19.09.1919
Neðri deild: 68. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (3074)

157. mál, vatnsorkusérleyfi

Björn R. Stefánsson:

Háttv. þm. Dala. (B. J.) hafði það rjett eftir mjer í gær, að jeg væri því mótfallinn, að svo ströng skilyrði yrðu sett, að engir útlendingar gætu gengið að þeim, vildu ekki þiggja þessar krásir, sem hv. þm. (B. J.) nefndi svo. En jeg veit nú satt að segja ekki, við hvað hann miðar, er hann kallar þetta krásir, ef það er alvara hans að setja skilyrðin svo þröng, að ekkert verði að gert, og öll fallvötn landsins verði framvegis ónotuð.

Þá sje jeg ekki betur en þau verði verðlaus, og þá ekki um neinar krásir að ræða í sambandi við þau.

En það veður þó uppi innan um hjá hv. þm. (B. J.), að hann vill, að landið taki vötnin í sína þjónustu. En ekki get jeg skilið, eftir þeim ummælum, sem hann hefir haft um landsstjórnina, að hann skuli bera traust til hennar til að standa fyrir virkjunum þessum.

Hvernig getur hann treyst henni til þess, þar sem hann treystir henni ekki til að gera einfalda samninga við þá, sem um sjerleyfi sækja? Það hefir líka oft komið fram hjá honum, að hann vantreystir stjórninni til ýmissa hluta annara, sem minna er í varið en þetta. Og þegar litið er til allra slíkra ummæla hans, þá er það óskiljanlegt, að hann skuli treysta henni til að standa fyrir stóriðjunni.

Jeg fyrir mitt leyti treysti henni ekki til þess, þótt jeg beri fult traust til hennar til að gera samninga um sjerleyfisveitingu.

Þá sagði hv. þm. (B. J.), að jeg hefði haldið því fram, að ekki mundi þurfa fleira en nokkur hundruð manna til þeirrar virkjunar, sem jeg gerði ráð fyrir.

Jeg verð að játa það, að jeg er ekki eins hræddur um íslenskt þjóðerni og tungu eins og ýmsir aðrir hv. þm., þótt hingað flyttust inn nokkur hundruð útlendingar, eða nokkuð töluvert af erlendu fje, enda sje jeg ekki, að við getum hjá því komist að hætta á það, því að ella er fyrirsjáanlegt, að við hljótum að dragast langt aftur úr í samkepninni við aðrar menningar- og framfaraþjóðir. Fjárhag okkar og framfaraþörf er svo komið, að við verðum annaðhvort að duga eða drepast.

Jeg man ekki eftir, að nokkur neiti því, að hjer muni ekkert verulegt gert, nema með erlendu fje. Til láns fæst ekkert stórfje, án þess að lánardrottinn vilji hafa einhvern íhlutunarrjett um meðferð þess, en í því tel jeg engu minni hættu fólgna en þótt við leyfðum útlendingum — innan ákveðinna takmarka þó — að reka hjer einhver fyrirtæki á eigin ábyrgð.

Það, sem fastast er haldið fram gegn því að leyfa útlendingum stóriðju hjer með vatnsorku, er, að þeir muni eyðileggja þjóðerni okkar og tungu. Þetta finst mjer illa samrýmast því, sem hjer er svo oft staðhæft og jafnvel raupað af, hvað íslenska þjóðernið sje sterkt. Jeg tel þá staðhæfingu á rökum bygða, og fyndist því á það hættandi — ef um stórhagnað væri að ræða í aðra hönd — að leyfa jafnvel alt að því eins mörgum þúsundum að flytjast hjer inn eins og hjer eru margir tugir þúsunda fyrir.

Jeg þykist ekki segja þetta út í loftið, því styrkleiki ísl. þjóðernis er reyndur — þrautreyndur.

Áðan var á það bent, að hjer hefðu fyrir nokkrum árum verið allmargir Norðmenn, sem unnu að símalagningu, og hefði enginn skaði hlotist af, heldur hefðu þeir sparað vinnukraft svo, að ekki þurfti að taka hann frá öðrum atvinnuvegum til símalagningarinnar. — Þetta er auðvitað satt, en hjer var um smáræði að gera, móti því, sem hjer um ræðir. Verður því að benda á eitthvað annað, sem meira sannar.

Hjer voru hvalveiðar stundaðar um allmörg ár, bæði á Vestur- og Austurlandi. Hvalveiðastöðvarnar voru í strjálbygðum sveitum og mynduðu í þeim smáþorp, þar sem örfáir Íslendingar voru að skrölta innan um tóma Norðmenn. Jeg veit ekki, hvaða afleiðingar þetta hefir haft á Vesturlandi, en það er mjer kunnugt um fyrir austan, að þeir fáu Íslendingar, sem þar umgengust mest Norðmenn, tala engu verri íslensku en aðrir, jafnvel þó að þeir lærðu norsku að meira eða minna leyti.

Þetta hvorttveggja tel jeg samt veikar sannanir fyrir styrkleik þjóðernis okkar og tungu, móti einni, sem jeg enn skal nefna.

Til Ameríku hafa flust á æði mörgum árum Íslendingar, sem þó urðu samtals litlu fleiri hundruð en þar voru miljónir fyrir. Þeir fluttu vestur smátt og smátt og dreifðust þar innan um fjöldann. Til þess að geta bjargað sjer þar þurftu þeir strax að leggja kapp á að læra mál Ameríkumanna og að semja sig sem best að þeirra háttum. Jafnframt hafa þeir blandað blóði við þarlenda menn, en samt er hvorki tunga þeirra nje þjóðerni upprætt enn. Því verður ekki neitað, að hvorttveggja er spilt, en því verður ekki heldur neitað, að mikið sje eftir. Aðstaða þeirra er þó svo ólíku erfiðari en þótt við fengjum inn í landið 1 á móti hverjum 10, sem fyrir eru.

Mjer finst einmitt, að saga þessa fámenna flokks í Ameríku gefi góða bendingu um það, að þjóðerni okkar og tunga sje sterkari en ráða mætti af vantrausti því, sem lýsir sjer í orðum hv. þm. Dala. (B. J.).

Eitt af því, sem hv. þm. Dala. (B. J.) benti á, var það, að einn Norðurlandabúi — jeg man ekki hvort það var Norðmaður eða Svíi — hefði sagt sjer, að hann teldi víst, að ef Íslendingar leyfðu hjá sjer stóriðju, þá mundi tunga þeirra og þjóðerni glatað að 20 árum liðnum. Þetta held jeg sagt út í loftið. Sá góði maður — þótt vitur væri og velviljaður — hefir ekki þekt okkur, og því ekki haft eins mikla trú á okkur eins og við getum sjálfir haft af fenginni reynslu. Það hefði mátt minna hann á það, að við höfum betur haldið við þjóðerni okkar og tungu en aðrar Norðurlandaþjóðir, þótt stærri sjeu. Það hefir að vísu verið þakkað því, að við höfum verið svo einangraðir frá öðrum þjóðum. Óneitanlega er mikið til í því, en á þeim árum hafði alþýða heldur enga skóla, blöð nje bækur til viðhalds tungunni og eftirliti með henni og öðrum þjóðerniseinkennum. Á þeim öldum reyndu jafnvel Íslendingar að apa erlenda hætti og útlend mál. Af þessu skifti sjer enginn, en þó fór ekki alt í hundana, og vel má á það líta, hve fljótt gekk að laga það, sem afvega var farið, þegar upp risu fræðimenn og rithöfundar, sem tóku sjer það fyrir hendur að hreinsa aftur málið, og það á þeim tímum, eða jafnframt því, sem viðskifti og viðkynning við útlendinga fór að aukast.

Nú er ólíku saman að jafna. Einangrunin er orðin minni en áður, en nú er líka fult af íslenskum blöðum og bókum á hverju einasta heimili og skólar víðs vegar um land. Fjöldi af skáldum og rithöfundum, sem jeg tel víst að telja mundu sjer ljúfa skyldu að hafa vakandi auga á þessu, enda veit jeg ekki, fyrir hvað ætti að greiða þeim árlega stórfje úr ríkissjóði, ef þeir teldu ekki þetta hlutverk sitt.

Annað verð jeg líka að minnast á, sem fram hefir komið, og jeg tel að lýsi ómaklegu vantrausti á þjóðinni. Þessum mönnum, sem búist er við, að flytjist inn í landið, er altaf lýst sem argasta ruslaralýð og ræfilmennum, en þó er talið sjálfsagt, að við mundum vera orðnir þeirra þrælar eftir nokkur ár. Þessa spásögn tel jeg ómaklega lítilsvirðing og móðgun við Íslendinga, eftir þær eldraunir, sem þeir eru búnir gegnum að ganga, bæði hjer heima og erlendis.

Þá talaði hv. þm. (B. J.) um þá brtt. mína, þar sem jeg vil leyfa að áskilja, að sjerleyfishafi, að einhverju eða öllu leyti, leggi járnbraut, sem jafnóðum verður ríkiseign, í stað þess að borga sjerleyfisgjald það, sem um er rætt í 1.–6. lið greinarinnar. Hv. þm. (B. J.) telur það svo óbilgjarnan og háan skatt, að enginn mundi að því ganga. Sá skattur þarf þó hvorki að verða hærri nje óaðgengilegri fyrir sjerleyfishafa en gjald það, sem ráðgert er í frv. sjálfu.

Eftir frv., eins og það liggur fyrir, getur Alþingi hve nær sem er veitt svo mörg sjerleyfi sem vera skal, bara að ekkert sje meira en upp á 50 þús. hestorkur. Segjum, að það veitti 10 slík sjerleyfi. Það yrðu samtals 500 þús. hestorkur. Jeg ætla nú samt ekki að reikna eftir því, heldur eftir því hámarki, sem jeg vil að sett sje, sem samkvæmt brtt. mínum eru 120 þús. hestorkur. Svo skulum við taka tæpt meðaltal af þeim hámarks- og lágmarksuppástungum um sjerleyfisgjaldið, sem í frv. er nefnt. Það eru 5 kr. af hverri virkjaðri hestorku. Á 55 árum næmi þetta 33 miljónum kr.

Þegar ráðgerð var járnbrautarlagning hjer austur í Rangárvallasýslu, þá minnir mig vera áætlað, að hún mundi kosta tæpar 4 miljónir. Þessi áætlun var gerð fyrir dýrtíðina og stríðið. Við skulum því gera ráð fyrir, að hún mundi nú kosta 11 miljónir. Þá sjáum við, að fyrir sjerleyfisgjaldið mætti 3 sinnum leggja járnbraut austur um sýslur. Þess vegna gerði jeg líka ráð fyrir, í fyrri ræðu minni, að eins líklegt væri, að sjerleyfisgjaldið þyrfti ekki, nema að einhverju leyti, að greiðast með áskilinni kvöð um járnbrautarlagningu.

Það er því alls ekki óhugsandi, að að þessu yrði gengið. Jeg býst auk heldur við, að sjerleyfishafa þyki aðgengilegra að inna gjald sitt af hendi á þennan hátt, einkum þar sem honum er áskilinn rjettur, samkvæmt brtt. minni, til að fá flutning með þessari járnbraut ríkisins með samskonar kjörum, sem hann verður skyldaður til að láta orku í tje til landsmanna og ríkisins. Jeg geri nefnilega ráð fyrir því, að hann mundi þurfa að leggja járnbraut fyrir sjálfan sig til iðjuvera sinna. Sú járnbraut mundi að vísu ekki þurfa að vera eins vönduð og dýr eins og sú, sem hann yrði að leggja fyrir ríkið, en dýr yrði hún samt, og jeg get búist við, að hann gæti alveg sparað sjer hana, ef þetta gengi fram, eins og jeg hefi stungið upp á. Jeg tel því alls ekki, að þessi brtt. mín geri frv. að neinu leyti óaðgengilegt fyrir sjerleyfishafa.

En brtt. þessari vil jeg alls ekki sleppa, heldur gera hana að kappsmáli. Jeg hefi altaf sett járnbrautarlagningar hjer í samband við fossaiðnaðinn, síðan hann komst til tals, en aldrei haft trú á því, að við hefðum ráð á því að leggja járnbrautir, nema við hefðum það upp úr fossunum, sem til þess þarf, eins og jeg nánar talaði um í fyrri ræðu minni, og vil ekki fara að endurtaka.

Jeg ætlaði mjer í fyrstu að láta bíða að taka aftur til máls, þangað til hv. frsm. (G. Sv.) hefði talað. En reyndar gerir það ekki til, því að það var að eins fyrirspurn, sem jeg gerði til hans, og get jeg eins tekið við svarinu, þó jeg sje dauður.