31.07.1919
Neðri deild: 22. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í C-deild Alþingistíðinda. (3108)

72. mál, hundaskattur

Gísli Sveinsson:

Það er nú raunar að bera í bakkafullan lækinn að tala um þetta „merkilega“ mál, enda var ástandið hjer í hv. deild um tíma svo, að ekki heyrðist hundsins — jeg meina manns mál. Þegar jeg fór að athuga þetta frv., þá komst jeg brátt að þeirri niðurstöðu, að hv. fjárhagsnefnd hefir ekki litið á þau lög, sem gilda um þetta efni. Jeg bjóst þó við því, að nefndin mundi gera það, því að það getur altaf komið fyrir, að flm. sjáist yfir slíkt, eða þeir sjeu ekki öllum hliðum máls kunnugir, sjerstaklega ef þeir eru úr kaupstað og þekkja lítið inn í hundahald, slíkt sem hjer um ræðir, eða lögin gera ráð fyrir. En heil nefnd, sem þar að auki er skipuð góðum mönnum úr sveit, ætti að vita, að miklu fleiri hundar eru þarfir heldur en þeir, sem lögin reikna sem slíka. Í lögunum er svo ákveðið, að hundar sjeu því að eins þarfir á bæ, að bóndinn búi á einu hundraði eða meira. Nú er það alkunna, að úti um land er fjöldi hunda mjög svo gagnlegir, þótt ekki sje búið á einu hundraði eða meira. Í öllum smákaupstöðum eða kauptúnum eru sem sje menn, sem hafa einhver jarðarnot og eiga nokkrar skepnur, hross, kindur og kýr, og þurfa engu síður að smala þeim heldur en sveitabóndinn; þurfa þeir því nauðsynlega á hundum að halda. Að láta nú þessa menn borga hvort heldur 100 eða 50 krónur í sveitasjóð af slíkum þarfahundi, það nær ekki nokkurri átt. Það, sem jeg vil því leggja til, er hið sama og háttv. þm. Stranda. (M. P.) mintist á. (M. P.: Hv. þm. (G. Sv.) hefir þá heyrt síðari hl. ræðu minnar). Já, því þá var hundgáin í deildinni ekki eins áköf. Hv. þm. Stranda. (M. P.) vildi láta gefa sveitar- og bæjarstjórnum heimild til þess að leggja skatt á þá hunda, sem óþarfir væru. Þetta felli jeg mig vel við, og vildi jeg því fara þess á leit við nefndina, að hún vildi nú taka málið út af dagskrá, og kæmi sjálf með breytingar í þessa átt. Allir vita, að tekjuauki landssjóðs verður enginn við þennan skatt, og ekki veit jeg heldur til, að nein beiðni hafi komið fram frá sveitarstjórnum um þetta efni. Finst mjer því rjettast að láta þær um þetta atriði að öllu leyti.