12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í C-deild Alþingistíðinda. (3156)

149. mál, þingsköp Alþingis

Flm. Einar Arnórsson):

Jeg tel óþarft að eyða mörgum orðum að þessu máli, því að það er gerð nægilega glögg grein fyrir því í greinargerðinni, sem fylgir frv.

Jeg skal fyrst geta þess, að þetta er eina frv., sem fram hefir komið á þessu þingi, að því er jeg best veit, er horfir til sparnaðar. Alt annað, eða flest að minsta kosti, fer fram á auknar fjárveitingar. Þetta er eina undantekningin.

Aðalástæðan fyrir frv. þessu er sú, að eftir reikningi skrifstofustjóra Alþingis sparast landinu 45–50 þús. kr. þetta ár og líklega hjer eftir, ef hætt verður að prenta Alþingistíðindin. — Prentkostnaðurinn hefir aukist um 416%, eftir reikningi skrifstofustjóra, síðan stríðið hófst, eða meira en fimmfaldast, með öðrum orðum. Og þegar þing er háð á hverju ári, þá sparast þessi kostnaður árlega, ef frv. verður samþ. Jeg skal ekki neita því, að það sje kostur að öðru jöfnu að hafa þingræðurnar prentaðar. En það er vafamál, hvort það svarar hins vegar kostnaði. Það er óvíst, að þingræðurnar á Alþingi sjeu þær gullnámur, að vert sje að leggja þetta í kostnað, til þess að koma þeim á prent. Við flm. frv. álitum þær ekki vera þess verðar.

Ef um það væri að ræða, að ræðurnar væru birtar með sama efni að öllu leyti, sem þær voru haldnar, þá mætti segja, að gefin væri rjett mynd af því, sem hjer er sagt. (Atvinnumálaráðh.: Og orðfæri). Jeg er nú svo frjálslyndur, að jeg leyfi orðabreytingar. En því er ekki að heilsa. Það þarf ekki annað en líta á leiðrjettingarnar og bera þær saman við það, sem maður heyrði þm. segja, til þess að ganga úr skugga um, að þetta er ekki rjett mynd. Hárrjett mynd næst ekki fyr en hægt er að fá þaulæfða hraðritara til þess að skrifa ræðurnar um leið og þær eru haldnar.

Á þingi 1909 kom fram frv., sem fór í sömu átt, en náði ekki fram að ganga. Og jeg skil, að menn hafa verið á móti þessu þá, því þá voru þingtíðindin styttri en nú, kostnaður minni og málin færri. En nú verður þing haldið á hverju ári. Þingtíðindin stækka ár frá ári, því að málunum fjölgar, sem vonlegt er, þar sem fleiri mál kalla að. Auðvitað er það ekki tilgangurinn, að ræðurnar verði ekki skrifaðar, leiðrjettar og geymdar í skjalasafni þingsins. Það er á valdi hvers eins að birta ræður sínar. Fæstir munu vera svo heillum horfnir, að þeir geti ekki birt ræður sínar í blöðum. Hins vegar lesa fáir þingtíðindin. Það er ákveðið að senda þau sýslumönnum, hreppstjórum og hreppsnefndaroddvitum. Og jeg held, að þeir sjeu ekki ýkjamargir, sem lesa þau ofan í kjölinn, eða að minsta kosti er það ekki svo þar, sem jeg þekki til. Þar sem ástæðurnar til að prenta þingtíðindin eru ekki ríkar að dómi okkar flm., en sparnaðurinn á hinn bóginn töluverður, höfum við borið fram frv. þetta.

Hygg jeg, að jeg hafi tekið flest það fram, sem þörf er á, og skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar.