12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í C-deild Alþingistíðinda. (3157)

149. mál, þingsköp Alþingis

Magnús Pjetursson:

Jeg skal byrja á því, sem háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) endaði á, að jeg skal ekki vera fjölorður, enda býst jeg við, að það sje ekki til mikils, því að það er ekki álitlegt að ráðast á þá fylkingu, sem að frv. stendur.

Jeg vil samt ekki láta frv. ganga svo til atkvæða, að jeg lýsi ekki yfir því, að jeg er því ósamþ. og ekki síst eftir að hafa heyrt ástæður hv. aðalflm. (E. A.). Hann kom ekki með neitt, er rjettlæti frv. Hann sagði að vísu, að þetta væri gert til þess að spara, og það var eina ástæðan, sem hjer gat verið um að ræða. En ef á að miða eingöngu við það, þá er ástæða til að spara fleira. Það má t. d. ákveða, að hjer skuli ekkert annað fram fara en atkvæðagreiðsla. Jeg skil ekki, hvers vegna sporið er ekki stigið alveg út og mönnum bannað að tala hjer á Alþingi. Það kom líka fram hjá háttv. flm., að betra væri að prenta þingtíðindin. En það var þetta, sem hann hafði sjerstaklega á móti, að þau væru ekki rjettur spegill þess, sem hjer væri sagt. Þetta getur verið rjett. En bótin á því er ekki að hætta að prenta þingtíðindin, heldur hitt, að fá hraðritara. Hann gerði ráð fyrir, að ræðurnar væru leiðrjettar eftir sem áður og geymdar í handriti. En þær verða ekki þrátt fyrir það rjettur spegill, eftir hans kenningu. Hjer ber því alt að sama brunninum. En ef það væri meiningin hjá flm. að geyma handritin til þess að prenta þau síðar, þá er frv. ekki rjett orðað, því þá væri að eins um frestun að ræða vegna dýrtíðarinnar, sem nú er. En slík frestun gæti þó heldur komið til mála.

Flm. (E. A.) sagði, að þeir væru fáir, sem fengju þingtíðindin. Þetta er rjett. En þeir eru miklu fleiri, sem lesa þau. Það er algengt, að menn fái þau ljeð. Þetta veit jeg vel um, af eigin reynd, því að jeg hefi oft ljeð þau, og ef eftirspurnin er eins mikil hjá öðrum, sem fá þau, þá komast þau ekki í fárra manna hendur. Enda munu þm. vita, að á þingmálafundum er það oft rekið framan í mann hvað eftir annað, sem prentað er í þingtíðindunum. Og jeg er sannfærður um, að hv. flm. (E. A.) hefir einhvern tíma orðið fyrir þessu. Að minsta kosti heyrist ósjaldan vitnað í ræðu, sem þessi eða hinn þm. hafi haldið í einhverju máli.

Ef á að taka upp þann sið, að hætta að prenta ræðurnar, þá finst mjer rjettast að hætta að tala á Alþingi — Jeg geri ráð fyrir, að þingtíðindin sjeu hið eina, sem kjósendur geta haft til þess að hafa hendur í hári okkar fyrir, þegar við komum heim, svo framarlega sem nokkuð er sagt. Jeg tel því betra að stíga sporið fult út og hætta öllum umræðum, því að ekki er til neins að vera að halda ræður í því skyni að sannfæra deildina; menn eru oftast ákveðnir fyrirfram. En af þeirri ástæðu ætti ekki að banna mönnum að láta skoðun sína opinberlega í ljós, til þess að almenningur geti dæmt um þau rök, sem fram hafa komið. En ef á að fara að spara þinghaldið á annað borð, þá er best að ganga lengra. Mætti t. d. fækka þm., ákveða, að þingið skuli aldrei standa lengur en þetta og þetta og hætta öllu skrifarahaldi. Einnig mætti og hætta að prenta till. og hafa þgskj. skrifuð. Þannig fengju þá hv. flm. breiðari veg til sparnaðar, sem jeg vil hjer með benda þeim á, úr því þeir eru hvort sem er komnir út á þann breiða veg í þessu efni.