27.08.1919
Efri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í C-deild Alþingistíðinda. (3090)

46. mál, hafnarlög fyrir Ísafjörð

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Eins og nál. ber með sjer, er nefndin einróma samþykk því, að þetta frv. nái fram að ganga. Nefndin játar það, að hafnarfyrirtæki sjeu eitt af því fyrsta, sem þingi og stjórn beri að hlynna að sem best. Að öðru leyti nægir að vísa til álits sömu nefndar á þingi 1917, en þá var þetta sama mál fyrir henni, og hefir hún ekki síðan breytt skoðun sinni um nauðsyn þessa fyrirtækis. Sjálfur get jeg af persónulegum kunnugleika borið um það, að sjómönnum er hin mesta nauðsyn að fá þessa höfn, með því að mótorbátaflotinn getur ekki legið á pollinum að vetrarlagi, sökum þess, að hann leggur á hverjum vetri.

Jeg skal í umboði nefndarinnar geta þess, að nefndin ætlast til þess, að verkið verði framkvæmt eftir áætlun, sem stjórnin samþykkir, og er þann veg stjórninni ætlað að hafa hönd í bagga með verkinu. Í annan stað vil jeg taka fram, að þó að ætlast væri til þess 1917, að ekki yrði ráðist í hafnargerðina fyr en dýrtíðinni ljetti af, þá er eigi hægt að binda sig nú við þessa kröfu, með því að alls óvíst er, hvað lengi dýrtíðin varir, og verður það því að vera á valdi bæjarstjórnar Ísafjarðar að meta það, hve nær fært þyki að byrja á verkinu.

Þarf jeg ekki að svo stöddu að fara fleiri orðum um frv., en skal geta þess, að samskonar frv. önnur liggja fyrir nefndinni og munu bráðlega verða afgreidd.