18.09.1919
Neðri deild: 67. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í C-deild Alþingistíðinda. (3068)

157. mál, vatnsorkusérleyfi

Björn R Stefánsson:

Þó að frv. þetta sje borið fram af samvinnunefnd Nd., þá má segja, að það sje samið eingöngu af undirnefnd samvinnunefndarinnar. Við fengum að vísu handritið tveim dögum áður en frv. var borið fram. En þá stóð þannig á fyrir mjer, að jeg hafði ekki tíma til, vegna annara anna, að kynna mjer málið, eins og jeg hefði óskað. Enda get jeg látið það í ljós, að jeg er enn ekki viðbúinn að taka afstöðu til málsins yfirleitt. Þó skal jeg taka fram um 2. lið þingsályktunartill. á þgskj. 795, að jeg þurfti ekki að lesa hana nema einu sinni til þess að sjá, að jeg gat ekki fylgt honum. Líka vil jeg taka fram, að jeg er óráðinn um 3. lið þeirrar till., þótt jeg væri því fylgjandi, að bæði till. og frv. væri strax lagt fyrir hv. deild, til þess að aðrir þm. en nefndarmenn gætu farið að taka það alt til yfirvegunar. Tíminn var orðinn svo naumur, að ekki mundi af honum veita, með svo flókið mál. Jeg tel rjett að geta þess, að jeg er þeirrar skoðunar, að jeg álít ekki rjett að setja svo ströng sjerleyfisskilyrði, að engum detti í hug að nota lögin. — Mjer er nú þannig farið, að jeg er ekki eins hræddur og margir aðrir við það, að tunga og þjóðerni muni glatast, og að sjálfstæði þjóðarinnar sje hætta búin, þó að nokkur hundruð útlendingar flytji inn í landið. Annars skal jeg ekki fara langt út í þá sálma, nema tilefni gefist til þess.

Brtt. mínar eru á þgskj. 861. Í þeim felast leiðrjettingar á þeim verulegustu agnúum, sem jeg rak mig á í frv., eftir fljótlega yfirferð. Að vísu mun fleira vera athugavert við frv., en mjer gafst sem sagt ekki tími til að bera það saman lið fyrir lið alstaðar.

Fyrsta brtt. er ekki annað en orðabreyting. Mjer sýnist, að í 6. lið 4. gr. frv. sje í rauninni svo margt heimtað, að það sje ástæðulaust að krefjast þess, að skýrslan sje endilega svo stutt. Að öðru leyti er þetta svo lítilvægt atriði, að það getur hvorugum verið kappsmál.

Þá er brtt. við 8. gr. Það er vitanlega talsverð efnisbreyting. En jeg skoða hana frekar til bóta en hitt. Jeg skil ákvæði 8. gr. á þann veg, að þingið geti veitt 10 sjerleyfi, eða svo mörg sem vera vill, fyrir að virkja alt að 50000 hestorkur, bara að hvert eitt sjerleyfi út af fyrir sig sje ekki stærra en þetta. En þá finst mjer ekki vera gætt þeirrar varúðar, sem felast á í síðari hluta greinarinnar, með því að bera undir þjóðina, hvort leyfi skuli veitt, sem fer fram úr 50000 hestorkum. Þegar búið er að veita sjerleyfi til orkuvinslu, sem samtals nema 120 þús. hestorkum, þá fyrst finst mjer ástæða til að setja viðeigandi hemil á. Jeg álít, að þá sje rjett að bíða nokkur ár, áður en lengra er farið. Í minni till. tel jeg felast miklu meiri gætni en í frv., sem leyfir ótakmarkaðar sjerleyfisveitingar, bara að ekki fari fram úr 50000 hestorkum.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) talaði hlýlega um brtt. mínar, en sagði þó, að hann teldi þeirra ekki við þurfa. En svo framarlega, sem sá skilningur minn er rjettur, að sama þingið geti veitt mörg sjerleyfi, sem að eins fara ekki fram úr 50 þús. hestorkum hvert, þá lít jeg svo á, að till. mín sje til bóta og feli í sjer mikla og sjálfsagða varúð umfram frv. sjálft.

Þá er 4. brtt., á þgskj. 861, við 12. lið 10. gr. Þar eru feld aftan af ákvæði þess liðs, að sjerleyfishafi skuli borga allan kostnað af eftirliti umboðsmanns stjórnarinnar. Jeg býst við, að þegar vatnastjóri verður skipaður, þá hafi hann þetta eftirlit með höndum. Hann verður skipaður af stjórninni, og jeg geri ráð fyrir, að meginkostnaðurinn af þessu eftirliti verði falinn í vinnu hans, sem þá borgast með launum hans. Nema ef um einhverja sjerstaka rannsókn er að ræða, sem hann þarf að framkvæma með meiri mannafla, en jeg tel samt eðlilegra, að ríkið borgi þetta, sem unnið verður í þess þágu að þessu eftirliti. Ef menn ekki vilja láta ríkið hafa þennan eða neinn annan kostnað af iðjunni, þá er ekkert annað en hafa sjerleyfisgjaldið þeim mun hærra fyrir það, að þessari kvöð er ljett af sjerleyfishafa.

Þá er 5. brtt. við 13. gr. Það er líka efnisbreyting. Þar fer jeg fram á, að svo verði ákveðið, að í staðinn fyrir sjerleyfisgjald það, sem um ræðir í 1.–6. lið, þá megi áskilja, að sjerleyfishafi skuli byggja járnbrautir á sinn kostnað, sem, eftir því sem síðar verður ákveðið, í sjerleyfinu, skuli falla til ríkisins til eignar og umráða. Jeg skal játa, að ekki er nægilega skýrt tekið fram um afhendingu þessara járnbrauta, svo og það, að þær sjeu nægilega tryggilega bygðar. Það álít jeg að verði að ákveðast nánar síðar með sjerstökum samningum, þegar þar að kemur. Það ætti að vera hægðarleikur að ganga svo frá því í sjerstakri reglugerð, að í lagi væri. — Ef jeg man rjett, þá mun vera alt að fjórðungur aldar síðan fyrst var farið að tala um járnbrautarlagningu hjer á Suðurlandi. Og held jeg, að aldrei hafi verið á móti því mælt, að slík braut mundi leiða af sjer ómetanlegan hagnað fyrir landið og þjóðina. En hitt hefir aftur staðið fyrir, að þetta væri svo dýrt, að landi með jafnlitlar tekjur væri ofvaxið að ráðast í það. Síðan þessi vatnsorkuvinsla og stóriðjuhugmynd kom á dagskrá hefi jeg fyrir mitt leyti altaf sett hana í samband við járnbrautir. Með þessu sýnist mjer, að landið ætti að geta fengið meðöl til að fá þessi bráðnauðsynlegu samgöngutæki, án þess að reisa sjer hurðarás um öxl. Það er ekki áskilið, að sjerleyfisgjaldið skuli alt vera þarna í fólgið, en jeg verð að telja mikilsvert, að inn í frv. kæmist, að um það megi semja. Það er alls ekki sagt, að alt sjerleyfisgjaldið eigi að greiðast með járnbrautarlagningu. Það verður að fara eftir því, hve stór sjerleyfi verða veitt og til hvað langs tíma. Kemur það til álita, þegar meta á byggingar þeirra á móti sjerleyfisgjaldinu, er áskilið verður. Hvort sjerleyfisgjaldið er metið hæfilega að hámarki og lágmarki, er jeg ekki fær að dæma um. En það er svo sett, að við nánari rannsókn mun það sýna sig, að takmörkin sjeu hæfileg einhversstaðar þar á milli. En því lengri sem tíminn er, því hærra verður gjaldið. Út frá því er gengið sem sjálfsögðu. Jeg vil heldur ekki skera úr því, hvort ástæða er til að samþ. brtt. hv. 1. þm. Árn. (S. S.) um að lengja tímann. En þó hefi jeg hugsað mjer að greiða þeirri brtt. atkv. til. 3. umr., en með þeim fyrirvara, að við 3. umr. verði tekið upp það ákvæði úr frv. minni hl., að virkin öll skuli falla til landsins endurgjaldslaust að þeim tíma liðnum. Mjer finst liggja í hlutarins eðli, að mest sje við það unnið fyrir sjerleyfishafa að hafa tímann sem lengstan, og verði því að miða kvaðirnar á hendur leyfishafa við það. Munar þá mikið um hver 5 eða 10 ár, sem við er bætt.

6. brtt., við 21. gr., er aftur í samræmi við það, sem jeg mælti áður, um eftirlit landsstjórnarinnar, að jeg vil fella burtu, að það sje borgað af sjerleyfshafa.

Þá er 7. brtt., við 23. gr. Geri jeg þá brtt. ekki að neinu kappsmáli, en virðist þó fara fult eins vel á því, að setja saman 23. og 24. gr. Eru þær í brtt. settar saman og töluvert styttar, feldur burtu upptíningur og endurtekningar, sem virðist óþarfi. Þessum endurtekningum hefi jeg tekið eftir víðar, eins og t. d. í 1. lið 31. gr. og 27. gr., sem mjer finst hvorttveggja hljóða um það sama. Heyrði jeg, að hv. samþm. minn (Sv. Ó.) hefir einnig veitt þessu eftirtekt.

Þá á jeg ekki eftir nema 9. brtt., ákvæðið um stundarsakir. Mjer virðist satt að segja ýmislegt heldur benda til þess, að annaðhvort muni þetta frv. ekki ná fram að ganga, eða skilyrðin verði sett svo ströng, að lítil von sje til, að orkuvinsla verði hafin hjer á landi fyrst um sinn. Þess vegna vil jeg breyta ákvæðinu fyrst um sinn til tryggingar því, að ekki verði farið að skipa þennan hálaunaða embættismann, ef ekkert yrði við hann að gera. Enda veit jeg ekki, hvort nokkur völ er á færum manni hjer, öðrum en vegamálastjóranum. Þess vegna vil jeg ekki, að embættið sje stofnað fyr en eitthvað er við hann að gera.

Áður en jeg sest niður skal jeg leyfa mjer að gera fyrirspurn til hv. frsm. (G. Sv.) út af vatnastjóranum. Jeg skil ekki til fulls, hvað honum er ætlað, og hve nær til hans kasta kemur. En mjer skilst þó, að aðallega komi til hans kasta, er um sjerleyfi er að ræða til að virkja 1000 til 10000 hestorkur, sem landsstjórn getur veitt án þess að Alþingi sje til kvatt. En sje sá skilningur rjettur, að hans völd nái aðallega til þessara smærri virkjana, þá er því síður ástæða til að álíta, að vegamálastjóri, eða annar álíka verkfróður maður, geti ekki haft þetta verk á hendi, og þá um leið því brýnni ástæða til að setja skorður við því, að farið verði að stofna þetta hálaunaða embætti fyr en einhver þörf er á því.