að engu orðið fyrir tilstilli þess. Mjer virðast því þessi ákvæði 36. gr., einkum í sambandi við 17. gr., mjög varhugaverð og vandasöm fyrir ríkið og jafnvel blekkileg. Ákvæðin um þetta efni verða að vera skýr og ótvíræð, því að þar um veltur á miklu. Ákvæðið, eins og jeg hefi lagt til að hafa það, eftir 17. lið 4. gr. í frv. á þgskj.123, er hreint og fortakslaust og veldur eigi vafa. Gangi sjerleyfishafi að því, þá er síðari ágreiningi um afhendingu bægt frá.

36. gr. tekur fram, að þau virki, sem landsstjórnin telur nýtileg og ætlar að nota, skuli bætt sjerleyfishafa við sjerleyfisslit.

Í orðskýringum við frv. stendur, að virki þýði: Öll þau mannvirki og tæki, sem gerð eru, notuð eða höfð til taks, og tekur yfir orkuver, orkuvötn og iðjuver.

Þótt þessi orðskýring sje harðla tyrfin, þá virðist af henni mega ráða, í sambandi við 36. gr., að alt þetta eigi ríkið að kaupa af sjerleyfishafa við sjerleyfisslit, eða — ef til að mynda slunginn vatnastjóri, einvaldur og ábyrgðarlaus leggur til — að reyna að „prakka“ sig frá kaupunum með því að segja, að ríkið hafi eigi virkjanna þörf.

Þá kem jeg að sjerleyfisdómnum. — Mjer þykir fullmikil viðhöfnin á þessari stofnun, og þekki jeg hjer ekkert sambærilegra en landsdóm. Virðist þó ekki meira um vert vangæslu sjerleyfisskilyrða en svo, að dómstólar landsins ættu að nægja, og er þetta sjerleyfisdómsbákn alveg óþarft tildur, eins þótt tekið sje eftir meiri hl. milliþinganefndar, eins og frsm. (G. Sv.) sagði.

Jeg skal þessu næst leyfa mjer að víkja að þeim brtt., sem fram eru komnar við frv., einkanlega þó brtt. háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). Hann ljet þess getið í ræðulok, að hann áliti, að engin lög ættu að koma fram um þetta efni á þessu þingi, og það þótti mjer, sannast að segja, æði hörð orð úr þeim garði, því hann hefir lagt allmikla áherslu á, að sjerleyfislög væru sett sem nothæf mættu teljast. — Um brtt. 843 skal jeg taka það fram, að jeg greiði þeim atkv. mitt öllum saman. Ekki þó af þeirri ástæðu, að jeg með þeim breytingum telji frv. frambærilegt, eða það fullnægi mjer; heldur er það af því, að þessar breytingar miða þó heldur til lagfæringar frá því sem er. Og ef svo slysalega skyldi takast til, að frv. yrði samþ., þá er það skárra en ekki, að breytingarinnar komist að.

|Jeg skal taka það fram um síðustu brtt hv. 1. þm. Árn. (S. S.) á 843, við 39. gr., að jeg tel hana alveg sjálfsagða. Mjer kom það æði undarlega fyrir sjónir, að meiri hl. undirnefndar samvinnunefndar skyldi leggja til að fella úr gildi öll lögin nr. 55, 22. nóv. 1907, þar sem þó ekki eru tekin upp í þetta frv. nema fá af ákvæðum þeirra laga.

Um aðrar brtt., sem komnar eru fram frá hv. 2. þm. S.-M. (B. St.), hefi jeg ekkert að segja. Þó vil jeg geta þess, að 3. liður við 8. gr. byggist að mínu viti á mjög eðlilegri hugsun. Jeg get vel sett mig inn í, hvernig það er til orðið, og tel það engan veginn óaðgengilegt skilyrði. Hins vegar tel jeg breytinguna ekki nauðsynlega, því að þessu verður hvort sem er náð með frv., eins og það er. Því það er þegar gert ráð fyrir, að tvö þing skuli samþykkja, þegar búið er að veita leyfi sem nokkru nemur. Þá fer að verka þessi heimild tveggja þinga, með kosningum á milli.

Jeg vil svo ekki tefja tímann lengur, með því að taka upp alt það, sem jeg hefi að athuga við frv. Jeg vona, að hv. þm. sjái við rólegan lestur á því, að „ekki er alt gull, sem glóir“ í greinunum mörgu og margliðuðu.