19.09.1919
Neðri deild: 68. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í C-deild Alþingistíðinda. (3082)

157. mál, vatnsorkusérleyfi

Frsm. meiri hl. (Gísli Sveinsson):

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) talaði um 27. gr. og sinn skilning á henni, og eftir þeim orðum, er hann fór um 34. gr., þá vil jeg taka það fram, að mjer finst skýring hans eðlileg. Hafði jeg tekið líkt fram, en jeg býst við, að þeim sje ekki með þessu meinað að halda áfram að hafa útlent fje með höndum. Annað atriði var á sömu lund og áður, um vatnastjórann. Mjer er ekki ljóst, hvernig hann fer að komast að þeirri niðurstöðu, að þetta sje óforsvaranlegt. — Hann ætti að vita, að bæði í löggjöfinni og öðru er stjórnin bundin við till. þeirra forstjóra fyrir einhverri stofnun, sem tillögurjett hefir, Og það hefir komið fyrir iðulega, að fjárveiting til fyrirtækis hefir verið bundin því skilyrði, að sjerfræðingur mælti með henni. Það nær því ekki nokkurri átt hjá hæstv. forsætisráðherra (J. M.) að telja þetta ákvæði óforsvaranlegt, því það er vel forsvaranlegt, enda er þetta gert að vel yfirlögðu ráði, að hafa þennan ráðunaut með þessu valdi.

Annað atriði var það, sem hæstv. forsætisráðherra (J. M.) talaði um, og var það, að alls ekki væri forsvaranlegt að hafa kosningar á milli þess, að sjerleyfi væri veitt. Það er rjett, sem sagt hefir verið, að þetta ákvæði er tekið frá minni hl. milliþinganefndarinnar (Sv. Ó.). Og minni hlutinn hefir þá líka svarað til þessa, og segist hann hafa látið grannskoða það af þremur lögfræðingum. Annars er það líka sýnilegt, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) veður reyk, þar sem hann segir, að þetta sje ógerlegt, af því að ekkert standi um þetta í stjórnarskránni. Það er eigi alls kostar svo, þetta atriði, að það þurfi að bera fyrir konung, því það segir um þetta, að um það skuli fara eins og lagafrv. Nú sagði hæstv. forsætisráðherra (J. M.), að það mundi varða ráðherraábyrgð, ef ekki væri farið með þetta til konungs, en þetta er rangt, því að ekki er hægt að koma með ábyrgð á hendur stjórninni fyrir það, sem lög beinlínis fyrirskipa.

Mjer er óskiljanlegt, hvers vegna hæstv. forsætisráðherra (J. M.) er að ræða um þetta eins og eitt af höfuðatriðum, og bera það fram um leið, að það sje ekki vel athugað. Jeg held, að allir sanngjarnir menn verði að viðurkenna, að þetta atriði, sem önnur atriði, sem nefndin hefir athugað, eru rækilega krufin til mergjar. Og þetta verða menn að játa, hvort sem þeir telja niðurstöðuna heppilega eða ekki. En jeg verð hissa á þessum ummælum hæstv. forsætisráðherra (J. M.), þar sem það er alkunna, að hann hefir oft gefið yfirlýsingar lögfræðilegs efnis, sem, vægast sagt, hafa verið mjög tvísýnar. Jeg held, að óhætt sje að segja, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sje betri lögfræðingur utan þings en innan, því þar blandast ýmislegt við skýringar hans, tillit til flokka o. fl. Hjer á þingi er því hæstv. forsætisráðherra (J. M.) að minsta kosti vefengjanlegur lögfræðingur, en sjaldnast er hann svo ákveðinn, að hægt sje að herma upp á hann ákveðna skoðun.

Hæstv. forsætisráðherra harmaði það, að nefndin hefði ekki lagt fram frv. um rannsókn Sogsfossanna. Nefndin kom með till. í þá átt, en hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hafði þá önnur tillit að taka, og honum láðist að biðja hv. deild að samþ. rannsóknarleyfið sjerstaklega, eða lýsa því yfir, að hann saknaði lagafrv. í þá átt. Nú er of seint að bera slíkt fram, en það er skiljanlegt, að nefndin beri ekki fram tvær till. um sama efni.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) endurtók ræðu hæstv. forsætisráðherra (J. M.) og kafla og kafla úr fyrri ræðum sínum. Það væri því að bera í bakkafullan lækinn að svara honum orði til orðs.

Hv. þm. (Sv. Ó.) talaði um, að samræmi vantaði, þar sem rætt væri um afhending samkvæmt 36. gr., eða endurhvarfið, sem hann kallaði, þar sem eigi væri ákveðið, hverra eign vatnfallið væri. — Háttv. þingm. (Sv. Ó.) hefir áður lýst yfir skilningsleysi sínu, en eitthvað virðist hann vera að þokast í áttina nú, eða svo fanst mjer á ræðu hans. Frv. ræðir ekki um eignarrjettinn, heldur að eins um það, hverjum megi veita sjerleyfi. Það segir í raun og veru það sama og frv. hv. þm. (Sv. Ó.), svo hann er að berjast við sjálfan sig. Grein sú í frv. háttv. þm. (Sv. Ó.), sem hann vitnar í, er um, að eigendum fallvatna og umráðamönnum sje heimilt að virkja alt að 500 hestorkum. Frv. segir það sama, nema það tekur ekki til eigendur, en ef svo er litð á, að einstaklingar eigi vatnsorkuna, þá eru þeir umráðamenn, nema að þeir afsali umráðarjetti sínum. Frv. talar um þá, sem heimild hafa á vatni, og býst jeg ekki við, að jeg þurfi að skýra orðið heimild, enda hefi jeg gert það áður. En háttv. þm. (Sv. Ó.) skilur ekki, að heimild fáist með öðru en eignarrjetti, og get jeg ekki að því gert, þótt hv. þm. (Sv. Ó.) sje skilningssljór, eða vilji vera það á þessu sviði. Háttv. þm. talaði um, að hjer væri ekki um endurfall, heldur innlausnarrjett að ræða. Þetta er beinlínis rangt, eins og svo margt annað hjá þessum hv. þm. (Sv. Ó.). Það stendur berum orðum, að virkin falli til ríkisins ókeypis, en ákveðið er að bæta þau, svo framarlega sem þau eru nýtileg. Það er einkennilegt, hvað háttv. þm. (Sv. Ó.) virðist illa kunna ýms ákvæði frv., því að þau eru sumpart frá meiri hl. fossanefndar og sumpart frá honum sjálfum, eða þá atriði, sem hann hlýtur að hafa kynt sjer.

Háttv. þm. (Sv. Ó.), sem virðist einkennilega fimur í þeirri list að fara í gegnum sjálfan sig, talaði nú um, að frv. væri ekki nógu nákvæmt, þó að hann hafi áður fundið því nákvæmni til foráttu. Hann vill láta ákveða verkakaup, heilbrigðisreglur, bókakost o. fl. Slíkt nær ekki nokkurri átt; það væri heimskan einber að fastsetja það með lögum nú, en frv. veitir heimild, og er það nægilegt. Þarna óð háttv. þm. (Sv. Ó.) reyk.

Þá vildi hv. þm. (Sv. Ó.), að undirnefndin hefði tekið sig, eða hv. þm. Dala. (B. J.), til ráðuneytis. Jeg get sagt það fyrir nefndarinnar hönd, að hún var fegin að losna við báða. Yfirleitt þótti mjer galli á skipun nefndarinnar, að þessir tveir menn, sem aldrei geta setið á sáttshöfði og splundra öllu, sem þeir koma nálægt, eru á móti til þess að vera á móti, skyldu vera kosnir í nefndina. Höfuðverk hennar var þess vegna að koma þeim út úr starfinu, og það tókst. Starf nefndarinnar var að athuga, hvað afgreiða þyrfti nú, og varð þá fyrir það þrætumál, hvort dómstólar eða löggjafarvaldið skyldu skera úr eignaspursmálinu. Meiri hl. leit svo á, að það ætti að vera verk dómstólanna, og svo mun alment litið á af þjóðinni.

Hitt, sem gera þurfti nú, var að bera fram frv. til sjerleyfislaga. Nefndin bjóst ekki endilega við, að málið næði fram að ganga á þessu þingi, en gerði ráð fyrir, að útgert yrði um það, ef ekki á þessu þingi, þá á næsta þingi. Jeg hefi tekið það fram áður, að jeg tel það tjón, að stjórnin gat ekki kynt sjer málið fyrir þing og vinsað úr því, og komið fram frv. samkvæmt því. Jeg er að þessu leyti dagskránni sammála, og jeg hefi bent á rök til þess, að eigi var hægt að leggja þetta frv. fram fyr. Þar sem jeg er dagskránni samþykkur, er frsm. nefndar, sem ber fram þetta frv., þá ætla jeg ekki að greiða atkv. um dagskrána. Þetta frv. nær hvort sem er ekki fram að ganga nú, vegna tímaskorts, og kemur þá til kasta stjórnarinnar að leggja það eða annað í líka átt, fyrir næsta þing, sem að áliti hæstv. forsætisráðh. (J. M.) verður í vetur. En jeg get ekki skilið, að stjórnin geti vikið mikið frá þessu frv., svo vel er það undirbúið. Þessu vildi jeg skjóta til hæstv. forsætisráðh. (J. M.), því allar líkur eru á, að hann eigi áfram sæti í stjórninni; það er sennilegt, að byrinn beri hann í sömu höfn, þó hann hafi nú um tíma undið segl við hún og stefnt í aðra átt. Jeg vona, að lögfræðiþekkinguna vanti þá ekki og ekki þurfi að finna að frv. þess vegna.