16.08.1919
Efri deild: 32. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í C-deild Alþingistíðinda. (3128)

72. mál, hundaskattur

Frsm. (Halldór Steinsson):

Eins og frv. þetta kom frá Nd., var ákveðinn 50 króna skattur á öllum óþarfahundum. — En samkvæmt eldri lögum, frá 22. maí 1890, eru þeir hundar taldir óþarfir, sem eru eign þeirra manna, utan kaupstaða, er ekki hafa jarðarafnot svo 1 hndr. nemi. — En fleiri geta haft þörf fyrir hunda en þeir, sem búa á 1 hndr. — í kaupstöðum er oft nauðsynlegt fyrir þá menn, er rækta tún, að hafa hunda til að verja þau fyrir ágangi fjenaðar og stórgripa.

Í fleiri tilfellum má benda á þarfa hunda, þó ekki hafi menn grasnyt. — Í Reykjavík munu t. d. hundar hafðir til að verja geymslupláss og pakkhús. Einnig má benda á, að á ferðalögum eru hundar oft betri en góðir fylgdarmenn, og hefi jeg sjálfur reynslu í því efni. —

Nefndin hefir þó ekki sjeð sjer fært að ganga svo langt, að undantaka alla þá hunda, sem talist geta þarfir, og hefir því lagt til, að hreppsnefndum og bæjarstjórnum sje gefin heimild til að lækka skattinn niður í 10 kr., þegar hundsins er, að þeirra áliti, sjerstök þörf, til verndar grasrækt. — Er ekki mikil hætta á, að hreppsnefndir eða bæjarstjórnir misbeiti þessari heimild, þar sem skatturinn rennur í hrepps- eða bæjarsjóð, og auk þess munu læknar telja það skyldu sína að hafa eftirlit með því, að sem fæstir óþarfahundar væru í hjeruðum þeirra, og ef um þá væri að ræða, að eigendur þeirra þá ekki slyppu við skatt af þeim.

Nefndin leggur því til, að frv. verði samþykt með breytingum þeim á þgskj. 362, er hún stingur upp á. —