16.08.1919
Efri deild: 32. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í C-deild Alþingistíðinda. (3129)

72. mál, hundaskattur

Guðjón Guðlaugsson:

Mjer þykir háttv. fjárhagsnefnd hafa tekið æði mjúkum höndum á frv. þessu, ekki merkilegra en það er, Jeg hefði búist við, að hún hefði ráðið deildinni til að fella það; að minsta kosti sje jeg enga ástæðu til þess, að það verði samþykt.

Það sjest á brtt., sem hv. þm. Snæf. (H. St.) hefir skrifað, að hann hefir gert það með hálfum hug, sbr. það, sem hann sagði áðan. — Nefndi hann ýmsar tegundir hunda, sem væru til gagns. — Tók hann fram, að hundar gætu verið bestu förunautar í ferðalagi og vitnaði þar til eigin reynslu. — Sumir hundar eru lagnari að veiða rottur en bestu kettir, og fleira mætti nefna, ef á þyrfti að halda. —

Jeg skil því eigi, hvers vegna það er gert að skilyrði í brtt., að til þess, að bæjarstjórn eða hreppsnefnd hafi heimild til að færa skattinn niður í 10 kr., þurfi hundurinn að vera þarfur til verndar grasrækt.

Með þessu eru útilokaðir allir aðrir þarfahundar en þeir, sem hafðir eru í þessum eina tilgangi. — Mjer skilst, að hv. þm. Snæf. (H. St.) hafi haft í huga, að mál þetta væri helst þess vert, að það yrði felt; að öðrum kosti hefði ekki átt að taka einn hundaflokk svona út úr. —

Hvað því viðvíkur, hvað sjeu óþarfahundar, er eins og þm., sjerstaklega í hv. Nd., hafi ruglast á gömlum lögum, sem afnumin voru með lögunum frá 1890. — Þar eru óþarfahundar nefndir. — Samkv. þeim voru skipaðar nefndir í hverjum hreppi, er skyldu meta, hversu margir hundar væru nauðsynlegir á hverjum bæ, saman borið við fjáreignina. — Þessir hundar voru skattfrjálsir, en af þeim, sem umfram voru, skyldi greiða skatt. —

Nefndir þessar ræktu svo starf sitt, að þær töldu jafnmarga hunda nauðsynlega, sem menn vildu hafa á hverjum bæ, þannig, að oft voru 4–5 hundar þar, sem komast hefði mátt af með 1. —

Þegar menn fóru að skilja skaðsemi hunda í sambandi við sullaveiki, voru samin lögin frá 1890, er tóku upp það ráð, að skatta hunda í sveitum með 2 kr., hvort sem þeir eru þarfir eða ekki, en með 10 kr. hunda þeirra manna, er ekki búa á 1 hundraði. — Þetta hefir lánast hingað til, og finst mjer þessi 10 kr. skattur nægilegur. —

Fáir leika sjer að að hafa hunda, sem þeir hafa enga þörf fyrir. — Kostnaður er töluverður við að ala þá, og auk þess eru þeir oft til óþrifa, svo fáir kæra sig um að hafa þá að gamni sínu.

En að setja eins háan skatt á hunda og farið er fram á í nál., get jeg ekki felt mig við, þó hann sje ekki eins gífurlegur og gert var upphaflega í Nd. — Jeg býst við, að hreppsnefndir muni ekki nota sjer af því, í flestum tilfellum, að hafa skattinn hærri en 10 kr.,

þótt hundur kunni að þykja óþarfur. — 50 kr. skattinn mætti leggja á hunda, sem beinlínis væru til skaða á þann hátt, að leggja skepnur í einelti, en þá liggur nær að veita stjórnarvöldunum heimild til að útrýma slíkum dýrum.

Jeg tel frv. þetta einkis virði. — Nær væri að hækka allan hundaskatt lítið eitt, t. d. upp í 3 kr. — Sveitirnar hafa kostnað af hundahreinsuninni, og væri því ekki nema eðlilegt, að þær fengju hann endurgreiddan á þann hátt. —